Sjónvarpsþættir um frægt fólk á fjöllum

DSC_0249Alltaf er gaman þegar Ríkissjónvarpið getur sýnt þokkalega góða útivistarþætti. Einn slíkur er á dagskrá um þessar mundir undir nafninu „Úti“. Orðið er atviksorð og hentar frekar illa sem nafn á þætti en það er aukaatriði.

Þeir þrír þættir sem hafa verið sýndir eru ágætlega vel teknir. Þó má gera athugasemdir við of mikla notkun á drónamyndum, þær geta verið þreytandi til lengdar. Hins vegar eru mörg skotin ansi góð og skemmtileg.

Gaman var að fylgjast með fer forstans upp á Öræfajökul, leið sem ég hef þó aldrei farið. Þekki mun betur Sandfellsleiðina og síðan hef ég farið upp á jökulinn norðanmegin frá, það er úr Esjufjöllum. Heillandi leið. Þátturinn var einstaklega skemmtilegur og upplýsandi. Raunar var þetta besti þátturinn, líklega vegna aðalsöguhetjunnar.

DSC_0296Kajaksiglingin um Langasjó hefði verið ágætur þáttur hefði tekist að minnka ótrúlegt mas leikvennanna sem töluðu út í eitt en höfðu frá afar litlu að segja. einhvern veginn rann ferðin í Kerlafjöllum út í sandinn, varð eiginlega ekki neitt neitt. Leið líklega fyrir kajasiglinguna.

Þátturinn um klifurferð í Hnappavallahömrum var frekar slakur sem og ísklifrið. Þarna var skautað yfir á mikilli harðferð og drónamyndir notaðar til að fylla upp í efnið.

Þessir þættir byggjast upp á því að fá fræga fólkið til að taka þátt. Fylgst er með þeim og það látið segja frá og tala um reynslu sína. Því miður tekst það ekki alltaf. Forsetinn var nú einna skástur og leikkonan Brynhildur Guðjónsdóttir var snöggtum skárri en kollegar hennar í þættinum fyrir tveimur vikum, líklega vegna þess að hún talaði með minni leikrænum tilþrifum en hinar.

Já, það er nú þetta með fræga fólkið. Hvenær í ósköpunum skyldi maður fá frí fyrir leikhúsfólki, stjórnmálamönnum og fjölmiðlafólki. Halda þáttagerðarmenn að Helgi Seljan dragi að? Persónulega finnst mér hann og fleiri slíkir alltof oft í fjölmiðlum í öðrum erindagjörðum en að miðla fréttum. Mér finnst ég vita meira um Helga þennan og leikkonurnar en ég hef þörf fyrir. Fjölmiðlamenn og blaðamenn eiga ekki að búa til þætti eða viðtöl um aðra fjölmiðlamenn. Það er hallærislegt og alls ekki siðlegt

Af hverju er ekki leitað til almennings, Jóns og Gunnu, sem eru að byrja í útivist eða vinafólks þeirra sem er lengra komið? Ég get bent á tugi fólks af þessu tagi. Í vetur hitti ég tvo náunga á Vífilsfelli sem hafa í tvö ár gengið á öll fjöll í nágrenni Reykjavíkur og víðar. Þeir sögðu að það hefði verið kvöl og pína að byrja en nú hlaupa þeir upp á fjöllin, bókstaflega.

Í sama fjalli hitti ég tvær ungar konur sem gengu upp harðan snjóinn á strigaskóm. Þótti það aldeilis ekkert mál að komast upp, en svo vandaðist málið þegar þær fóru niður. Ég lánaði þeim skíðastafi og var þeim til aðstoðar á niðurleið, var sjálfur á ísbroddum. Þær ætluðu að verða sér út um betri búnað og ganga í framtíðinni á fjöll.

Lítum bara á þá sem fara í ferðir með Ferðafélagi Íslands og Útivist. Þar er stórkostlegt fólk á ferð, fólk sem er að læra á landið, klífur fjöllin, skíðar og kann á allar öryggisreglur og kann að nota hjálpartæki fjallalífsins ... Þarna verða til fjallamenn sem ganga meðan aðrir telja sér til tekna að „labba“.

Myndirnar hér fyrir ofan tók ég í Vífilsfelli í lok apríl í fyrra þegar hópur frá Ferðafélagi Íslands kom sunnan á fjallið. Hann var í æfingaferð og fór líklega á Öræfajökul um vorið. Þarna voru hetjur á ferð. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Þakka þér marga góða og fróðlega pistla, skínandi góða bók um Fimmvörðuháls og annað, Sigurður.

 Lengi hefur þetta farið í taugarnar á mér, hve fjölmiðlafólk er upptekið af fjölmiðlafólki. Það gefa allir skít í það ef Hallgrímur húsvörður, er rekinn, en ef fréttamanni er sagt upp, er það stórfrétt. Ekki meira um það.

 Þessir þættir eru ágætlega unnir, en ég tek heilshugar undir með þér, að þeir hefðu meira átt að snúast um meðaljóninn. Það hefði í það minnsta verið fallegra. Fjölmiðlafólk og frægir leikarar trekkja ekki svo mikið, lengur.

 Forsetinn stóð sig vel og uppljómunarstundin á Hvannadalshnjúki honum eflaust ógleymanlegt augnablikk. Vonandi verður stundin sú honum veganesti að farsælu starfi, þvi það sem ég vona að hann hafi séð, er landið mitt og þitt og hans. Okkar allra, sen ENGINN fær af okkur tekið, aftur.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 8.4.2018 kl. 23:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband