Aðilar út um allt, marktilraun í varnarmann og hávaðasamur hani

Orðlof og annað

Grafgötur

Orðið grafgötur er fleirtöluorð og merkir ´djúpar, niðurgrafnar götur, niðurgrafnir stígar´. Það er notað í orðasamböndunum fara ekki í grafgötur um eitthvað eða ganga ekki í grafgötur um eitthvað sem merkja annars vegar að ´velkjast ekki í vafa um eitthvað´ og hins vegar að ´leyna einhverju ekki, láta afstöðu sína skýrt í ljós´.

Þau þekkjast þegar á 18. öld samkvæmt Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans. Jón G. Friðjónsson telur líkinguna sótta til þess að vegfarendur sjást varla ef þeir fara um niðurgrafna stíga, þeir fara leynt (Mergur málsins 2006:266).

Hann vísar í Íslenskt orðtakasafn Halldórs Halldórssonar frá 1991 (177) sem taldi að með orðasambandinu væri átt við leit í djúpum stígum, grafgötum. Bein merking væri því að ´leggja ekki í erfiða leit´. 

Vísindavefurinn, Guðrún Kvaran, prófessor.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Pizzakeðja skipti kjöti út með grænmeti án þess að láta vita af því.

Fyrirsögn á dv.is.     

Athugasemd: Pitsusalinn breytti um, hætti að bjóða upp á kjöt á pitsur en setti í staðinn „kjöt“ sem framleitt er úr grænmeti.

Allir sjá að þetta orðalag gengur ekki:

Skipta kjöti út með grænmeti.

Sé vilji fyrir því að nota orðalagið skipta út er eðlilegra að í stað með komi fyrir, hvort tveggja forsetningar.

Rétturinn gæti verið kallaður umskiptingur en það er annað mál.

Tillaga: Pitsukeðja skipti út kjöti fyrir grænmeti.

2.

„Bjarni töframaður hefur misst 20 kg á þremur mánuðum.

Fyrirsögn á dv.is.     

Athugasemd: Ég man eftir þeim tíma að fólk léttist. Núorðið missir það þyngd. Svo er oft sagt að fólk grennist um svo og svo mörg kg.

Enn er þó talað um að fólk þyngist, ekkert hjáorðavændi  í slíkum tilvikum. 

Tillaga: Pitzukeðja hætt með kjöt og setti í staðinn „grænmetiskjöt“.

3.

Aðilarn­ir sem hjóluðu utan slóðar á Græna­hryggi í Sveins­gili á friðlandi að Fjalla­baki hafa beðist af­sök­un­ar á at­ferl­inu.

Fyrirsögn á mbl.is.      

Athugasemd: Aldrei hef ég hitt aðila og þarf af leiðandi heilsað slíkum . Veit ekki einu sinni hvort aðili hafi handleggi eða útlit eins og menn, ég á við konur og karla, eða fólk.

Nú þarf að breyta ýmsum málsháttum og orðtökum:

  • Blindur er bóklaus aðili.
  • Öl er annar aðili.
  • Ertu aðili eða mús?
  • Vera aðili með aðilum.
  • Sýna sinn innri aðila.
  • Þetta er óðs aðila æði.
  • Sýna aðiladóm.

Og svo þarf að breyta mörgum orðum. Leikaðilar í boltaíþróttum, ökuaðilar undir stýri, lögaðili (þetta getur valdir vanda), sýsluaðili, Félag blaða- og fréttaaðila og svo framvegis.

Tillaga: Þeir sem hjóluðu á Græna­hryggi í Sveins­gili á friðlandi að Fjalla­baki hafa beðist af­sök­un­ar á at­ferl­inu.

4.

„Patrick Pedersen átti marktilraun í varnarmann.

Frétt á visir.is.       

Athugasemd: Fótboltalýsingar eru stundum skondnar, sérstaklega þessar þegar blaðamaður skrifar niður það markverðasta í leiknum og skrifin birtast jafnóðum á vef fjölmiðilsins. Má vera að stundum sé fljótaskrift á þessum fréttum því brýnt er að hafa hraðar hendur. Líklegra er þó að einhver tegund af blindu þjái þann sem skrifar.

Hvað sem öllum vangaveltum líður skilst ekki ofangreind tilvitnun. Samt er ég mikill áhugamaður um fótbolta. Þessi skilst ekki heldur enda sama skrautið:

Ólafur Karl Finsen átti marktilraun í varnarmann.

Og þegar þarna var komið sögu var fyrri hálfleik lokið og mér öllum.

Tillaga: Engin tillaga.

5.

„Höfða mál vegna hávaðasams hana.

Fyrirsögn á visir.is.       

Athugasemd: Af hverju „hávaðasamur“ en ekki hávær? Hið síðara er styttra og einfaldara? Engu að síður notar blaðamaðurinn lýsingarorðið hávær annars staðar í fréttinni.

Sama frétt var á mbl.is og þar notað orðið hávaðasamur.

Tillaga: Höfða mál vegna háværs hana.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sigurður, blessaður og sæll

Okkur Finnu langar að ganga á fjallið. Við mundum leggja af stað kl. 10 úr Reykjavík. Kannski rekumst við á ykkur nálægt Svartagili. Síminn minn er 8247751. 

Kær kveðja,

Baldur
PS  Varstu kannski að hugsa um að vera kominn austur kl. 10? 

Baldur Hafstað (IP-tala skráð) 5.7.2019 kl. 23:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband