Ekki-mótmælandi segir frá mótmælum á Austurvelli

IMG_6033Ég stóð við álgrindurnar við Dómkirkjuna og horfði á mótmælin. Er nógu hávaxinn til að sjá þokkalega vel í kringum mig. Sá ýmislegt tilgerðarlegt og annað sem var hjartanlegt. Auðvitað mótmælir fólk sé því ofboðið og ég skil mætavel að margt fólk sé ekki sátt. Þegar búsáhaldabyltingin stóð sem hæst var hún frumleg. Mótmælin í dag voru svipuð að frádregnu ofbeldinu gegn lögreglunni og skemmdarverkum.

Nokkuð gaman var að standa þarna og fylgjast með. Flestir voru kátir og glaðir. Sumir misstu sig gjörsamlega þegar fjölmiðlamenn munduðu ljósmynda- og myndatökuvélar. Einn kreppti hnefann og hnyklaði brýrnar með ljósmyndari merktur skammstöfuninni RÚV tók af honum nokkrar myndir og svo féllust þeir í faðma yfir álgrindunum. Þekktust greinilega.

Einn gekk um með skilti sem á stóð „Skilti!“. Þótti það frumlegt, en þegar hann snéri sér við blasti við á skiltinu: „Veit ekkert - Bjarni Ben“.

IMG_5982Þarna var kona með lok af Makíntoss-dollu, og aðrir með alls kyns hávaðaframleiðnitæki eins og flautu, lúður, sleif og pott. Þeir sem fremst stóðu börðu álverkið sér til hita enda var skítkalt þegar sólarinnar naut ekki.

Smám saman fjölgaði mótmælaspjöldum og ... rauðu fánunum Þá dúkkaði upp einn og einn sem huldi andlit sitt með svörtum klúti rétt eins og ætlunin var að brjóta lögin og komast upp með það.

Og um leið og rauðu fánunum fjölgaði byrjaði matarsóunin. Fjöldi eggja klauf loftið og enduðu í Alþingishúsinu. Aðrir hentu banönum eða bananahýði. Svo flugu nokkrar jógúrt- eða skyrdollur og flestar enduðu í húsinu. Einstaka voru vel aflögufærir með salernispappír og þeyttu honum áleiðis en drifu ekki, ástæðan kann að vera hægðartregða. 

Svo hófst einhver dagskrá á sviðinu við gamla símahúsið. Fæstir í kringum mig gátu notið þess sem það gerðist. Einhver söng og rappaði og bassadrunurnar voru slíkar að álgrindin sem ég stóð á brast nærri því. Svo hrópaði einhver óljóst „Sigmund burt“ eða álíka og margir tóku undir. Einhver flutti ræðu, Illugi Jökulsson minnir mig að hafi verið auglýstur fyrr um daginn. Illugi sagðist skammast sín fyrir margt, meðal annars Sigmund Davíð og fleira og fleira. Honum er vorkunn því hann hefur verið á móti ríkisstjórninni frá upphafi og ekki fyrr en nú fengið almennileg tækifæri til að mótmæla henni.

IMG_6016Einhver ljúflingur fann upp á því að klifra upp á undirstöðurnar á styttunni af Jóni Sigurðssyni. Sómi hans takmarkaðist við að nota krít en ekki málningu. Hann kom sínum mótmælum á framfæri.

Lögreglumenn skiptust á að standa innan við álgrindurnar og horfa hvassir á mótmælendur. Einhver úr hópi hinna síðarnefndu missti pottlok inn fyrir og komst eðlilega ekki til að sækja það. Lögreglumaður nokkur gekk að lokinu, tók það upp og afhenti hinum vopnlausa mótmælanda og hlaut að launum þakkir.

Þarna stóð ég í rúma tvo tíma og þegar mér var orðið kalt rölti ég í burtu. Já svona fara menn að því að mótmæla, hugsaði ég.

Og ég velti því fyrir mér hversu stór mótmæli gætu orðið ef allir sem ekki kusu núverandi stjórnarflokka myndu mæta á svæðið. Það yrðu almennileg mótmæli.

Hins vegar myndu Sjálfstæðismenn aldrei nenna að fjölmenna á mótmælafundi. Þeir eru ekki fyrir svoleiðis, ekki einu sinni þegar troða átti Icesave samningunum ofan í kokið á þjóðinni. Vinstri menn mótmæla stöðugt nema þegar um Icesave var að ræða eða þegar ríkisstjórn vinstri manna klúðrar málum.

Eiginlega fannst mér fyndnast við þessi mótmæli að sjá fjölmarga útlenda ferðamann vafra um með bjórglas í hendi og fylgjast með af áhuga rétt eins og þeir væru staddir á leiksýningu. Kannski fór þetta allt fram eftir handriti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Ómar Snorrason

Sæll Sigurður, ekki held ég að um handrit sé að ræða(nema handrit hafi verið afhend, held samt ekki), sko hvar ég á að byrja. Er þetta ekki bara allt saman fokking fokk Sigurður, í alvöru. Nenni ekki að skrifa meira!

Jónas Ómar Snorrason, 4.4.2016 kl. 23:03

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Skemmtileg lýsing hjá þér, Sigurður, á þessu sviðsetta leikriti. laughing

Jón Valur Jensson, 5.4.2016 kl. 00:15

3 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Hver er svona mikill leikstjóri að hann, eða hún, geti sviðsett þessi mótmæli? 

Wilhelm Emilsson, 5.4.2016 kl. 01:44

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hver er svona mikill leikstjóri að hann stjórni útsendingum á öllum þeim erlendu sjónvarpsstöðvum sem ég hef komist inn á í dag?

Hver er svona mikill leikstjóri að hann stjórni Heimdalli og Framsóknarfélagi í langstærsta sveitarfélaginu í kjördæmi forsætisráðherra?

Hver er svona mikill leikstjóri að hann stjórni skrifum Sjálfstæðismannanna Björns Bjarnasonar, Styrmis Gunnarssonar og Jóns Magnússonar?

Hvaða leikstjóri stjórnað því Sjálfstæðis- og Framsóknarfólki sem maður hitti á Austurvelli í dag?

Ómar Ragnarsson, 5.4.2016 kl. 01:50

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er enginn einn maður, Ómar, og það veiztu vel. Það er litla, en þurftarfreka ríkið í ríkinu, sjálft Rúvið, vinnuveitandi þinn um langt árabil. Ekki var von að þú kæmir auga á það, með það bak við hvern einasta vegg í kringum þig.

En pragmatískar geta ástæður sumra verið, sem þú telur upp þarna, fremur en að þeir láti að jafnaði blekkjast af ýmsum spunaþulunum frá þessari áróðursstofnun.

Jón Valur Jensson, 5.4.2016 kl. 04:22

6 Smámynd: Már Elíson

Það er aumkunarverk að sjá þessi skrif þín, Sigurður. Ég hafði aðra og betri hugmynd um þig. - En frá spunameistaranum og glottandi tækifærissinnanum Jóni Val kemur ekkert á óvart, eins ógeðfelld skrif hans eru á korkinum öllum sitt á hvað þar sem hann læðist inn.

Már Elíson, 5.4.2016 kl. 07:48

7 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Mér þykir leitt að valda þér vonbrigðum, Már. Það var ekki ætlunin. En hvers vegna er ég svo aumkunarverður?

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 5.4.2016 kl. 08:24

8 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Ómar, þú ert alvanur sviðsmaður og veist að sá sem skrifar handrit eða leikstýrir hefur ekki stjórn á aðsókn eða umfjöllun annarra. Hins vegar var fyrirfram uppsett dagskrá á sviði (sem heyrðist ekki um allan Austurvöll fyrir hávaða), þeir sem köstuðu eggjum voru greinilega úr einum hópi því öll komu þau af sviðuðum slóðum. Hins vegar held ég að Sigmundi Davíð sé varla

 sætt úr þessu.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 5.4.2016 kl. 09:30

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er engin ástæða fyrir hann til að segja af sér, nema Sjálfstæðisflokkurinn í heigulshætti ákveði að standa ekki af sér þennan storm í vatnsglasi og svíki hann og sinn samstarfsflokk.

Sjálfstæðisflokkurinn væri þá að endurtaka svik Samfylkingarinnar gagnvart fyrrnefnda flokknum og ríkisstjórninni sem fór frá völdum semma árs 2009.

Nú er forseti Íslands að ræða það mál, hvort rjúfa eigi þing, og var að tilkynna, að hann vill ekki, að svo stöddu a.m.k., gefa forsætisráðherra vald eða umboð til að rjúfa nú þing. Fyrir þessari afstöðu hefur forsetinn mjög góð rök, sem menn ættu að íhuga vel.

Jón Valur Jensson, 5.4.2016 kl. 12:47

10 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki sitja undir hótunum um þingrof. Þannig á ekki að vinna í stjórnmálum. Þar að auki er ekki um að ræða storm í vatnsglasi. Verkefni Sjálfstæðisflokksins er ekki að lagfæra það klúður sem forsætisráðherra hefur komið sér í, allri þjóðinni til óþurftar. 

Í sannleik sagt þarf mikið hugmyndaflug til að líka stöðu mála við stjórnarslit Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 5.4.2016 kl. 13:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband