Modular framleiðsla, borða fjöll augum og sviðsmyndir á borðinu

Orðlof

Meginflokkar málshátta

Málshættir eru afar fjölbreytilegir að merkingu. Til einföldunar verður hér gert ráð fyrir að meginflokkar þeirra séu tveir:

(1)Spakmæli eða orðskviðir sem vísa til almennra sanninda og snerta þá lífsviðhorf og lífsspeki eða meginreglu og 

(2) heilræði sem fela í sér ráðleggingar, boð eða bönn.

Til spakmæla eða orðskviða teljast til dæmis eftirfarandi:

(1) Allar ár renna í sjó; Ekki tjáir að kvíða ókomnum degi; Með gleði skal harmi hrinda; Engum er alls léð né alls varnað; Sjón er sögu ríkari; Ást fylgir aums gjöfum; Upp koma svik um síðir; Oft eltir lítil þúfa þungu hlassi og Kemst þó hægt fari.

Undir heilræði falla til dæmis eftirfarandi:

(2) Allt er með ráði gjörandi; Betra er lítið réttfengið en mikið rangfengið; Sá er krankur er skal eta kál; Þegja er betra en frá að segja; Þekktu sjálfan þig og Gerðu illum gott og þakkaðu fyrir að hann drepur þig ekki.

Skipting þessi er vitaskuld mjög gróf en hún gefur þó ákveðna vísbendingu hvert meginstraumarnir liggja.

Jón G. Friðjónsson. (1997). Rætur málsins; föst orðasambönd, orðatiltæki og málshættir í íslensku biblíumáli. Íslenska bókaútgáfan.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

14 fyr­ir­tæki sem ekki vilja láta nafns getið …“

Frétt á mbl.is.                       

Athugasemd: Halló, er enginn á Mogganum sem getur tekið að sér að leiðbeina blaðamönnum sem aldrei hafa sjálfviljugir lesið bækur, þeim sem aldrei hafa skrifað stafkrók nema að kröfu kennara og liðinu sem skrifar fréttir en kærir sig kollótta um lesendur? Má vera að öllum sé sama.

Reglan er þessi; Ekki skal byrjar setningu á tölustöfum. Þetta er hvergi gert.

Eftir þrjú fyrstu greinaskilin í stuttri frétt byrjar blaðamaðurinn á tölustöfum:

  1. 14 fyr­ir­tæki sem ekki vilja láta nafns getið …
  2. 6.500 sótt­varn­ar­grím­ur …
  3. 11 önd­un­ar­vél­ar auk búnaðar …

Telji einhver sig þurfa rökstuðning fyrir þessu er hann á rangri hillu, tók ekki eftir í skóla, aflar sér ekki þekkingar og er ekki með hugann við starfið.

Leiðbeiningar finnast á ensku um þetta. Sjá þennan vef:

It is considered untidy to start sentences with figures. You should either reword your sentence or write the number in full.

Hér er tilvitnun frá BtB í Canada.

Spell out a number—or the word number—when it occurs at the beginning of a sentence, as well as any related numbers that closely follow it …

Tölustafir í upphafi setningar er eins og að byrja ekki á hástaf eftir punkt. Enginn gerir slíkt … Jú, líklega, en leiðréttingaforrit bjarga oftast skrifurum frá niðurlægingunni.

Tillaga: Fjórtán fyr­ir­tæki sem ekki vilja láta nafns getið …

2.

Húseining getur nú boðið fjölbreytta modular framleiðslu …

Auglýsing á blaðsíðu 9 í Morgunblaðinu 11.4.20.                      

Athugasemd: Hvað er „modular framleiðsla“? Engin skýring er á orðinu í auglýsingunni heldur klifað á orðinu „modular“ sem er ekki íslenska, líklega enska.

Í auglýsingunni er fyrirtæki nefnt sem er:

… einn stærsti modula framleiðandi í Evrópu.

Vel má vera að þorri þeirra sem lesa auglýsinguna séu betur að sér í útlensku en ég. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að auglýsingin er á íslensku og henni er ætlað að ná til Íslendinga. Hvers vegna er þá orðið „modular“ og „modular framleiðsla“ ekki útskýrt?

Grundvallaratriðið í markaðssetningu vöru og þjónustu er að fólk viti hvað verið er að kynna. Auglýsingin er óskiljanleg vegna þess að lykilhugtakið, „modular“, er óskýrt.

Aðalatriðið er þó þetta; Slett er inn orðið sem er óskiljanlegt venjulegu fólki og auglýsingin missir marks.

Á vef Wikipedia segir um „modular bulding“:

Modular buildings and modular homes are prefabricated buildings or houses that consist of repeated sections called modules.

Að öllum líkindum eru þetta svokölluð einingahús en það er auðvitað ekki eins fínt orð og „modular“ hús. 

Stundum er erfitt að þýða framandi orð af erlendu máli yfir á íslensku. Þá eiga allir skrifarar eina góða lausn. Í stað þess að rembast við að finna íslenska orðið sem nær merkingunni er hægur vandi að orða hana með fleiri orðum. Nonni vinur minn var um daginn í vandræðum, mundi ekki í snarhasti eftir orðinu skófir og skrifaði þess í stað sagði hann:

Gróður sem grær á steinum.

Börnunum hans þykir fátt betra en grjónagrautur en hann gleymdi pottinum á eldavélinni og hann brann við, öllum til vonbrigða. Þegar hann var að þrífa grautarpottinn, skafa innan úr honum, mundi hann allt í einu eftir orðinu sem hann hafði leitað eftir fyrr um daginn. Skófir vaxa fastar á steinum.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

Í­búar Pun­jab héraðs geta borðið Himala­ya-fjöllin augum í fyrsta sinn í ára­tugi þar sem mengun skyggir ekki lengur á sýn þeirra.

Frétt á frettabladid.is.                       

Athugasemd: Þetta er átakanleg fyrirsögn, hreinlega grátleg. Varla afsakanleg. Einhvern tímann hefur blaðamaðurinn rekist á orðasambandið að berja eitthvað augum. Má vera að íslenskukennarinn hans hafi nefnt það og útskýrt. Það er hins vegar ekki nóg að kannast við eitthvað.

Betra er að sleppa klisjum og orðalagi af þeirri ástæðu einni að maður getur farið vitlaust með. Það væri sorglegt fyrir blaðamann.

Fréttin birtist rétt fyrir klukkan níu á föstudaginn 10. apríl. Klukkan 21, degi síðar var ekki búið að leiðrétta vitleysuna. Vera má að blaðamenn Fréttablaðsins lesi ekki vefinn yfir, ekki heldur fréttastjórar eða ritstjórar. Ekki eru það nú góð meðmæli með vefnum.

Á Vísindavefnum segir:

Í nútíma máli eru elst dæmi Orðabókar Háskólans um að berja einhvern eða eitthvað augum frá síðasta þriðjungi 19. aldar. Merkingin er að ’koma auga á einhvern eða eitthvað’. Sögnin að berja merkir að ’veita högg, slá’, og er hér notuð í yfirfærðri merkingu. Augun lenda á einhverju eins og högg þegar menn koma auga á einhvern eða eitthvað, horfa hvasst á einhvern eða eitthvað.

Stundum hendir það að fólk sem aldrei hefur lesið lesið annan texta en á snjallsíma og aldrei skrifað neitt nema smáskilaboð að það fær vinnu í blaðamennsku. 

Undir handleiðslu góðra samstarfsmanna og yfirmanna er hugsanlega hægt að búa til þokkalegan skrifara. Orðasafn þeirra sem alla tíð hafa vanrækt bóklestur er rýrt. Með lestri bóka safnast í orðabelginn og skilninginn, allt ósjálfrátt. Er það ekki stórkostlegt?

Þó má segja að aldrei er of seint að hefja bóklestur. Mæli með því að byrja á léttum barna- og unglingabókum og feta sig síðan yfir í Laxdælu, Eyrbyggju, Njálu, Egils sögu, Sturlungu og bækur eftir Halldór Laxnes, Gunnar Gunnarsson, Einar Kárason, Guðmund Andra Thorsson svo nokkrir afburðagóðir rithöfundar og íslenskumenn séu nefndir.

Og ekki gleyma ljóðskáldunum, allt frá Agli Skallagrímssyni, til Jónasar Hallgrímssonar og fram til þessa dags. Ó, drottinn minn dýri. Íslensk þjóð á svo stórkostleg ljóð. Hvaðan kemur þetta erindi (ekki gúgla, brjóta frekar heilann)?

Mjög erum tregt,
tungu að hræra
eða loftvægi
ljóðpundara;
era nú vænlegt
um Viðurs þýfi
né hógdrægt
úr hugar fylgsni.

Og hvað merkir ljóðpundari og Viðurs þýfi? Allt liggur í augum uppi þegar svarið er komið, rétt eins þegar ský dregur frá sólu. En nú er ég kominn óravegu frá umræðuefninu.

Tillaga: Í­búar Pun­jab héraðs geta séð Himala­ya-fjöllin í fyrsta sinn í ára­tugi þar sem mengun skyggir ekki lengur á sýn þeirra.

4.

KSÍ fundar með almannavörnum í vikunni: Margar sviðsmyndir á borðinu.

Fyrirsögn á visir.is.                        

Athugasemd: Fyrirsögnin er ekki alröng. Athugasemdir lýtur að myndrænni frásögn frekar en að orða hlutina beint. Það sem er á borðinu merkir hér það sem er til skoðunar, kostir og svo framvegis.

Eitt er þó rangt. Fréttin er dagsett laugardaginn 11. apríl. Þar með er rangt að segja að haldinn verði fundur um málið í vikunni. Líklegast er að fundað verði í næstu viku.

Ég get trúað því að einhver segi nú að þetta sé smáatriði. Vissulega má halda því fram. Hins vegar er tímasetningin röng. Hvar eigum við að draga línuna, hvað er smáatriði og hvað ekki? 

Er allt í lagi að fullyrða að það sem sagt er að gerist í þessari viku muni verða í næstu viku? Eiga lesendur bara að lesa það úr fréttinni sem blaðamaðurinn ætlast til? Nei, það er ekki blaðamennska heldur rugl sem á ekki að sjást á vönduðum fréttamiðli. Fréttir eiga að vera nákvæmar annars standa þær ekki undir nafni.

Tillaga: KSÍ fundar með almannavörnum í næstu viku: Margir kostir til skoðunar.

5. 

Njótið páskanna.

Ummæli kynnis í lottóþætti í Ríkissjónvarpinu.                       

Athugasemd: Hugafari þess sem mælir skiptir öllu. Þökk fyrir. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort hin aldagamla kveðja; Gleðilega páska, sé við það að hverfa. Í henni felst að sjálfsögðu von um að sá sem hún er beint til megi njóta hátíðarinnar.

Auðvitað má hvetja fólk til að njóta hátíðisdaga. Ekki er verra að segja einfaldlega gleðilega páska eða gleðilega hátíð, allt eftir því sem við á hverju sinni. Þetta er einfaldlega falleg kveðja. Munum samt að páskarnir byrja á sunnudegi, páskadag.

Tillaga: Gleðilega páska.

 

Gleðilega páska


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband