Opið bréf: Skuldsettur almenningur ber byrði hrunsins

Vinstri stjórnin hefur litlum árangri náð í þeim málum sem skipta mestu fyrir þjóðfélagið eftir hrun. Hún heldur þó öðru fram og virkjar til þess marga meiriháttar galdramenn í almannatengslum og blaðamennsku.

Nýjasta útspilið er alþjóðleg ráðstefna sem á að koma þeirri tilfinningu inn hjá landsmönnum að íslenska hagkerfið sé á batavegi eftir hrunið vegna hæfileika ríkisstjórnarinnar. Kannast einhver við spegilmyndina um snilli útrásarvíkinganna í þessu sambandi.

Til er fólk sem vinnur málefnalega að rökræðunni við stjórnvöld um stöðu atvinnulífs og heimila. Þetta fólk hefur nú skrifað opið bréf sem sent hefur verið á fyrirlesara og þátttakendur í ráðstefnunni sem verður fimmtudaginn 27. október í Hörpu.

Og hver skyldi halda ráðstefnuna? Ekki Háskóli Íslands, ekki Háskólinn í Reykjavík, öngvir hlutlausir fræðimenn ... Nei, ríkisstjórnin og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn! Halló!

Þetta eru þessir tveir aðilar, sem bera að öllu leyti ábyrgðina á aðgerðum eftir hrunið. Nú standa þeir upp og ætla nú að hrósa sjálfum sér. Fyrir hvað? Fyrir að hafa haft fé af íslenskum almenningi til að byggja upp sama fjármálakerfið og var hér fyrir hrun? Minnir á manninn sem sagðist endilega þurfa að hrósa sjálfum sér vegna þess að enginn annar gerði það.

Ég er fyllilega sammála efni bréfsins og tek mér því það bessaleyfi að birta það hér á bloggsíðunni. Ég bið lesendur að lesa það til enda.

Bréfið er vel skrifað, áhrifaríkt og ... í raun og veru sláandi. Það gefur til dæmis allt aðra lýsingu á stöðu mála en forsætisráðherrann og fjámálaráðherran drógu upp á nýafstöðnum landsfundum sínum.

Ég hef leyft mér að feitletra í rauðu nokkrar áherslupunkta og fjölga greinaskilum til að auðveld lesturinn.

Reykjavík 23. október 2011

Kæri herra/frú

Tilefni þessara skrifa er það að þú ert meðal þeirra sem munu taka til máls á ráðstefnunni Ísland á batavegi: Lærdómar og verkefni framundan, sem haldin verður í Reykjavík 27. október næstkomandi.

Við undirrituð höfum áhyggjur af því að þú hafir aðeins fengið valdar upplýsingar um efnahagsástandið á Íslandi frá hérlendum stjórnvöldum. Við viljum því benda þér á mikilvægar viðbótarupplýsingar varðandi fjármál ríkis og sveitarfélaga, fjármálakerfið og stöðu almennings í landinu.

Almennt

Ljóst er að staðan í íslensku efnahagslífi er nokkuð önnur í dag en upphaflegar áætlanir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) gerðu ráð fyrir þegar þeir komu hér að málum í lok árs 2008. Þannig voru erlendar skuldir þjóðarbúsins nærri tvöfalt meiri í árslok 2010 en upphaflega var áætlað; skuldir hins opinbera eru meiri, atvinnuleysi er meira, verðbólga á árinu 2010 var meiri og svo virðist sem samdrátturinn í efnahagslífinu ætli að verða dýpri og vara lengur.

Ríkisfjármálin

Fyrir hrun skuldaði ríkissjóður 26% af VLF. Opinberar tölur yfir skuldir ríkisins eru 111% af VLF en heildarskuldir þjóðarbúsins eru hins vegar 280% af VLF.

Hrein peningaleg eign ríkissjóðs versnaði um 140 milljarða króna milli annars ársfjórðungs 2010 og 2011.

Ef marka má þessar tölur þá er hægt að leiða að því líkum að íslenska ríkið hafi frá hruni tekið að láni fjárhæð sem nemur jafnvirði landsframleiðslu í eitt ár og þá eru lánin frá AGS ekki einu sinni talin með.

Vaxtakostnaður ríkissjóðs af núverandi skuldabyrði er hátt í 20% af tekjum.

Sveitarfélög

Skuldir sveitarfélaganna og skuldbindingar voru 586 milljarðar um seinustu áramót. Ef skuldir Orkuveitu Reykjavíkur, sem eru vel á 300 milljarða, og 47 milljarða lífeyrisskuldbindingar sveitarfélaganna eru frátaldar standa samanlagðar skuldir sveitarfélaganna í 310 milljörðum kr. sem er 20% af VLF og 154% af tekjum þeirra.

Fjármálakerfið

Kostnaður íslenska ríkisins við endurreisn bankakerfisins í kjölfar hrunsins haustið 2008 var 64% af VLF sem er heimsmet.

Nýju bankarnir fengu lánasöfn gömlu bankanna á 45-65% af raunvirði þeirra. Þessi niðurfelling á milli gömlu og nýju bankanna hefur þó ekki skilað sér til almennings þar sem lánin eru rukkuð inn á nafnvirði þeirra.

Afleiðingarnar eru mikill hagnaður bankanna sem byggir á því að þeir eru að eignast stóran hluta af öllum eignum íslenskra fyrirtækja og heimila.

Almenningur

Nú er svo komið að 20% heimila í landinu geta ekki borgað af lánum sínum og 40% eru í miklum erfiðleikum. Í raun eru það bara 10% sem geta greitt af húsnæðislánum með eðlilegum hætti.

Ráðstöfunartekjur heimilanna hafa lækkað um 27,4% síðastliðin þrjú ár á meðan verðlag hefur hækkað um 40%. Af þessum ástæðum hefur neysla þjóðarinnar dregist saman.

Á sama tíma hefur þörfin fyrir mataraðstoð margfaldast en engar opinberar tölur eru til yfir fjöldann. Það eru þó staðreyndir að biðraðirnar við hjálparstofnanir hafa lengst og fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna hefur aukist um 62% frá hruni.

Fram hefur komið í tölum ríkisskattstjóra að skuldir íslenskra fjölskyldna hafi vaxið meira en eignir en á síðasta ári rýrnuðu eignir í fyrsta skipti meira en skuldir.

Fjölskyldum sem eiga meira en þær skulda hefur fækkað um 8,1% milli ára. Þeim sem voru með neikvæðan eignaskattstofn fjölgaði hins vegar um 12,1%.

Samkvæmt síðustu tölum Vinnumálastofnunar er atvinnuleysið 6,7%. Sú tala er hins vegar umtalsvert hærri þar sem markvisst er unnið að því að koma atvinnulausum í nám og af bótum á námslán.

Nálægt 5.600 manns hafa yfirgefið landið í leit að atvinnu og betri lífskjörum, sem jafngildir 1,84% fólksfækkun eða meira en heilli fjölskyldu á degi hverjum.

Í þessu sambandi skiptir líka máli að hópur fólks sem er atvinnulaus en á ekki rétt á atvinnuleysisbótum skráir sig ekki atvinnulausa. Hvatinn til að skrá sig er ekki til staðar þar sem fólk fær engar bætur hvort sem er.

Að lokum er rétt að benda á að samkvæmt tölum sem hafa verið í opinberri umræðu má ráða að störfum á Íslandi hafi fækkað um 22.500 sem er u.þ.b. 8,2% af skráðu vinnuafli 2010.

Niðurstaðan

Meginástæða hrunsins var ofvaxið bankakerfi. Það orkar því tvímælis frá sjónarhóli almenning að horfa upp á þá ofuráherslu sem stjórnvöld leggja á endurreisn þessa sama kerfis í stað þess að stuðla að raunhagvexti í samfélaginu.

Byrðunum af hruninu hefur fyrst og fremst verið dreift á skuldsettan almenning. Ríkisstjórnin hefur staðið gegn því að bæta almenningi tjón af völdum vafasamra vinnubragða fjármálakerfisins með almennri skuldaleiðréttingu og þess í stað boðið sértæk skuldaúrræði sem gefa bönkunum nánast sjálfdæmi um leiðréttingar í hverju tilfelli fyrir sig. Slík úrræði virðast fremur miða að því að viðhalda greiðsluþreki og hámarka endurgreiðslu, heldur en að eiga nokkuð skylt við sanngjarnar bætur fyrir þá stórfelldu eignaupptöku sem hefur átt sér stað.

Þessi afstaða ríkisstjórnarinnar og vinnubrögð bankanna hafa aðeins aukið á misskiptingu. Landsmenn horfa upp á að það er verið að afskrifa skuldir þeirra sem ollu hruninu, en fá svo að halda fyrirtækjum sínum og arði af ólöglegum fjármálagjörningum á sama tíma og almenningur er látinn þola afleiðingarnar.

Hagsmunagæsla kjörinna fulltrúa í þágu fjármálageirans á kostnað almennings er orðin að raunverulegri ógn við samfélagslegan stöðugleika.

Íslenska bankakerfið hefur sett skuldir sínar yfir á almenning eins og gert hefur verið í Grikklandi, Írlandi, Portúgal og víðar. Ísland sker sig því ekkert úr hvað það varðar að lýðræðið hefur orðið fórnarlamb bankaveldisins. 


Virðingarfyllst,

Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna 
Ásta Hafberg, nemandi í viðskiptastjórnun
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, fyrrverandi garðyrkjustjóri
Elínborg K. Kristjánsdóttir, fyrrverandi blaðamaður
Elías Pétursson, framkvæmdastjóri/háskólastúdent
Eyjólfur Kolbeinn Eyjólfsson, hugbúnaðarsérfræðingur
Björg Sigurðardóttir, fyrrverandi bankastarfsmaður
Björk Sigurgeirsdóttir, ráðgjafi
Guðbjörn Jónsson, ráðgjafi kominn á eftirlaun
Guðmundur Ásgeirsson, kerfisfræðingur
Guðrún Skúladóttir, sjúkraliði
Gunnar Skúli Ármannsson, læknir
Helga Garðarsdóttir, ferðamálafræðingur
Helga Þórðardóttir, kennari
Indriði Helgason, rafvirki
Jakobína I. Ólafsdóttir, stjórnsýslufræðingur
Rakel Sigurgeirsdóttir, íslenskukennari
Sigurjón Þórðarson, líffræðingur
Sigurlaug Ragnarsdóttir, listfræðingur
Vilhjálmur Bjarnason, ekki fjárfestir 
Þórarinn Einarsson, aðgerðasinni
Þórður Á. Magnússon, framkvæmdastjóri

Afrit sent á erlenda og innlenda fjölmiðla svo og ráðherrana þrjá sem eru í gestgjafahlutverkinu á ráðstefnunni:  Iceland´s Recovery—Lessons and Challenges  sem haldinn verður í Hörpunni n.k. fimmtudag eða þ. 27. október 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband