Enn saknar Ómar Ragnarsson SDG úr ekki-frelsisgöngunni

Fyrir rúmu ári birtust þrjár stökur hér á síðunni um fjarveru Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar þegar þjóðarleiðtogar leiddust um eina af götu Parísar til að votta frönsku þjóðinni samúð og stuðning í kjölfar hryðjuverkanna þar.

Þetta segir Ómar Ragnarsson í pistli á bloggsíðu sinni. Hann trúir því enn að allir málsmetandi forsætisráðherrar og þjóðarleiðtogar hefðu raðað sér fremstir í göngu þúsunda til varnar tjáningarfrelsinu. Þar hafi bara einn vantað, forsætisráðherra Íslands, Sigmund Davíð Gunnlaugsson.

Gangan var samt tómt rugl. Samstöðuganga fyrirfólksins í París var ekki eins og fjölmiðlar vildu telja okkur trú um. Við fengum myndina af samstöðunni eins og hún birtist hér hægra megin á síðunni og við, lesendur fjölmiðla, táruðumst yfir góðmennskunni. Sáum þó marga þjóðarleiðtoga sem hingað til hafa ekki verið þekktir sem ákafir stuðningsmenn tjáningarfrelsins í löndum sínum og jafnvel ekki annars staðar. Það vakti engar grunsemdir, ekki einu sinni hjá Ómari Ragnarssyni.

Mótmæli í París2Ögmundur Jónasson, þingmaður, vakti athygli á heimasíðu sinni á vefsíðunni voltairenet.org. Þar kemur loksins fram að samstöðugangan var aðeins ómerkilegt PR trix. Hann segir á vefsíðu sinni:

Ég stóð í þeirri trú að leiðtogar rúmlega fimmtíu ríkja, auk fulltrúa einhverra ríkja til viðbótar, hefðu staðið í fararbroddi tveggja milljóna Frakka til stuðnings tjáningarfrelsinu eftir morðin í París í ársbyrjun.

Svo var ekki upplýsir vefsíðan voltairenet.org. Látið hafi verið líta útfyrir að forystufólkið hefði staðið í fararbroddi en veruleikinn hafi verið allt annar. Þessi mannskapur hafi mætt í hliðargötu til myndatöku en síðan ekki söguna meir.

Mótmæli í ParísEf til vill skiptir ekki höfuðmáli hvort stjórnmálamennirnir voru aðeins á myndum sem teknar voru til hliðar því þeir voru þrátt fyrir allt mættir til að sjást og tengjast samstöðufundinum. En ef þetta er aukaatriði þá gildir það varla um þögn fjölmiðlanna og samvinnu (samsekt?) þeirra í að klippa saman í eitt, fjöldann og forystumennina, og láta líta svo út að þeir hafi staðið í farabroddi fólksfjöldans. Þetta virðist nefnilega hafa kallað á natni og yfirlegu að láta allt líta út öðru vísi en það var!

Undir þessi orð Ögmundur tek ég fullkomlega. Þetta er ein mesta fréttafölsun sem ég man eftir í seinni tíð.

Þeir íslenskir sem gagnrýndu forsætisráðherra vissu að sjálfsögðu ekki um þetta ómerkilega leikrit sem sett var á svið í hliðargötu í París fyrir ljósmyndara og kvikmyndatökumenn eina. Allra síst hann Ómar, sem áfellist enn SDG fyrir að hafa ekki mætti í ekki-gönguna.

Í ljósi þessa er kannski ástæða fyrir Ómar að yrka aðra vísur í stað þessara, sem vissulega eru nokkuð skondnar og þess vegna birti ég þær hér:

Forystu Íslands féllust hendur.
Til Frakklands var þess vegna enginn sendur.
Héðan fór enginn yfir hafið
því enginn er betri en Sigmundur Davíð.

Við endalok valda hans enginn er skaðinn?
Og enginn mun þá koma í staðinn?
Þá verður það yfir efa hafið
að enginn er betri en Sigmundur Davíð.

Nýju vísurnar mega gjarnan vera um þjóðarleiðtoga sem bókstaflega voru ekki allir sem þeir voru séðir. Og það skipti ekki nokkru máli þó SDG hafi ekki verið í París í ekki-göngunni, þetta var bara staða fyrir ljósmyndara, engin ganga, „PR-stunt“ eins og það er kallað. Og síðan ekki söguna meir, eins og Ögmundur Jónasson orðaði það.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég er innilega sammála því að fjölmiðlar áttu að segja allan sannleikann um það hvernig þessari göngu var stillt upp í samræmi við þá kröfu að fyllsta öryggis þjóðarleiðtoganna væri gætt.

En þegar kallað var á forystumann frá Íslandi til þess að koma til Parísar ásamt starfsbræðrum sínum frá öðrum Evrópulöndum lá það ekki fyrir hvernig sú samstaða yrði túlkuð í framkvæmd.

Hitt liggur fyrir að hann vantaði í hópinn.

Um þetta gildir svipað og spurninguna um vanhæfi þriggja íslenskra ráðherra, sem menn reyna að túlka þannig að það eigi aðeins að dæma um vanhæfi EFTIR Á, þegar í ljós komi hvort hagsmunatengsl viðkomandi hafi ekki haft áhrif á störf hans.

Þetta er alveg gagnstætt hugsuninni á bak við vanhæfi, sem er sú að beita verði reglum um það ÁÐUR en starfið er hafið en ekki eftir á.

Það eigi til dæmis að úrskurða um hæfi eða vanhæfi dómara til að dæma í máli konu sinnar ÁÐUR en hann hefur dómsstarfið en ekki EFTIR að því er lokið.

Það má til dæmis vel vera að ítrekuð fjarvera forsætisráðherrans fyrrverand frá þingstörfum hafi, eftir á að hyggja, ekki komið að sök, af því að þingstörfin kláruðust hvort eð var.

Um það fjallaði miðvísan í bragnum;

"Í haust marga daga hljóp hann af þingi. /

Samt héldu menn áfram með góðu fulltingi. / 

Í ljós kom að yfir efa er hafið /

að enginnn er betri en Sigmundur Davíð."  

Ómar Ragnarsson, 11.4.2016 kl. 08:53

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Bestu þakkir fyrir innlitið, Ómar. Samt verður að segja eins og er að það er erfitt að gera fólki til hæfis. SDG fór ekki í þessa dæmalausu ekki-göngu í París. Hefði hann farið væru örugglega margir sem myndu hafa lagt honum það til lasts.

Ég er hins vegar enginn málsvari fyrrum forsætisráðherra en segi það sem mér finnst. Í því sambandi hefur mér þótt mikil læti út af litlu sem engu, það er að segja hæfi ráðherra. Þá er skotið oft og mikið en aldrei spurt hvernig í málum liggur.

Áróðurinn er slíkur að við liggur að maður sé úthrópaður fyrir það eitt að þekkja einhver sem dvalið hefur í skattholum með auðæfi sína, hvað þá að vera tengdur honum fjölskylduböndum. 

Vanæfi felst ekki í snertingunni við einhvern heldur eðli máls, innihaldi. Staðreyndin er sú að flest orkar tvímælis sem gert er. Í stað fordæmingar þar að skoða hvert mál fyrir sig. Allt annað er hinn mesti óþveraskapur ... Málefnaleg umræða getur aldrei skaðað.

Ef til vill byggist hin nýja pólitíska eftirhruns umræða á ruddaskap, fordæmingum og hálfsannleika. Það er ekki góð þróun.

Svo er það annað að ef menn vilja birta vísu á Moggablogginu er hægt að nota einfalt trix til að hún komi rétt út, það er að línubíl verði ekki of mikið á milli vísuorða.

Í þessu felst að velja vísuna og nota kúlulista í tækjastikunni. Þá verður línubilið rétt og helst þannig þó kúlulistinn sé „afvalinn“. Mér finnst fara betur á því að draga vísur inn svo þær skeri sig frá öðrum texta.

"Í haust marga daga hljóp hann af þingi. 
Samt héldu menn áfram með góðu fulltingi. 
Í ljós kom að yfir efa er hafið 
að enginnn er betri en Sigmundur Davíð."  

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 11.4.2016 kl. 09:49

3 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Þakka þér fyrir „kúlu listann“

Það er margt á youtube, sem þið sem eruð málamenn getið hugmyndatúlkað til okkar hinna.

Þarna á youtube eru aðrar styttri fréttir, en þessi hér.

Full Show: Soros And CIA Behind Panama Papers - 04/05/16

https://www.youtube.com/watch?v=qNKAt3DxZXo&ebc=ANyPxKoAvpLiIaYmiyegWJZkdOWLyJkzE4qPr-fCkdnhb-MvQf4fUtrmoG83nAHzFlTwMXDum54kguaQFUKO8NbhkKxkcgiZRA&nohtml5=False

Egilsstaðir, 11.04.2016  Jónas Gunnlaugsson

 

Fjárfestirinn skrifar bókhald í tölvuna og segist eiga færsluna. Fjárfestirinn lánar þér aldrei neitt. Þú framkvæmir vinnuna og hugsar. Þú ert vinnan og andinn, það er skaparinn. Hér ætti að vera broskall. Allt kemur frá þér.

Jónas Gunnlaugsson, 11.4.2016 kl. 13:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband