Tekur fanga aftur af lífi, flugvél hvolfir á jörðu niðri og sekt eða sök

Orðlof

Aðal

Nafnorðið aðal (hk.) merkir eðlisfar, einkenni; jákvæður eiginleiki eða einkenni, t.d.: 

    • aðal hvers háskóla á að vera ....; 
    • prúðmennska og drengskapur ætti að vera aðal góðs íþróttamanns og 
    • Mál er mannsins aðal, 

sbr. einnig samsetninguna aðalsmerki. 

Í nútímamáli er því stundum ruglað saman við aðall (kk.) en það styðst ekki við málvenju. Í Konungsskuggsjá segir t.d.: 

það er kaupmanna aðal að kaupa jafnan og selja síðan skyndilega 

og í Hávamálum stendur: 

*fimbulfambi heitir, 
sá er fátt kann segja, 
þat er ósnotrs aðal.

Morgunblaðið, Íslenskt mál, 114. þáttur, Jón G, Friðjónsson.

Til viðbótar: Snotur merkir þarna vitur maður, snjall, skynugur. Ósnotur er andheitið. Af snotur er dregið sögnin að snotra sem merkir að gera vitran, fræða.  Af orðinu eru dregin orðin snyrtir, snyrting, snyrtilegur og snyrta. Sjá nánar á malid.is. 

103. Heima glaður gumi
og við gesti reifur,
svinnur skal um sig vera,
minnugur og málugur,
ef hann vill margfróður vera.
Oft skal góðs geta.
Fimbulfambi heitir
sá er fátt kann segja:
það er ósnoturs aðal.

Fimbulfambi merkir mjög heimskur maður.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Solskjær skipar Woodward að næla í Maguire og það sem fyrst.“

Fyrirsögn á visir.is.     

Athugasemd: Þetta er afar lítið upplýsandi fyrirsögn nema fyrir þá fáu sem eru vel að sér í nöfnum í enskum fótbolta. Fyrsta nafnið er kunnuglegt og vísar í fótbolta. Hin nöfnin eru flestum ókennileg.

Í stuttu máli eru þjálfari fótboltafélagsins Manchester United og stjórnarformaður að fjalla um leikmann sem sé fyrrnefndi vill láta kaupa. Kjánalegt er að nota sögnina að „næla“ í þessu tilviki.

Goggunarröðin er hins vegar á þann veg að þjálfari er upp á náð stjórnar félagsins kominn og formaðurinn er afar valdamikill enda hugsanlega meirihlutaeigandi hlutafélagsins.

Allt bendir til þess að þjálfarinn hafi óskað eftir því að félagið kaupi leikmanninn sem heitir Harry Maguire. Í fréttinni sjálfri segir:

Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United, hefur gefið Ed Woodward, stjórnarformanni félagsins, þau skilaboð að hann vilji fá varnarmanninn Harry Maguire til liðsins og það strax.

Hvort skipaði Solskjær stjórnarformanninum eða „gaf“ honum skilaboð? Blaðamaðurinn er orðinn tvísaga í örstuttri frétt. 

Rétt er að vekja athygli á enskuskotnu orðalaginu. Á íslensku „gefur“ enginn öðrum skilaboð heldur sendum við skilaboð, biðjum fyrir þau eða álíka. 

Svo segir í fréttinni:

Woodward hefur ekki verið með United í æfingaferð sinni um Ástralíu og Asíu til þess að vinna í kaupunum en hefur þó ekki enn náð samkomulagi við Leicester um kaupverð.

Var þetta æfingaferð Woodwards eða United. Orðalagið getur bent til þess að sá fyrrnefndi hafi verið í eigin æfingaferð. Raunar er þessi málsgrein tóm þvæla og skilst varla. Woodward var ekki með félaginu í æfingaferðinni „til þess að vinna í kaupunum …“ Bull.

Fréttin er sex línur á vefnum og fátt rétt. Enginn les yfir og öllum er sama þó við neytendur fáum skemmda frétt.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

„Taka fanga aftur af lífi eftir áralangt hlé.“

Fyrirsögn á visir.is.     

Athugasemd: Stundum verða illa samdar fyrirsagnir tilefni til skemmtunar á kaffistofunni eða við kvöldverðarborðið. Ekki er erfitt að skilja þessa fyrirsögn á þann veg að nú eigi aftur að taka sama fangann af lífi, að minnsta kosti reyna það.

Þá kemur ósjálfrátt upp í hugann niðurlagið á Passíusálmi nr. 51 eftir Stein Steinar. Hrein snilld í einfaldleika sínum:

Á Valhúsahæðinni
er verið að krossfesta mann.
Og fólkið kaupir sér far
með strætisvagninum
til þess að horfa á hann.

Það er sólskin og hiti,
og sjórinn er sléttur og blár.

Þetta er laglegur maður
með mikið enni
og mógult hár.

Og stúlka með sægræn augu
segir við mig:

Skyldi manninum ekki leiðast
að láta krossfesta sig?

Líklega leiðist fanganum að láta taka sig af lífi ...

Mun betur fer á því að hafa fyrirsögnina eins og segir í tillögunni hér fyrir neðan.

Tillaga: Aftökur hefjast eftir áralangt hlé.

3.

„Óhapp varð þegar einshreyfils flugvél kom til lendingar á Haukadalsflugvelli á Rangárvöllum á sjötta tímanum í gær. Vélin snerist í lendingunni og stöðvaðist á hvolfi á jörðu niðri.“

Frétt á visir.is.     

Athugasemd: Svona er hægt að hnoðast með einfalt mál. Óhappið varð ekki er flugvélin kom til lendingar, hún var lent. 

Eins gott að taka fram að hún hafi stöðvast „á jörðu niðri“. Hugsa sér ef hún hefði stöðvast í lofti. Það hefði þá verið frétt.

Blaðamaður hefði mátt skipuleggja frásögnina, hætta hnoði, segja frá staðreyndum og setja punkt. Hann segir of mikið, til dæmis hér:

Flugsviði rannsóknarnefndar samgönguslysa var gert viðvart og hefur málið nú á sinni könnu.

Nóg hefði verið að segja:

Rannsóknarnefnd samgönguslysa var tilkynnt um slysið.

Lesendur vita að nefndin rannsakar slysið sem flugslys, ekki bílslys eða skipsstrand. Tilgangslaust er að segja að það sé á hennar könnu, það liggur í augum uppi.

Ekki er vitað um tjón á flugvélinni en Oddur Árnason yfirlögregluþjónn á Suðurlandi gerði ráð fyrir að vélin væri töluvert skemmd.

Flugvélin snérist í lendingu og lenti á hvolfi. Lesendur geta ábyggilega ímyndað sér að hún sé skemmd. Engu að síður er vitnað í lögreglumann sem veit þó ekkert um skemmdirnar og hann fullyrðir það sem lesendur hafa fengið á tilfinninguna, það er að vélin sé skemmd. Þetta er engin blaðmennska, bara óskipulagt hnoð með orð.

Aldeilis furðulegt er hversu margar fréttir á Vísi eru gallaðar, jafnvel skemmdar. Greinilegt að ritstjórinn hefur ekkert eftirlit með því sem birt er og ber enga ábyrgð á slæmu máli sem er dreift meðal lesenda. Matvælafyrirtæki sem uppvíst eru að því að framleiða skemmda vöru er skipað að taka hana úr dreifingu.

Tillaga: Óhapp varð þegar einshreyfils flugvél lenti á Haukadalsflugvelli á Rangárvöllum á sjötta tímanum í gær. Vélin snerist í lendingunni og hvolfdi.

4.

„Konan heitir Sherra Wright og viðurkenndi sekt sína í réttarsal í Memphis í gær.“

Frétt á visir.is.     

Athugasemd: Talsverður munur er á sekt og sök. Samkvæmt orðabókinni er sekt sú fjárhæð sem greidd er í bætur eða sem refsing, samanber fésekt.

Sekur er hins vegar sá sem hefur viðurkennt sök eða er dæmdur sekur. Orðið merkir misgerð sem getur verið af ýmsu tagi. Blaðamaðurinn er annað hvort fljótfær eða þekkir ekki muninn og segir konu sem viðurkenndi morð á fyrrum eiginmanni sínu hafa viðurkennt „sekt“. Um það var ekki að ræða.

Fyrirsögn fréttarinnar er svona:

Fyrrum eiginkona NBA-leikmanns á leið í 30 ára fangelsi fyrir morðið á honum.

Tilhneigingin hér er að nota nafnorðið morð en ekki sögnina að myrða. Þetta ber öll einkenni slakrar þýðingar úr ensku og það sem verra er slakrar þekkingu á íslensku.

Með öðrum og einfaldari orðum sem henta betur í fyrirsögn:

Fyrrum eiginkona NBA leikmanns dæmd í 30 ára fangelsi fyrir að myrða hann.

Í fréttinni segir ennfremur:

Hann endaði ferilinn með Cleveland Cavaliers tímabilið 2008-09.

Enskan er undirliggjandi. Á íslensku er sagt að hann hafi lokið ferli sínum.

Næsta málsgrein er svona:

Rúmu ári síðan yfirgaf Lorenzen heimili sitt en sást ekki á lífi aftur.

Enn skín enskan í gegn. Hvaða tilgangi þjónar atviksorðið „síðan“? Ætlaði blaðamaðurinn að skrifa: Rúmu ári síðar …? Málsgreinin er hins vegar hnoð. Betur fer á því að segja:

Rúmu ári síðar hvarf Lorenzen frá heimili sínu og sást ekki framar.

Fréttin er hroðvirknislega samin og viðvaningsleg. Í henni er nástaða og endurtekningar.

Tillaga: Konan heitir Sherra Wright og viðurkenndi sök sína fyrir rétti í Memphis í gær.

 

 

Smælki

Hrun?

Hrundi niður stiga á skemmtistað.Fyrirsögn á visir.is.

Tillaga: Datt í stiga á skemmtistað.

Fróðleikur

Þorskur

Samheiti; auli, blóðseiði, bútungur, býri, fiskur, fyrirtak, golþorskur, kastfiskur, kóð, maurungur, murti, næli, særingur, sá guli, seiði, smáþyrsklingur, sprotafiskur, stútungur, styttingur, þyrsklingur.

[norskt bókmál] gjedd,
[enska] Atlantic cod,
[danska] torsk,
[franska] cabillaud,
[latína] Gadus morhua,
[þýska] Dorsch,
[spænska] bacalao,
[færeyska] toskur,
[portúgalska] bacalhau 

Sjá Orðabanka íslenskrar málstöðvar og malid.is

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Íþróttafréttamanni nokkrum var eitt sinn að orði:

"Frábær markvarsla hjá markmanninum í markinu!"

(Markvarsla út við hornfána væri umtalsvert fréttnæmari.)

Hér fyrr á árum birtist ítrekað fyrirsögnin:

"Skreið til Nígeríu" (Illa farið með hnéskeljarnar?)

Með þeim eftirminnilegustu er þó fyrirsögnin:

"Leoncie reið Landsbankanum" (Taldi sig hlunnfarna.)

Að öllu gamni slepptu er þó nýleg ambaga sem fer ofboðslega í taugarnar á mér. Það er þegar fréttamenn (gjarnan íþrótta-) geta ekki farið rétt með íslenskt heiti þjóðríkisins Moldavíu og nota í staðinn hið erlenda heiti þess. Ekki kalla þeir sömu Japan Nippon, Finnland Suomi eða Grænland Kalaallit Nunaat.

Guðmundur Ásgeirsson, 26.7.2019 kl. 21:07

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll. Takk fyrir þessi dæmi, sérstaklega með markmanninn. Bráðfyndið.

Ég þurfti nú að fletta því upp hvert væri nafn Moldóvíu, svo vanur er maður orðinn því á íslensku. Moldova virðist það heita, að minnsta kosti á landakortum.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 27.7.2019 kl. 09:37

3 identicon

Sæll Sigurður. Þú vitnar í Stein Steinarr. En hann segir nú samt í kvæðinu Afturhvarf: Ég viðurkenni mína synd og sekt/ ég sveikst frá öllum skyldum heiðvirðs manns. Mig minnir líka að í Biblíuþýðingunni sé talað um sekt fólks þegar átt er við hve syndugt það sé.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 27.7.2019 kl. 12:52

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Moldova á tungumáli heimamanna en Moldavía á íslensku.

Guðmundur Ásgeirsson, 27.7.2019 kl. 15:25

5 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Bestu þakkir fyrir athugasemdina, Ingibjörg. Þetta er rétt hjá þér, hins vegar hef ég heimildirnar við hendina en við þær styðst ég svo mikið. Þó verður að geta þess að í nútímamáli er yfirleitt sekt vegna sakar.

Brestu þakkir fyrir að nefna þetta fallega og djúpa ljóð Steins Steinars, Afturhvarf. Hér er það allt:

Ó, græna jörð, ó, mjúka, raka mold,
sem myrkur langrar nætur huldi sýn.
Ég er þitt barn, sem villtist langt úr leið,
og loksins kem ég aftur heim til þín.

Ég viðurkenni mína synd og sekt:
ég sveikst frá öllum skyldum heiðvirðs manns
og elti vafurloga heimsku og hjóms
um hrjóstur naktra kletta og auðnir sands.

Mitt fólk, mitt land, minn himinn og mitt haf!
Heim kemst að lokum allt, sem burtu fer.
Ég drúpi höfði þreyttu í þögn og bæn:
Þú ert ég sjálfur. Fyrirgefðu mér! 

Velta má því fyrir sér hvort höfundurinn sé að tala um skuld sína við landið, það er sekt, sektarkennd, frekar en sök sem afleiðingu af misgerð. Skáldið talar um synd og sekt, ekki ósvipað sök og sekt. En það er gröfin sem bíður.

 

 

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 28.7.2019 kl. 11:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband