Skop og fyndni ...

Helgi SigMan einhver eftir skopmyndinni sem hér birtist. Í stuttu máli varð allt (hjá örfáum) brjálað. Teiknaranum, Helga Sigurðssyni, var hótað, Morgunblaðinu var hótað, ritstjórinn var baktalaður (enn og aftur) og aumingja konan sem gert var grín að fékk ómælda samúð. Má vera að hún hafi rist grunnt, þetta hafi bara verið svona pólitísk samúð. Þá er einum strokið blíðlega meðan barið er á öðrum. Annars hefði síðarnefnda tækifærið ekki gefist.

Íslensk fyndni er ekki til. Hún er mismunandi eins og gerist og gengur. Það sem einum finnst fyndið telur annar vera ómerkilegt. Þess vegna er talað um fimmaurabrandara.

Ekki má gera grín að gyðingum, aröbum, flóttamönnum, sköllóttum, ljóshærðum konum, Hafnfirðingum, lesbíum, hommum eða fólki með gervitennur svo dæmi séu tekin. Ástæðan er sú að fólki sem verður fyrir gríninu gæti liðið illa. Dæmi um slíkt eru sköllóttir karlar en þeir þjást sem kunnugt er af hárfötlun og brandarar undir því orði fyrirfinnast ekki. Þar af leiðandi er ekki hægt að hlægja að brandaranum um sköllótta rakarann sem býður lyf eða meðferð gegn hárleysi því hann er orðinn hárfatlaður.

Prófessor einn í Háskóla Íslands heitir Stefán Ólafsson og er mælskur mjök og hefur ótrúlegt skopskyn. Þó hefur hann ábyggilega kunnað illa að meta skopmyndina hér fyrir ofan, því hann er „mannlegur“ og næmur á tilfinningar annarra (nema pólitískra andstæðinga).

Stefán segir í bloggi sínu:

Gárungarnir eru búnir að skýra nýja fangelsið á Hólmsheiði.

Þeir segja að á Hverfisgötu sé „Hverfissteinninn“ og á Hólmsheiði sé „Hólmsteinninn“.

Sagt er að í nýja fangelsinu verði sérstakur frjálshyggjugangur, þar sem fjárglæframenn nýfrjálshyggjunnar verði vistaðir.

Þeir verða þá settir inn í Hólmstein – sem gæti talist viðeigandi!

Það eru því margar góðar ástæður fyrir þessari nafngift.

Sel þetta þó ekki dýrar en keypti…

Auðvitað er þetta fyndið, en um leið enn einn leikur til að niðurlægja Hannes Hólmstein Gissurarson, en þeir kollegar virðast ekki eiga skap saman þarna í Háskólanum.

Berum nú saman þetta tvennt. Annars vegar skop um ónefnda, fyrrverandi alþingiskonu, og hins vegar um nafngreindan einstakling. Niðurstaðan er einfaldlega sú að andstæðingar hins nafngreinda virðast hafa á hann ótakmarkað skotleyfi. Þess vegna má gera endalaust hrekkja hann. Ég held hins vegar að þetta hafi engin áhrif á manninn, hann er vanur hælbítum.

Hitt er svo allt annað mál að nafngift Stefáns er bara ansi fyndin.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband