Hvað er lögreglan eiginlega að hugsa?

Skilningur manna á eðli jarðar, eldgosum, öskufalli, jarðhræringum, óróum og þessu öllu er allur að skýrast. Hins vegar eiga fjölmargir í erfiðleikum með að skilja framgöngu yfirvalda vegna eldgosanna í Eyjafjallajökli og á Fimmvörðuhálsi.

Lögreglan veldur mér alltaf jafnmiklum vonbrigðum. Sérstaklega sú á Hvolsvelli sem á að sjá um framkvæmd almannavarna í kringum Eyjafjallajökul.

hli.jpg

Svokölluðum Þórsmerkurvegi var lokað skömmu eftir að gosið hófst. Fyrst um sinn dvöldu á veginum bílar á vegum fjölmargra björgunarsveita og meinuðu manni akstur inn að Lóni. Lengra var ekki komist.

Svo hjaðnaði gosið smám saman og björgunarsveitirnar hurfu á braut. Enn var Þórsmerkurvegur lokaður. Þá var látið nægja að setja upp grind vinstra megin á veginum. Við hlið hennar, á miðjum vegi, var grafið niður umferðamerkið „allur akstur bannaður“. Hvað var hægra megin veit ég ekki. Þar lá einhvert ræksni, líklega grind. Plastborðar tengdu svo saman þessa þrjá hluta, en rammlegt var þetta ekki.

hli_2.jpg

Þegar eldgosið var í dauðateygjunum og vaknaði lögreglan við illan draum. Ákveðið var nú að loka Þórsmerkurvegi aldeilis traustlega. Sama grindarræksnið og áður var notað og sama umferðamerkið. Til viðbótar var bætt við einfaldri keðju, og var hún treyst með sama plastborðanum. 

Nú komst enginn inn eða út því keðjan var fest með hengilás. Vísindamenn og starfsmenn ferðafélagana þurfu nú að kalla á lögregluna til að hleypa sér út og inn. Stundum var biðin löng. Þó var enginn vandi að komast í gegnum þessa lokun. Hún var greinilega aðeins táknræn.

Hvað mig varðar, þá er ég ábyggilega verri en stór hluti þjóðarinnar og jafnvel lögbrjótur í þokkabót. 

_nyja_hrauni.jpg

Hér með skal það viðurkennt að ég braut gegn boði valdstjórnarinnar. Fyrir hálfum mánuði fór ég inn að lóni, gekk um það og skoðaði.

Síðar gekk ég upp á Fimmvörðuháls með einum félaga mínum. Þegar þangað var komið þótti okkur tilgangslítið að fara sömu leið til baka svo við gengum niður í Goðaland. Þar komum við okkur út eftir þeim fræga Þórsmerkurvegi og aftur að Skógum þar sem bíllinn beið.

Niðurstaðan er þessi: Boð og bönn halda ekki gangandi fólki frá þeim svæðum sem áhugavert er að skoða nema þeim fylgi traust og góð rök. Ég fullyrði að lögreglan viti ekkert í sinn haus.

Af hverju segi ég það? Jú, sjáum til:

  1. Fólk á vegum ferðafélaganna og vísindamenn fengu að fara um hið bannaða svæði eins og það vildi. Umferðamerkið „allur akstur bannaður“ á aðeins við suma - ekki aðra. Ófáir hafa t.d. ekið upp á Eyjafjallajökul og allir komu þeir aftur. Eru t.d. vísindamenn góðir og traustir fjallamenn? að minnsta kosti er ljóst að ekki eru allir fjallmenn góðir vísindamenn.
  2. Þeir sem inn eftir Þórsmerkurvegi fóru voru aldrei skráðir. Auk þess var ekkert athugað hvort ferðalangarnir ættu erindi eða voru bara fylgifiskar annarra, þ.e. ættingjar, vinir og kunningjar. Gæti verið að stundum hafi færri komið út úr Þórsmörk og Goðalandi en þangað fóru inn? Eða fleiri?
  3. Hvergi er eftirlit er með gangandi fólki. Menn láta það nægja að setja einhvern málamyndabúnað á Þórsmerkurveg og Fimmvörðuhálsveg og ætlast til að vegirnir séu lokaðir. Vegir nýtast gangandi vegfarnendum ekki síður en þeim akandi.
stika.jpg

En nú kann einhver að spyrja hvort allir eigi ekki að fara eftir boðum lögreglunnar?

Vissulega. Því er ég algjörlega sammála. Tvennt verður þó að vera á kláru:

Ekki má mismuna fólki.

Rökin fyrir lokun verða að standast skoðun.

Hugsanleg hætta þykja ekki góð rök. 

Forsendur bannsins eru ekki haldbærar. Það er öllum ljóst sem þarna þekkja til. 

Nú hef ég þegar ekið inn að Lóni, skoðað það næstum því í smáatriðum, gengið yfir Fimmvörðuháls og skoðað Goðaland og Stakkholt, farið yfir jökulfallið úr Gígjökli og enn er ég heill heilsu. Er það bara tilviljun?

fimmvor_uhals.jpg

Ég fæ ekki séð að það sé nein hætta á þessu svæði umfram það sem gerist og gengur á ferðalögum um torfarin svæði. Að vísu er nýja hraunið á Fimmvöruhálsi afar erfitt yfirferðar, raunar leggjabrjótur.

Staðreyndin er einfaldlega sú að svæðið norðan og austan Eyjafjallajökuls engu hættulegra en sunnan og vestan hans. Þannig hefur það verið nær því frá upphafi eldgoss.

Lokunin er tóm vitleysa. Það fullyrði ég meðan yfirvöld færa mér ekki sönnun og trúverðuga skýringu á lokuninni.

Og ég tek ekkert mark á því að ekki sé hægt að hafa hemil á fjölda fólks á þessu svæði. Ástæðan er einföld. Langflestir kunna að ferðast og þekking fólks á ferðalögum og útbúnaði er áreiðanlega ekki síðri hjá almenningi en lögreglu. 

Lögreglan þarf bara að hafa haldbær rök fyrir þeim bönnum sem henni dettur í hug að setja. Það er bara alls ekki nóg að setja upp einhverjar lokanir, birta kort og segja svæði hættusvæði sem alls ekki er hættusvæði umfram það sem það hefur alltaf verið. 

Nú stendur til að ganga upp að Goðasteini á Eyjafjallajökli. Vill einhver góður fjallamaður koma með mér og brjóta gegn valdstjórninni í leiðinni? 

Myndirnar:

  1. Efstu tvær myndirnar eru af þessum málamyndahliðum sem lögreglan lét setja upp á Þórsmerkurvegi og rætt er um í fyrri hluta pistilsins.
  2. Þriðja myndin er af ferðafélaga mínum sem gengur yfir hið torfæra, nýja hraun á Fimmvörðuhálsi. 
  3. Fjórða myndin er af stiku í öskufönn skammt neðan Fimmvörðuskála, nálægt Fúkka. Mér þykir þessi mynd afskaplega falleg.
  4. Fimmta myndin er af Fimmvörðuhálshrygg. Þar uppi er Fimmvörðuskáli. Þarna er rosaleg aska og undir er vetrarsnjórinn, einangraður og bíður síns tíma. Niður hlíðarnar hafa runnið öskutaumar þegar vatn hefur náð að hjálpa til.

 


mbl.is Flogið yfir gosið fyrir hádegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Höskuldur Örn Lárusson

Þú ættir að skammast þín Sigurður

Höskuldur Örn Lárusson, 26.5.2010 kl. 08:36

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Já, ég skammast mín alveg hrikalega fyrir að hafa ekki gengið á Eyjafjallajökul meðan hann gaus.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 26.5.2010 kl. 08:43

3 Smámynd: Höskuldur Örn Lárusson

Gott og ég ætla að vona að ég mæti þér ekki í umferðinni þar sem umferðaskilti skipta þig engu máli

Höskuldur Örn Lárusson, 26.5.2010 kl. 15:36

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Kæri Höskuldur. Ekkert við því að gera þó við séum ósammála en vinsamlegast gerðu mér ekki upp skoðanir.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 26.5.2010 kl. 15:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband