Illa skrifaðar greinar og leigðir pennar

Margir eiga ýmist erfitt með að skrifa greinar í dagblöð eða á vefsíður eða hafa ekki tíma til þess. Svo eru það þeir sem eiga mjög erfitt með að skipuleggja mál sitt þannig að vel sé. Þeir skrifa oft í greinar, blogg eða athugasemdir og það sést langar leiðir.

Ráðherrar láta aðstoðarmenn sína oft rita fyrir sig geinar. Gefa þeim bara efni og línuna. Borgarstjóri kann til dæmis ekki að skrifa grein og lætur aðra gera það. Nafn hans er við eina í Fréttablaðinu í gær.

Greinin er tvímælalaust ekki eftir manninn. Orðfærið, uppsetningin og hugsunin er svo fjarlæg hinni óskipulegu hugsun borgarstjóra sem hægt er. Stærsti gallinn við greinina er að hún er of löng og án millifyrirsagna.

Annar stór galli eru afar langar málsgreinar, - jafnvel yfir fjörtíu orð. Þær gera langa grein erfiða aflestrar.

Dæmi, 52 orða málsgrein:

Má þar nefna sumarlokanir á götum í miðborginni, lokun Austurstrætis fyrir bílaumferð, að kalla Miklatún Klambratún að nýju, að ýta metan meira, að hefja rannsókn á stjórnun og starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur fyrir hrun, að hækka fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar og fjölmargt fleira. Sumt er enn í vinnslu enda þarf að útfæra góðar hugmyndir vel. 

Ekki þarf lengi að leita að öðrum stjórnmálamanni sem skrifar langa grein og illlæsilega. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra skrifar grein í Fréttablaðið við hliðina á grein Jóns Gnarrs.

Hann hefur líklega skrifað gein sína sjálfur. Hún ber einkenni talsmáta ráðherrans mjög víða. Hins vegar er greinin gölluð. Málgreinar eru of langar, hér er ein með 65 orðum.

Ég fer þó ekki lengra aftur í tímann en hálfa öld, til að rifja upp þegar Alþingi samþykkti árið 1961 lög um launajöfnuð kvenna og karla. Laun kvenna skyldu hækka í áföngum til jafns við laun karla fyrir sömu störf í almennri verkakvennavinnu, verksmiðjuvinnu og verslunar- og skrifstofuvinnu, fyrst með hækkun um 1/6 hluta launamismunarins og síðan árlega þar til fullum launajöfnuði væri náð árið 1967.

Svona má ekki skrifa. Báðar greinarnar eru slæmar. Sú sem sögð er eftir borgarstjórann er þó skárri því víða eru þó stuttar málsgreinar. Þarna má finna fyrstu persónufornöfnin í fleiritölu og er það miklu betra en eintalan. Annað einkenni er að byrja málsgreinar á sagnorði sem er ekki áferðarfallegt og afar leiðigjarnt : „Ætti enginn Reykvíkingur að láta vefinn fram hjá sér fara.“, „Verða svörin birt á Betri Reykjavík.“.

Guðbjartur skrifar eins og bjúrókrat. Engin persónueinkenni eru á greininni. Hún er of löng, millifyrirsagnir eru aðeins tvær og hræðilega illa samdar. 

Svo eru það millifyrirsagnirnar. Borgarstjóragreinin nefnist „Betri Reykjavík fyrir fólkið“. fyrirsögnin vísar til efnis greinarinnar, vefinn betrireykjavik.is.

Ráherrann nefnir sína „Launajafnrétti kynjanna - barátta í hálfa öld“. Hvorugur hefur skilning á fyrirsögnum.

Báðar eru fyrirsagnirnar flatar og lítt áhugaverðar. Þær skera sig ekkert úr því sem frá þessum stjórnmálamönnum hefur komið. Auðveldlega má koma með betri fyrirsagnir en hafa ber í huga að illa skrifaðar greinar batna ekkert þó þeim fylgi góðar fyrirsagnir. Þetta þarf víst allt að haldast í hendur. Hér má láta það fljóta með að um 400 orða grein er mátulega löng. Það er list að skrifa stuttar greinar, allir geta skrifað langar.

Ekkert að því að fá aðra til að skrifa fyrir sig. Það væri líka ærið órökrétt af mér að gagnrýna slíkt. Ég hef lengi sinnt skrifum fyrir aðra; stjórnmálamenn, fyrirtæki, auglýsingastofur og jafnvel minningargreinar. Slíkir eru kallaðir leigupennar og eru afar algengir austan hafs og vestan og jafnvel hér á landi.

Þá er best að láta langri grein lokið (meira 566 orð), engar millifyrirsagnir en þó ágæt fyrirsögn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband