Risastórir kassar á hafnarbakka - allir eins

Litlir kassar á lækjarbakka. 
Litlir kassar og dinga linga ling.
Litlir kassar litlir kassar
Litlir kassar allir eins. 
Kassar á hafnarbakka

Myndina til hægri er af skipulagi á svæðinu sunnan við Hörpu í Reykjavík. Horft er í austur, gatan nefnist Geirsgata og til hægri er Hafnarhúsið.

Þetta er hluti af hinu svokölluðu deiliskipulagi Austurhafnar og sagt er frá í frétt í Morgunblaðinu í morgun.

Kassar2

Ég skrifaði dálítið um þetta mál í gær og benti á samsvarandi hönnun á öðrum svæðum sem virðast ætla að takast afar óhönduglega. Nefna má skipulag Landspítalans, fyrirhugaða byggð í Skerjafirði (sem ríkið virðist nú ætla að hætta við) og fyrir augum okkar er hrikalega misheppnuð uppbygging í turnhverfi Borgartúns.

Höfnin

Á hafnarbakkanum sunnan við Hörpu er ætlunin að búa til einhvers konar múr eða vegg . Afspyrnu ljóta kassa sem eiga að vera hótel og jafnvel íbúðir. Meirihlutinn í borgarstjórn virðist vera óskaplega hrifinn af þessum veggjum eftir því sem Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs segir í viðtali í Morgunblaðinu. Hann segir:

Þetta er hið ágætasta mál, sýnist mér og ég held að þetta sé lausn sem margir ættu að geta sætt sig við. Við munum sjá betri tengingu Hörpu við miðborgina með fallegri Geirsgötu og við vonumst líka til að þessar byggingar myndi skjól fyrir norðanáttinni. Þarna fáum við breiðstræti í borg, nýtt hótel, íbúðir beggja vegna Geirsgötunnar og atvinnuhúsnæði.

Smekkur manna er greinilega mismunandi. En hvernig stendur á því að sumir heillast af hrikalega stórum húsum sem eru eins og veggir og ganga þvert á þá byggingarhefð sem verið hefur ráðandi í Reykjavík frá upphafi. Með þessu er verið að gera óafturkræfa tilraun til að búa til stórborgarbrag sem á alls ekki við, fjarri því.

Landspitali

Og hvað með Arnarhól? Fjölmargir Reykvíkingar mótmæltu byggingu Seðlabankans á síðustu öld en hann var byggður þar sem Sænska frystihúsið stóð. Menn bentu á að Arnarhóll, þessi stórmerkilegi staður, myndi hreinlega hverfa og útsýnið til norðurs yrði svo til ekkert.

Með skipulaginu á Hörpureitnum er enn meira þrengt að Arnarhóli og hann hverfur eiginlega, verður bara enn einn græni bletturinn í borginni, gagnslaus og Ingólfur má muna daga sína fegurri.

Í framúrstefnulegu lagi hljómsveitar sem hét Þokkabót var sungið um „Litla kassa á lækjarbakka“ og var um að ræða róttæka gagnrýni á smáborgaralegan hugsunarhátt ... eða eitthvað álíka. Í dag gæti hljómsveitin breytt textanum og sungið um litla kassa á hafnarbakka. 

Litlir kassar á lækjarbakka. 
Að lokum tæmast og fólk sem í þeim bjó
er að sjálfsögðu sett í kassa 
svarta kassa og alla eins. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Ég er sammála því að þetta sé afspyrnu ljótt og að auki alltof mikið byggingamagn á ekki stærra svæði.

Ég hef aldrei skilið þessa undarlegu tísku að troða byggingum niður á hafnarbakkana og jafnvel út í hafnirnar. Byggingum sem eiga þangað ekkert erindi og hafa nákvæmlega ekkert með hafnsækinna starfsemi að gera. Þeirri starfsemi er hinsvegar ýtt upp í sveit.

Hafnarfjörður er gott dæmi um bullið, þar var íbúðablokkum fundinn staður alveg fram á hafnarbakkanum sem hafði það í för með sér að viðlegukantur og uppskipunarbryggja upp á hundruð milljóna ef ekki milljarða er ónýtur sem slíkur.  

Axel Jóhann Hallgrímsson, 20.12.2013 kl. 10:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband