Allt árið nema þriðjudaga og laugardaga

Á meðan unnið er að því í iðnaðarráðuneytinu að útbúa nýjan skatt á ferðafólk og hægt er að hafa af því meiri pening en þegar er gert kvartar ferðaþjónustan. Af öllum þeim milljörðum sem ríkissjóður hagnast af innlendum og útlendum ferðamönnum er borið við peningaleysi þegar bókstaflega þarf að greiða götur ferðamanna.

Í Morgunblaðinu í gær er grein eftir Sigurlaugu Sverrisdóttur, hótelstjóra, sem kvartar undan því meðal annars að hinn svokallaði Gullni hringur er ruddur alla daga vikunnar nema þriðjudaga og laugardaga. Þá mega ferðamenn éta það sem úti frýs, aðra daga er boðið upp á hlaðborð.

Þversögnin í þessu öllu saman er sú að á meðan ráðherra ferðamála er upptekinn af því að útfæra skatt er ekki vitað hvernig eigi að ráðstafa skattfénu nema því aðeins að ætlunin sé að lá það renna í sömu hítina og annað skattfé ferðamann lendir nú þegar í. Ráðherrann slær þó um sig og segist ætla að veita fé í uppbyggingu ferðamannastaða og náttúru- og umhverfisvernd. Nánari upplýsingar fást ekki um verkefnin og þaðan af síður hvort eitthvað fé sé ætlað í að þjónusta ferðamenn, halda opnum vegum, hálkuverja gönguleiðir og álíka.

Svo bítur þetta allt í skottið á sér. Ferðamaður lendir í vandræðum og kalla þarf út lögreglu og björgunarsveitir og löggan þarf að draga saman reksturinn, fækka mönnum og svo framvegis. Engum dettur í hug að veita fé til björgunarsveita sem þó vinna óeigingjarnt starf fyrir sjálfsaflafé og ríkissjóður sparar sér þá peninga og miklu meira.

Þetta gengur ekki svona öllu lengur. Vegagerðin skilgreinir sig ekki sem þjónustufyrirtæki og fríar sig algjörlega frá því að vera í ferðaþjónustu. Á kurteislegan hátt orðar Sigurlaug Sverrisdóttir þetta svona í Morgunblaðsgreininni.

Það sem er umhugsunarvert er sú staðreynd að sú mikla vinna sem hefur farið í að hvetja ferðamenn til þess að heimsækja landið allan ársins hring hefur ekki ennþá skilað sér til allra þjónustuaðila innanlands. Það er sjálfsagt að þegar miklar og hraðar breytingar eiga sér stað fylgi ekki öll þjónusta og markaðstengd atriði í kjölfarið fyrr en nokkru síðar. Slíkt einskorðast ekki við ferðaþjónustuna heldur svo margt annað. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband