Úlfur, úlfur ... eða kannski ekki!

 

Vestfirðir eru stórkostlegir, náttúrufegurðin er hrikaleg. Þar þekki ég margt gott fólk, hörkuduglegt og skynsamt. Ef ég væri beðinn um að benda á landsvæði þar sem eftirsóknarvert væri að eyða sumarfríi myndi mér án efa vefjast tunga um höfuð. Velta því fyrir mér hvað sá sem spyr sækist eftir. Væru það fjallgöngur, gönguferðir, skoðunarferðir, áhugi á söfnun eða sagnaarfurinn myndi ég án efa benda á Vestfirði. Þar er þróttmikil ferðaþjónusta og hvort sem fólk er að leita að afþreyingu sem greiða þarf fyrir eða ókeypis þá er um auðugan garð að gresja á Vestfjörðum.

Svo er líka gott að búa á Vestfjörðum. Eitt sinn bjó ég á Ísafirði í nokkra mánuði og hafði bæði gagn og gaman af. Þéttbýlisstaðirnir eru margir og allir hafa einhverja kosti. Um gallanna fjölyrðir maður ekki, þeir eru svo léttvægir að það tekur því ekki. Raunar má segja að litlu máli skipti hvar búið er, gallarnir eru oftast hinir sömu.

En vinur er sá er til vamms segir. Vestfirðingar eru duglegir baráttumenn fyrir hagsmunum sínum. Stundum fara þeir offari og það er síst af öllu góð auglýsing fyrir landshlutann. Þess vegna er oft betra að fara sér hægt og haga hagsmunabaráttunni á þá leið að hvorki heimamenn né aðrir fái það á tilfinninguna að slæmt sé að búa á Vestfjörðum.

Nú er fjallað um samgönguáætlun. Í henni er gert ráð fyrir að jarðgöngin milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar verði byggð eftir árið 2022. Það er nú helvíti aumingjalegt af enn aumingjalegri ríkisstjórn sem þykist byggja á norrænni velferð að hafa ekki döngun í sér til að fjármagna þessi göng.

Miðað við hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á málum má eiginlega þykja gott að Dýrafjarðargöngin hafi komist á áætlunina. Ríkisstjórnin lifir nefnilega á efnahagshruninu, hefur hvorki þekkingu né getu til að draga þjóðina upp úr kreppunni. Þess vegna er kreppan alveg lífsnauðsynleg fyrir Samfylkinguna og Vinstri græna ætli flokkanir að halda völdum. 

Þess vegna hagar bæjarfulltrúinn í Ísafjarðarbæ, Sigurður Pétursson, orðum sínum á þennan veg (feitletranir eru mínar):

Enn ein frestunin á framkvæmdum við Dýrafjarðargöng er hættuleg fyrir framtíð byggðar á Vestfjörðum og hindrar frekari þróun í atvinnuháttum og byggðaþróun. Þróun sem Vestfirðingar gera sér vonir um að geti hafist nú, með nýrri sjávarútvegsstefnu og uppbyggingu í fiskeldi og fleiri greinum. Seinkun Dýrafjarðarganga mun draga enn úr nýrri sókn byggðanna. Það eru ekki þauskilaboð sem Vestfirðingar þurfa, eftir hrakfarir síðustu áratuga undir ofríki rangláts kvótakerfis, einkavinavæðingar og öfgafrjálshyggju. Nú verða Vestfirðingar að standa saman um kröfuna um Dýrafjarðargöng á næstu fimm árum. Allir sem einn. 

Þarna kemur enn og aftur fram þessi úrsérgengni vælutónn og klisjur sem fær aðra landsmenn til að hugsa sig tvisvar um í alhæfingunni: Eru Vestfirðingar allir eins og þessi Sigurður Pétursson. Manninum finnst allt er kolómögulegt og hættulegt fyrir framtíð byggðar ... Kannski er bara best að halda sig sem lengst frá þessum undarlega landshluta. Ekki búa þar, ekki ferðast þangað.

Nei, Vestfirðingar hljóta að geta fundið sér betri málsvara. Þessi sameinar alla vega ekki Vestfirðinga alla sem einn undir þessum frýjunarorðum. Sagan segir okkur að þó einhverjir hrópi úlfur, úlfur þá er ekki endilega víst að rétt sé með farið.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband