Mun Cameron biðjast afsökunar á hryðjuverkalistanum?

Það er að sjálfsögðu ánægjuefni að forsætisráðherra Stóra-Bretlands, David Cameron, skuli koma til Íslands. Ef tilgangur hans er að bæta nágrannasambandið og taka samvinnu í þessum heimshluta alvarlega er koma hans af hinu góða. Án efa ætti hann að byrja á því að biðja íslensku þjóðina afsökunar á því að forveri hans í embætti, Gordon Brown, skyldi beita hryðjuverkalöggjöf gegn staðföstu bandalagsríki í bankakreppunni. Einnig gæti hann dregið til baka hina sérkennilegu ákvörðun bresku ríkisstjórnarinnar um að neita að taka þátt í loftferðaeftirliti NATO á norðurslóðum og að senda ekki eitt einasta skip flota hennar hátignar til að taka þátt í eftirlitsferðum þar á undanförnum árum.

Þetta er úr grein í Morgunblaði dagsins eftir Angus Brendan MacNeil, þingmann skoska Þjóðarflokksins á breska þinginu. Honum mælist vel og tekur þarna á þeim málum sem skipta miklu í samskiptum Íslands og Bretlands.

Íslenska þjóðin bíður enn eftir að Bretar biðjist afsökunar á að hafa skilgreint Ísland sem hryðjuverkaríki haustið 2008. Samskipti landanna geta aldrei orðið sömu fyrr Bretar geri sér grein fyrir því hversu ódrengilega og óheiðarlega var að verki staðið.

Eftir að hafa fylgst með breskum stjórnmálum í langan tíma tel ég nær útilokað að David Cameron taki upp á því fyrir hönd breskra stjórnvalda og þjóðanna að biðjast afsökunar. Bretar gera ekki mistök hversu heimskulegar gerðir þeirra eru.

Ekki einu sinni hálfsósíalistinn Tony Blair, fyrrum forsætisráðherra gat um daginn beðist afsökunar á því er hann og ríkisstjórn hans drógu Breta inn í Íraksstríðið á fölskum forsendum. Hann sló í og úr eins hans er venja.

Í niðurlagi greinar sinnar segir Angus Brendan MacNeil, þingamaður, og er ekki efi í mínum huga að Skotar muni reynast góður nágranni:

Ég man vel eftir heimsóknum ráðherra úr ríkisstjórn Verkamannaflokksins til Íslands þar sem þeir töluðu vinsamlega. Þegar þeir komu aftur til Lundúna var komið annað hljóð í strokkinn, því þá hreyktu þeir sér af því í fjölmiðlum að þeir hefðu krafist þess að Íslendingar endurgreiddu innistæðurnar.

Englendingar skilja fæstir önnur tungumál en ensku en Íslendingar skilja ensku og tóku eftir misræminu. Þetta varð til þess að prentaðir voru frægir t-bolir með myndum af þeim Brown og Darling. Svo fór að lokum að Ísland vann málið fyrir EFTA-dómstólnum. Nú vona ég að framkoma Lundúnastjórnarinnar verði betri. Sá dagur kemur að Skotland mun reynast Íslendingum betri nágranni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband