Skrautlegir borgarfulltrúar í starfsnámi á fullum launum

Ég er í vinnunni frá 9 til 5 og þegar ég kem heim þá er ég ekki kjörinn fulltrúi.

Þetta sagði borgarfulltrúi Besta flokksins og formaður menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkurborgar, í grein í Morgunblaðinu 6. júní 2012. Hann hafði þegið boð flugfélags til Parísar og gerðu margir athugasemdir við að borgarfulltrúi þægi boð í skemmtiferð og tæki ekki mið af siðareglum borgarfulltrúa.

Jón Gnarr, borgarstjóri, sagðist aðspurður ekki átta sig á spurningunni en hann væri eindregið á móti einelti.

Bílstæðasjóður

Þegar borgarfulltrúi Besta flokksins og formaður bílastæðasjóðs, vaknaði eftir áramótin var honum sagt að bílastæðasjóður hefði tvöfaldað bílastæðagjöldin.

Ókei, fínt, sagði hann. Þá var honum bent á að borgaryfirvöld væru búin að samþykkja að hækka ekki gjaldskrár sínar og leggja það af mörkum við að halda aftur af verðbólgunni.

Úbbs, sagði borgarfulltrúinn og roðnaði pínulítið. Borgarstjóri sagðist hins vegar aðspurður ekki átta sig á spurningunni en hann styddi þó Pussy Riots í Rússlandi eitthundrað prósent.

Brúin yfir ósa Elliðaánna 

Fyrir nokkrum dögum upplýsti Morgunblaðið að göngu- og hjólreiðabrú yfir Elliðaárósa hefði kostað 264 milljónir króna. Mörgum þykir það gríðarlegur peningur en ekki borgarfulltrúum Besta flokksins.

Enginn sagði „Úbbs ...!“ en flestir munu þó hafa roðnað lítið eitt nema borgarstjórinn sem hló og sagðist vera á móti einelti.

Hofsvallagatan 

Við hjólreiðamenn fengum hjólabraut á Hofsvallagötu, bráðnauðsynleg framkvæmd með tilheyrandi skreytingum. Talsvert vantaði þó upp á að hjólreiðamenn landsins flykktust vestur í bæt til að nýta sér aðstæðurnar. Þar urðu þó til einstaklega skemmtilegar umferðarteppur. Einnig var altalað að Besti flokkurinn gæti ekki gert hvort tveggja í senn, greiða fyrir umferð bíl og hjóla.

Þegar íbúar í Vesturbænum lýstu yfir óánægju sinni var hætt við öll áform. Nokkrir sjálfboðaliðar í röðum Besta flokksins roðnuðu lítillega og töldu þess vegna sig ekki í standi til að mæta íbúum á fundi.

Borgarstjóri hafði ekki heldur tíma til að tala við Vesturbæinga því hann var í New York að kynna heimildarmynd um sjálfan sig, en hann sendi þó þau skilaboð að hann væri á móti símanjósnum Bandaríkjamanna.

Skerjafjörður 

Skerjafjörður hefur yfirbragð vinalegs þorps. Þar eru lágreist íbúðarhús, flest einbýlishús, og aðeins ein akstursleið úr hverfinu. Besti flokkurinn ætlaði að bæta úr þessu öllu (nema akstursleiðinni) og lét skipuleggja nýtt Breiðholt þar sem nú er flugbrautarendi. Fáir glöddust yfir framtakinu nema borgarstjóri sem lét hafa það eftir sér að öll stríð væri hættuleg heilsu fólks og Reykjavík ætti að vera herskipalaus.

Strætó

Borgarfulltrúar Besta flokksins eru ekki á móti umferð enda hlynntir strætó, þó þeir noti hann ekki sjálfir. Þess vegna á strætó að njóta forgangs í umferðinni hvort sem hann þarf þess eða ekki. Þeir notuðu Borgartún sem tilraun fyrir Strætó og í ljós kom að betra væri fyrir alla ef einkabílar biðu í einfaldri röð fyrir aftan strætó meðan hann hleypti farþegum út og inn. Með því móti jafnaðist aksturstími einkabíla og Strætó. Borgarstjóri sagðist ekki átta sig á málinu.

Námsmenn

Námsmenn eiga að vera á reiðhjólum, ganga um bæinn eða taka strætó. Þetta er eitt af grundvallaratriðum í stefnuskrá Besta flokksins. Þess vegna þarf ekki bílastæði fyrir utan þau hús sem námsmenn búa í, aðeins reiðhjólagrindur. Bíla sína geta þeir lagt einhvers staðar annars staðar, sagði formælandi Besta flokksins (þó ekki borgarstjóri en hann var í viðtali um efnahagsmál í Kastljósi).

Eineltið 

Af þessu öllu má sjá að nóg er að gera fyrir borgarfulltrúa Besta flokksins, sérstaklega á vinnutíma, það er frá 9 til 17 (ekkert frí í hádeginu).

Nú kann einhver að spyrja hvers vegna sé ekki minnst á borgarfulltrúa Samfylkingarinnar í þessari stuttu samantekt. Við því er ekkert svar annað en að hér er ekki um einelti að ræða.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Þakka frábæra úttekt.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 10.1.2014 kl. 13:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband