Ég er frjáls og sýni kurteisi, segir leikarinn Depardieu

Ég hló dálítið inni í mér þegar ég las um franska leikarann Gérard Depardieu sem heldur því fram að forsætisráðherra Frakka hafi „sært“ sig með því að segja það „aumingjalegt“ af honum að flytja lögheimili sitt frá Frakklandi til Belgíu, eins og það var orðað á vef Evrópuvaktarinnar.

Svo gerðist það merkilega að ég fór að hugsa og velta nánar fyrir mér orðum leikarans eins og sagt er frá þeim á vefnum.

Þar kemur að því merkilega og raunar heimspekilega hugtaki sem er virðing, því Gérard Depardieu segir:

“Aumingjalegt„, sögðuð þér “aumingjalegt„? En hvað það er aumingjalegt! […] Ég geri enga kröfu um að hljóta samþykki, það væri þó að minnsta kosti unnt að sýna mér virðingu! Margir hafa yfirgefið Frakkland en enginn hefur verið særður á sama hátt og ég.

Í sjálfu sér skiptir mál leikarans hér litlu, miklu frekar það sem hann segir efnislega. Staðreyndin er einfaldlega sú að í lífi hvers einstaklings skiptir tvennt afar miklu máli, hvort sem hann gerir sér grein fyrir því eða ekki.

Annars vegar er það hvernig hann kemur fram og hins vegar hvaða tillit hann tekur til annarra. Eflaust fjallar hið fyrrnefnda um hið margtuggða hugtak „dyggð“ og hið síðara um annað sem ekki síður hefur verið mikið umrætt, „virðing“.

Í óvæginni samfélagsumræðu hér á landi og líklegast víðast um heiminn taka menn djúpt í árinni, ausa aðra óhróðri, jafnvel að ástæðulausu, oft fyrir misskilning eða þekkingarleysi. Fæstir myndu hins vegar brúka slíkan munnsöfnuð um náskyldan ættingja eða náinn vin. 

Það er eiginlega svo að dyggð hvers manns felst í því að koma af virðingu fram við annan mann en þegja ella. Oft verður á þessu misbrestur í umræðuþáttum í útvarpi og sjónvarpi, pistlum á bloggsíðum, í athugasemdadálkum þeirra eða með veffréttum. Þetta er afskaplega miður og slæmt en ugglaust er ekkert við þessu að gera. Mannskepnan er einfaldlega skepna og við kunnum ekki að aga okkur. Hins vegar er fjöldinn allur afar málefnalegur og þá er gaman að lesa og fylgjast með.

Á vef Evrópuvaktarinnar eru skoðanir franska leikarans þessar:

Ég kasta ekki grjóti að þeim sem hafa of mikið kólestról eða alkóhól í blóði sínu eða sofna á vélhjóli sínu, ég er einn í þeim hópi,“ segir hann og vísar þar til nýlegra samskipta sinna við lögregluna. „Þrátt fyrir eigin öfgar, matarlyst mína og ást mína á lífinu er ég frjáls vera, herra, og ég sýni kurteisi,“ segir í lok bréfsins. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband