Ástæðan fyrir því að ég kaus Ólaf Ragnar

Stuðningur sjálfstæðismanna við Ólaf Ragnar Grímsson var almennur. Kunningi minn í heita pottinum sagði að á sjónum í gamla daga hafi nýliðum verið hastarlega ráðlagt að kyngja ælunni, annars gæti illa farið. Hann ráðlagði mér hið sama og kjósa Ólaf Ragnar sem og ég gerði. 

Ráðherrar, stjórnarliðar á Alþingi og víðar, ráða vart við sig. Endurkjör Ólafs Ragnars hefur kallað fram það versta í fari þeirra og nú leita þeir allra ráða til að sverta sjálfstæðismenn fyrir stuðninginn. Af þeim lekur ólundin og lyktina má finna víða.

Þeir hafa reiknað sig fram og aftur og komist að þeirri niðurstöðu að 69,2% kjörsókn sé ávirðing fyrir íhaldið og Ólaf Ragnar. Auðvitað kemur allur slíkur útreikningur kemur þeim í koll. Þeir gleyma um leið að kjörsókn til stjórnlagaþings var 35%. Og ríkisstjórnin sat sem fastast.

Ég er sjálfstæðismaður, hef fer aldrei í grafgötur með þá staðreynd. Ólafur Ragnar er eins langt frá Sjálfstæðisflokknum eins og hugsast getur. Hann var þingmaður sem barðist fyrir gildum sem ég virði en studdi ekki og mun væntanlega aldrei gera. Hann réðst iðulega á Sjálfstæðisflokkinn á afar ómálaefnalegan hátt og sakaði forystumenn hans um skítlegt eðli. Þó svo að nú hafi ég kosið þennan sama mann sem forseta lýðveldisins þýðir ekki að ég hafi slegið striki yfir fortíð hans og láti sem hún skipti engu máli. 

Ég kaus Ólaf Ragnar af því að hann spyrnti tvívegis við fótum þegar ógeðfelldasta ríkisstjórn Íslandssögunnar ætlaði að láta þjóðina kokgleypa Icesav-skuldirnar. Fyrir það kann ég honum þakkir fyrir enda málið gríðarlegt og varðar sjálfstæði þjóðarinnar. Ólafur Ragnar er ekki óskeikull. Tíminn hefur sýnt að neitun hans að staðfesta fjölmiðlalögin 2004 voru mistök og þjóðin væri nú í betri stöðu hefði hann látið skynsemina ráða.

Þó svo að þjóðin geti þakkað fyrir að Ólafur skuli þrívegis hafa neitað að staðfesta lög er ekki svo að forsetaembættið sé einhvers konar öryggisventill. Síður en svo. Vandinn var einfaldlega ríkisstjórnin sem hagaði sér heimskulega. Við, þjóðin, eigum að hafa vit á því að velja okkur forystu af meira viti og yfirvegun en að hleypa slíkum kjánum að löggjafarsstarfinu.

Gleymum því ekki heldur að Ólafur Ragnar hefur reynt að breyta forsetaembættinu. Það getur ekki farið saman að æðsti embættismaður framkvæmdavaldsins skuli vera fengið það vald að eiga að staðfesta gerðir löggjafarvaldsins. Hversu mikið sem menn geta þakkað Ólafi Ragnari fyrir  Icesave og fjölmiðlalögin greip hann þar í öll skiptin inn í löglegt starf löggjafarþingsins og raskaði þar með þeim grunni sem stjórnskipun landsins stendur á. Þar af leiðandi ber knýjandi nauðsyn á því að endurskoða embætti forsetans í stjórnarskránni. Öryggisventilinn má hanna betur og koma fyrir annars staðar.

Hitt er svo allt annað mál að við sjálfstæðismenn höfum ástæðu til að bera höfuði hátt. Við getum endalaust hlegið að ríkisstjórninni og stuðningsmönnum hennar sem enn einu sinni fara halloka í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ríkisstjórninni hefur ekki aðeins tekist að hrekja frá sér helminginn af kjósendum sínum heldur líka sinn helsta bandamann, Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrum formann Alþýðubandalagsins. Hvaða slátur er þá eftir í liði stuðningsmanna?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Þetta er góður línudans hjá þér. En vonandi þurfið þið ekki að sitja í næstu ríkisstjórn eftir að þið slepptuð andanum úr flöskunni.

Hjálmtýr V Heiðdal, 2.7.2012 kl. 14:39

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll kæri vinur. Þegar Svavar náði besta samningum um Icesave og Gylfi varaði við „Kúbu norðursins“ þá varð fj... andinn fyrst laus.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 2.7.2012 kl. 14:45

3 Smámynd: Elle_

Sigurður, það var 69% kjörsókn.  Sigur forsetans var yfir 50%.  Gegn mikilli andstöðu 5 mótframbjóðenda og líka andstöðu ríkisstjórnarflokkanna (og hjálparmanna).

Elle_, 2.7.2012 kl. 22:47

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Bestu þakkir, Ella, fyrir að leiðrétta mig. Rétt er að Ólafur Ragnar fékk 53% atkvæða og kjörsóknin var yfir landið 69%

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 2.7.2012 kl. 23:06

5 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sæll nafni og sundfélagi.

Æsseifmálið kenndi mér að þjóðhollir menn eiga og geta sameinast þvert á flokkslínur. Ég skynja þetta sama í Evrópumálunum og í þinni afstöðu í forsetakosningunum.

Sigurður Þórðarson, 3.7.2012 kl. 16:33

6 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Held þú hafir rétt fyrir þér, Þórðarson.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 3.7.2012 kl. 17:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband