Benedikt formaður Viðreisnar fer með rangt mál

Lof­orð er lof­orð er lof­orð - og lof­orðið var svikið,“ sagði hann um fyr­ir­heit stjórn­ar­flokk­anna um þjóðar­at­kvæðagreiðslu fyr­ir síðustu kosn­ing­ar. „All­ir voru svikn­ir, hvort sem þeir vildu halda viðræðum áfram eða jarða ferlið.

Þetta er haft eftir formanni Viðreisnar, Benedikt Jóhannessyni, formanni Viðreisnar. Ótrúlegt að hann skuli ekki fara með rétt mál varðandi aðlögunarviðræðurnar við ESB á aðalfundi flokksins sem haldinn er í dag, 24. september.

Síðasta ríkisstjórn sótti um aðild að ESB án þess að spyrja þjóðina álits. Stjórnarmeirihlutinn hló að tillögu Sjálfstæðisflokksins um þjóðaratkvæðagreiðslu um inngönguna, felldi hana og lét þess í stað duga einfalda þingsályktunartillögu um eitt stærsta málþjóðarinnar frá því árið 1944.

Formaður Viðreisnar heldur því nú blákalt fram að viðræður við ESB hafi ekki verið aðlögunarviðræður heldur einhvers konar spjall.

Þetta var ekkert spjall eða samningaviðræður heldur aðlögun Íslands að ESB. Niðurstaðan hefði aldrei orðin einhver hefðbundinn milliríkjasamningur heldur annað af tvennu, að Ísland hefði verið tækt til aðildar í ESB eða ekki.

ESB býður ekki upp á samningaviðræður um aðild heldur aðlögunarviðræður. Þannig eru reglurnar og þær setur ESB en hvorki Benedikt né Samfylkingin eða aðrir krataflokkar.

Hefði svo ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar átt að gangast fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB? Allir ráðherrarnir eru á móti aðild. Allir þingmenn stjórnarmeirihlutans eru á móti aðild. Landsfundir beggja flokka eru á móti aðild. Langstærsti hluti flokksmanna í báðum flokkum eru á móti aðild. Og í þokkabót er mikill meirihluti landsmanna á móti aðild.

Hvers konar rugl hefði það verið að ríkisstjórn færi að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um mál sem hún er í grundvallaratriðum ósammála?

Þetta er ómerkileg pólitík hjá Benedikt Jóhannessyni. Vinstri flokkarnir gáfust upp á þessu trikki en Viðreisn heldur sem betur fer að stefna flokksins um að ganga í ESB afli flokknum fylgis. Við Sjálfstæðismenn fögnum þessari stefnu Viðreisnar.

 


mbl.is Loforð er loforð – og loforðið var svikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræðislegar endurbætur á ólýðræðislegu lýðræði

Margir hafa áhyggjur af lýðræðinu, það standi einfaldlega ekki undir þeim kröfum sem gert er til þess, sé beinlínis ólýðræðislegt. Að þessu sögðu, það er að lýðræðið sé ekki nógu lýðræðislegt, er ágætt að skoða hvað til hvaða ráða Sjálfstæðiflokkurinn getur gripið til að verjast ólýðræðislega lýðræðinu í lýðræðislegum kosningum.

Konur eru vissulega óhressar með stöðu sína eftir prófkjör í tveimur kjördæmum. Það er miður enda eiga bæði kynin að velja frambjóðendur óháð kyni þeirra. Það gerist hins vegar ekki alltaf og yfirleitt hallast á konur, þær fá oftast færri atkvæði en karlar.

Besta lausnin er ábyggilega sú að setja einfaldlega ákvæði í prófkjörsreglur þess efnis að kjósandi sem velur karl í fyrsta sæti þurfi að velja konu í annað sæti og svo koll af kolli. Annars verður atkvæðaseðillinn ógildur. Hugsanleg útfærsla á þessu má vera þannig að þetta gildi aðeins um fyrstu fjögur sætin.

Er þetta lýðræðislegt fyrirkomulag? Já, ábyggilega eins og sú regla að kjósa þurfi í Reykjavíkurkjördæmunum að lágmarki sex frambjóðendur en ekki fleiri en átta.

Nú eru þá allir sáttir nema ungir sjálfstæðismenn. Þeir munu áreiðanlega gera þá sanngjörnu kröfu að sambærileg regla verði sett um ungt fólk, það verði skilyrði að í fyrstu fjórum sætunum verði einn frambjóðandi sem er yngri en þrjátíu ára. Sé ekki svo verði atkvæðaseðillinn ógildur. Hugsanlega útfærsla á þessu gæti verið sú að kjörnefnd lagfæri hreinlega þannig atkvæðaseðla svo hinn sanni vilji kjósandans komi í ljós.

Er þetta lýðræðislegt fyrirkomulag? Jú, ábyggilega eins og reglan um kynjaskiptinguna.

Næst gera hommar og lesbíur sambærilega kröfu, að ekki megi ganga framhjá þeim. Jú, þetta er álíka sambærilegt og þetta með aldurstengt kjör.

Við hárfatlaðir (þeir sem hafa lítið eða ekkert hár á höfði) gerum auðvitað kröfu til að sjónarhorn okkar heyrist á þingi. Því verði samþykkt sú regla að kjósandi verði að velja í eitt af átta efstu sætunum einn karl (eða konu) sem hafi af náttúrulegum völdum lítið sem ekkert hár efst á höfði.

Er þetta lýðræðislegt fyrirkomulag? Jú, alveg eins og reglan um homma og lesbíur.

Nú hafa margir áhyggjur af því að of margir lögfræðingar séu of margir á framboðslistum og mætti því setja þá einföldu reglu að ekki megi kjósa fleiri en tvo úr hverri starfstétt.

Er þetta lýðræðislegt fyrirkomulag? Jú, alveg eins og reglan um sköllóttan ég meina hárfatlaðan frambjóðanda.

LýðræðiÞetta er bara lýðræðislegar reglur og hjálpa til við að gera hið ólýðræðislega lýðræði miklu lýðræðislegra.

Ástæðan er einfaldlega sú að í Sjálfstæðisflokknum höfum við alltof lengi búið við afar ófullkomið lýðræði. Aðrir stjórnmálaflokkar eru komnir miklu lengra. 

Vinstri grænir, Samfylkingin og stjórnmálaflokkurinn Píratar hafa gert mjög athyglisverðar lagfæringar á lýðræðinu þar sem gott og vandað fólk hefur tekið að sér að lagfæra prófkjörslista samkvæmt þeim vilja sem kjósendur hafa án nokkurs efa hugsað sér en ekki tekist að tjá með einu krossmarki á atkvæðaseðil sinn.

 


Hjásetan, afsal ákvörðunarvalds í stóru málunum

FulltrúalýðræðiHinn blákaldi veruleiki er þó sá að venjulegt vinnandi fólk skortir iðulega bæði svigrúm og tíma til þess að setja sig inn í flókin samfélagsleg úrlausnarefni. Sú staða er óbreytt enn í dag, hvað sem líður tækniframförum og bættum samgöngum. Beint lýðræði er því illa framkvæmanlegt og í almennri framkvæmd eru þjóðaratkvæðagreiðslur aðeins haldnar í undantekningartilvikum um málefni sem varða mikilvæga hagsmuni landsmanna.

Þetta skrifar Arnar Þór Jónsson, lektor í lögum, í Morgunblað dagsins (feitletrun er mín). Ég tek undir með honum og raunar tek ég ofan fyrir manni, sem þvert á skolkennda umræðu um beint lýðræði, segir með ágætum rökum hvers vegna fulltrúalýðræðið sé réttlát og skynsamleg aðferðafræði. Og Arnar útskýrir hvers vegna svo sé en segir í beinu framhaldi af tilvitnuninni hér fyrir ofan:

Þetta er raunar ástæðan fyrir því að flest lýðræðisríki nútímans hafa komið á fót svonefndu fulltrúalýðræði, þar sem borgararnir fela kjörnum fulltrúum sínum að taka ákvarðanir um málefni samfélagsins – og þar með um almannahag.

Ástæðan fyrir grein Arnars Þórs er hjáseta stjórnmálaflokka og þingmanna á Alþingi. Hann bendir einfaldlega á að þingmenn þiggja laun fyrir starfa sinn og í því felst að þeir eiga að setja sig inn í þingmál og taka afstöðu. Auðvitað er auðvelt að túlka hjásetu hreinlega sem „vinnusvik“ en málin eru engu að síður dálítið flóknari en svo.

Vissulega getur það verið að þingmenn vilji sitja hjá en þeir eiga að gera það af annarri ástæðu en að þeir hafi „ekki haft tök á“ að kynna sér málin, eins og Arnar orðar það og beinir án efa spjótum sínum að stjórnmálaflokknum Píratar.

Í lok greinar sinnar segir Arnar og er vart hægt að orða hugsunina betur:

Lýðræðisástin ristir vart djúpt hjá þingmönnum sem afsala sér ákvörðunarvaldi, jafnvel í stærstu málum. Ef sjálfskipaðir kyndilberar lýðræðisins bregðast hlutverki sínu með þessum hætti hljóta kjósendur að minnast þess á kjördag þegar kjörtímabilið er gert upp og ábyrgðinni endurúthlutað.


Bloggfærslur 24. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband