Hljóðin sem berast upp úr jarðskorpunni eru furðuleg

Goðabunga, óróiÞar sem jarðskjálftahrinunni er nú lokið í Mýrdalsjökli langar mig til að ræða suttlega um það sem mér finnst athyglisverðast við þessa þrjá daga. Hér á ég fyrst og fremst við óróann sem mældist undir jöklinum.

Fyrir þá sem ekki þekkja þá eru víða um land tæki sem Veðurstofa Íslands hefur sett upp til að mæla hljóð sem koma úr jarðskorpunni en þau eru á tíðni sem mannlegt eyra getur ekki greint.

Hljóðin eru nefnd órói og er mæld í mælieiningunni Hz (Hertz). Óróinn verður til þegar til dæmis kvika þrengir sér upp í gegnum jarðskorpuna eða þegar jarðskjálftar verða og jafnvel kunna að vera fleiri ástæður.

HeiðarbærÁ Mýrdalsjökli eru tæki sem mæla óróann í Kötlu, t.d. á Goðabungu, Austmannsbungu og víðar.

Hins vegar geta jarðhræringar og jafnvel eldgos orðið víðar í Mýrdalsjökli en í Kötluöskunni og þar af leiðandi eru tæki sett á jökulinn og í kringum hann. 

Á efstu myndinn sést að óróinn hefst um miðjan síðasta fimmtudag og honum lýkur fyrir miðnætti í gær. Þetta er bláa tíðnin sem mæld er frá 2 til 4 Hz. Örvarnar benda á dagsetningar á lárétta ásnum, upphaf og endi jarðskjálftahrinunnar, svona á að giska.

Heiðarbær er vestan Þingvallavatns, 120 km frá Kötluöskjunni. Óróamælirinn þar nemur umbrotin í Mýrdalsjökli þokkalega. Sjá næst efstu myndina. 

FagurhólsmýriNærri 120 km er frá Kötlu og að Fagurhólsmýri. Þar er mælir og á honum má greina jarðskjálftahrinuna í Mýrdalsjökli og þriðja myndin er þaðan.

Um 110 km norðan við Kötlu er Skrokkalda, lengst uppi Sprengisandi. Óróinn mælist líka á mælum þar, en tíðnin þar er nokkuð lægri, en þó mun skýrari mæling en á hinum tveimur stöðunum. Gæti ástæðan verið sú að Skrokkalda er á gosbeltinu en Heiðarbær og Fagurhólsmýri utan þess, það er þess hluta sem er í stefnunni norðaustur og suðvestur, þvert yfir landið?

Auðvitað sést óróinn betur á mælum Veðurstofunnar eftir því sem þeir eru nær Mýrdalsjökli.

SkrokkaldaÞar að auki getur óróinn birst á mælum í mismunandi myndum og sumum ansi skemmtilegum eins og hér skal rakið.

Neðsta myndin er af óróa sem mældist í tækjum við Dyngjujökul þann 26. ágúst. Hugsanlega eru hann ættaður frá bergganginum sem flutti kviku frá Bárðarbungu og að eldstöðinni við Holuhraun árið 2014. Hann er enn í fullu fjöri þó þrýstingur í honum dugi ekki til að valda eldgosi ... ekki enn.

Þarna virðist blá tíðnin birtast eins í hviðum, rétt eins og taktföst tónlist eða kveðandi hjá mannfólkinu.

Dyn Órói 160826Haraldur Sigurðsson, jarðfræðingur, sagði að því er mig minnir að hann hafi „spilað“ hljóð frá eldgosum á um sextíu sinnum meiri hraða en upptakan er áog náð að hlusta á ansi skemmtilega takta.

Hvað skyldi nú heyrast ef við gætum spilað þennan takt frá mælitækinu við Dyngjujökul. Ég er viss um að það væri ansi fróðleg upplifun.

Tek enn og aftur fram að ég er ekki jarðfræðingur, aðeins áhugamaður. Þar sem skilningur minn er takmarkaður svo ég tali nú ekki um gáfur, er vert að fara að dæmi fornra sagnamanna og afsaka fyrirfram sé eitthvurt missagt hér að ofan.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Athyglisvert.  Skyldu þessi "hljóð" boða eitthvað?  Þegar Katla gaus síðast (1918) voru ekki einu sinni til tæki til þess að nema svokallaðan gosóróa, hvað þá þessa tíðni. 

Kolbrún Hilmars, 2.10.2016 kl. 16:58

2 Smámynd: Ragna Birgisdóttir

Skemmtileg rýning Sigurður. Ég hef mikinn áhuga á jarðvísindum er samt bara áhugamanneskja en hef viðað að mér fróðleik um frásagnir fólks sem sögðu frá atferli dýra,hljóðum og veðri í aðdraganda goss hér á öldum áður. Held að við séum nútímafólk orðin svo dofinn gagnvart því sem náttúran segir okkur. Takk fyrir þetta.

Ragna Birgisdóttir, 4.10.2016 kl. 14:12

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Mín er ánægjan, Ragna. Ágætt að einhver hafi haft gaman af þessari samantekt. Held það sé rétt hjá þér að nútímamaðurinn „hlusti“ ekki nóg á náttúruna heldur meti hana of mikið í krónum og aurum.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 4.10.2016 kl. 14:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband