Aðilar, vettvangur og áfram eða enn ...

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

Selar

Í pistli þann 4.2.2019 var rætt um snjóþekju. Í því sambandi var lýst skafrenningi sem skildi eftir sig snjórendur á veginum en autt á milli. Fyrir tilviljun rakst ég á netinu á ræðu frá málþingi á Breiðdalssetri 8. til 9. júní 2013 og í ræðu um allt annað segir Margrét Jónsdóttir:

Eftir konu að vestan er t.d. haft:

Fyrir vestan voru það kallaðir selar, þegar skóf þvert á veg og mynduðust litlir skaflar. Mér hefur vel dottið í hug, að þetta sé hljóðvilla fyrir silar, því að hún var þarna til.

Þetta er fróðlegt. Samkvæmt orðabók merki sögnin að selaskamma eða hrakyrða, en silar finnst ekki.


1.

„Fyrstu aðilar á vett­vang notuðu duft slökkvi­tæki sem slógu veru­lega á eld­inn en eft­ir að dælu­bif­reið kom á vett­vang gekk slökkvistarf greiðlega. 

Frétt á mbl.is.      

Athugasemd: Allir eru nú orðnir aðilar sem er ekki alveg samkvæmt merkingu orðsins. Á malid.is segir:

Athuga að ofnota ekki orðið aðili. Fremur: tveir voru í bílnum, síður: „tveir aðilar voru í bílnum“. Fremur: sá sem rekur verslunina, síður: „rekstraraðili verslunarinnar“.

Oft eru til góð og gegn orð í málinu sem fara mun betur en ýmsar samsetningar með orðinu aðili. 

Í fréttinni er aðili ekkert annað en maður, kona eða fólk. Notum það frekar heldur en einstaklingur, manneskja eða aðili. Athugið að þrjú síðarnefndu orðin eru að sjálfsögðu góð og gild í réttu samhengi.

Nafnorðið vettvangur er dálítið ofnotað í fjölmiðlum og tengist nær alltaf fréttum um lögreglu. Þar er stofnanamállýskan landlæg og hún smitar blaðamenn um leið og þeir skrifar um lögguna. Svona er nú virðingin mikil fyrir yfirvaldinu.

Stundum er hægt að sleppa orðinu aðilar án þess að merkingin breytist. Held líka að slökkvitækin hafi ekki slegið á eldinn heldur duftið er því var sprautað á hann.

Svo má velta því fyrir sér hvaða not var af „dælubílnum“ ef aungvir voru slökkviliðsmennirnir, en hér er komið út í algjör smáatriði.

Tillaga: Þeir sem komu fyrstir notuðu duftslökkvi­tæki og við það sló veru­lega á eld­inn en eft­ir að dælu­bif­reið kom á vett­vang gekk slökkvistarf greiðlega.

2.

Áfram mælist óróleiki í Öræfajökli. 

Fyrirsögn á blaðsíðu 6 í Morgunblaðinu 5. febrúar 2019.     

Athugasemd: Atviksorðið áfram merkir hreyfingu; halda uppteknum hætti, viðstöðulaust. Sjá umfjöllun um áfram hér.

Jónas Hallgrímsson orti í ljóði sínu Ísland:

Það er svo bágt að standa í stað, því mönnunum munar annaðhvort aftur á bak ellegar nokkuð á leið.

Skáldið freistaðist ekki til að nota atviksorðið áfram enda hefði stíll ljóðsins skaðast verulega:

Það er svo bágt að standa í stað, því mönnunum munar annaðhvort aftur á bak ellegar smávegis áfram.

Nei, svona gera ekki stórskáld og ástæðan er líka sú að stíll er svo óskaplega mikilvægur í öllum tungumálum, ekki aðeins í ljóðum heldur líka í óbundnu máli. Orðin á að velja af kostgæfni, ekki bara vegna þess að þau henti. Þetta mega blaðamenn hafi í huga.

Vel má vera að atviksorðið áfram í fyrirsögninni standi eins og frumlag og það rugli lesandann. Orðalagið hefði má vera svona:

Óróleiki mælist áfram/enn í Öræfajökli.

Þarna er frumlagið komið á „réttan“ stað og ekkert truflar nema orðið áfram sem mætti skipta út fyrir atviksorðið enn.

Ég kemst ekkert lengra með þetta en hvet þá sem vita betur að senda mér athugasemd.

Tillaga: Enn mælist óróleiki Öræfajökli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband