Gróðureyðing í nafni náttúruverndar

DSC_5843Um daginn hreyktu örfáir einstaklingar sér yfir því á Facebook að hafa reitt upp lúpínu á Bleikhól við Kleifarvatn í Reykjanesfólkvangi. Þetta var gert í nafni náttúruverndar.

Efsta myndin er af vegsummerkjum þessa fólks. Upprifin lúpínan liggur þarna út um allt, ekkert hreinsað í burtu, sem er svo sem allt í lagi. Lúpínan fellur hvort eð er á haustin, vex upp á ný vorið eftir og svo koll af kolli. Þannig verður til jarðvegur.

Og þetta góða fólk nennti ekki að gera meira, því sást yfir að efst á Bleikhól er vænlegur lúpínufláki sem á eftir að flæða niður hólinn, sjá mynd. Auðvitað er þetta ekkert annað en sýndarmennska hjá þessu fólki. Hins vegar er heiftin hjá þessu fólki út í lúpínuna undarleg, jaðrar við ofstæki.

DSC_5862Þegar ég ók þarna um síðasta laugardag sá ég ungmenni vinna hörðum höndum að loka rofabarði, sjá mynd. Þetta var örskammt frá Bleikhól, þar sem „náttúruverndarfólkið“ hafði rifið upp lúpínuna. Ólíkt hafast þau að, gamla náttúruverndarfólkið og ungmennin.

Og sjáið svo næstu myndir. Þær eru dæmigerðar fyrir gróðurfar í Reykjanesfólkvangi. Hvað eru svokölluð náttúruverndarsamtök að rembast við að vernda? Rofabörðin, holtin, melana, bert grjót og klappir eða bara gróðurleysið?

DSC_5808Sem betur fer er baráttan gegn lúpínunni gjörsamlega töpuð, hún á eftir að vaða um landið og gera það gróðurvænlegra.

Verkefni þjóðarinnar er hins vegar að fara í kjölfar hennar og gróðursetja tré og aðrar vænlega plöntur. Þannig nýtum við lúpínuna, eyðum henni um leið og klæðum landið og raunverulega breyta þannig veðurfarinu. Verkefni okkar er ekki að eyða þeirri plöntu sem hvað vænlegust er til uppgræðslu.

DSC_5858 BEkki gera sér allir grein fyrir því hvílík verksmiðja lúpínan er og hversu góð hún er í landgræðslu. Hún er þeim kostum búin að hún framleiðir köfnunarefni, nitur, úr andrúmsloftinu og auðgar jarðveginn með því. Fyrir vikið auðveldar hún öðrum jurtum lífið, gerir þeim kleift að vaxa á þeim stöðum sem enginn gróður hefur vaxið í hundruð ára. Ófrjóir melar blómstra með lúpínu og á eftir kemur annar gróður. Það er köfnunarefni sem íslenskan jarðveg vantar svo sárlega.

Takið til dæmis eftir áreyrum í Morsárdal þar sem lúpínan hefur auðveldað birkiskóginum að breiðast út. Sjáið Vatnshlíð við Hvaleyrarvatn fyrir ofan Hafnarfjörð sem fyrr á árum hafði orðið uppblæstri að bráð. Þar var lúpínu sáð fyrir nokkrum áratugum og nú er þarna gróskumikil og fallegur birkiskógur og margvíslegur annar lággróður í frjósömum moldarjarðvegi sem að mestu er til kominn vegna hennar.

StrandakirkjaTakið eftir ævintýrinu í Heiðmörk fyrir ofan Reykjavík. Þar hefur verið sýnt fram á að lúpínan hafi stuðlað að auknum vexti gróðurs og síðan hafi hún hörfað. Þetta má glöggt sjá þegar bornar eru saman loftmyndir frá mismunandi tímum.

Hér er ekki úr vegi að vitna í Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðing, sem skrifaði eftirfarandi í lítill grein á visir.is:

ÚlfarsfellÞrátt fyrir ötult starf við uppgræðslu landsins í meira en öld er uppblástur enn helsta umhverfisógnin sem steðjar að okkur Íslendingum. Foksand verður að hefta og við beitum þeim aðferðum sem bestar þykja til að græða upp landið og endurheimta landgæði. Birkiskógurinn og kjarrið sem í fyrndinni klæddi landið er óðum að ná sér á strik, en næringarefnaþurrð örfoka lands hamlar þar mjög.

Á næstu áratugum og öldum munu ný landsvæði sem skipta munu hundruðum og þúsundum ferkílómetra koma undan hopandi jöklum. Afleiðingar loftslagshlýnunar verða ekki umflúnar og jöklarnir eru þegar teknir að rýrna eins og mælingar sýna glöggt. Ný svæði jökulleirs og fjúkandi sands koma því stöðugt fram og sandfok verður viðvarandi vandamál. Það þarf ekki eldgos til þó þau hjálpi vissulega ekki upp á sakirnar í þessum efnum.

Framskrið foksands verður ekki heft nema með uppgræðslu og gróðurþekju. Höfum það hugfast að þrátt fyrir allt þekja sæmilega heilleg gróðurvistkerfi enn ekki nema lítið brot af flatarmáli landins og okkar bíður því mikið starf við uppgræðslu. Þar mun alaskalúpínan áfram gegna miklu hlutverki, hvað sem mönnum kann annars að finnast um þá ágætu plöntu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæll. Sett hér inn kort.
http://toppatritl.org/ganga20080423.htm

Kv. Sigurjón Vigfússon.

Rauða Ljónið, 21.6.2016 kl. 22:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband