Viðhlæjendur, vinir, fréttabörn og samtrygging

Fréttastofa er hjá sjónvarpi Ríkisútvarpsins og önnur hjá sjónvarpi 365 miðla, Stöð2. Þetta eru dálítið skrýtnar aðstæður, má eiginlega líkja þeim við fótboltafélög. Fyrir leikmann virðist sem þessar tvær sjónvarpsstöðvar séu tengdar innbyrðis. Það sást best í nokkuð skemmtilegum sjónvarpsþætti í sjónvarpi Ríkisútvarpsins á laugardagskvöldið.

Svo virðist sem allir fréttamenn þessara tveggja sjónvarpsstöðva hafa flakkað til og frá. Þegar þeir hafa ekki unnið hjá Stöð2 hafa þeir verið hjá sjónvarpi Ríkisútvarpsins.

Þetta er eins og fótboltalið. Þjálfarinn hefur þjálfað helminginn af hinum liðunum og eldri leikmennirnir hafa spilað með öðrum liðum. Og allir þekkjast innbyrðis og eru vinir

Nokkrir sjónvarpsmanna sem hafa verið framkvæmdastjórar einnar sjónvarpstöðvar hafa líka verið í sama starfi á hinni. Fréttastjórarnir hafa notið þess að vera í sömu stöðu á báðum stöðvunum. Fréttamennirnir hafa hlaupið á milli, verið reknir af einni og ráðnir af hinni.

Allir eru þeir bestu vinir, „pallar“ eins og sagt er. Taka viðtöl við hver við annan og hlæja svo hátt og dátt.

„Manstu þegar við gerðum þetta ...“.

Já, en manstu eftir hinu ...“.

„Og mikið óskaplega hló ég þegar hann plataði alla ...“

Þetta eru svo skemmtilegir krakkar og nánast heimilisvinir landsmanna. Þeir hafa aldrei rangt fyrir sér af því að þeir eru svo „næs“ og „kammó“ og hafa verið með andlitið í sjónvarpinu í tugi ára. Óþægilega lengi, má vissulega segja ...

„Unga fólkið er svo óskaplega klárt, miklu skynsamar og betur menntað en það eldra.“ 

„Samt eru þeir til sem kalla ungu fréttamennina „fréttabörn“. Þvílíkur dónaskapur og mannvonska,“ sagði einn, sem þó kann að skrifa og tala og hefur ekki synt í meðalmennskunni.

„Fréttabörn“ ...

Þetta er einfaldlega hugtak sem neytendur sjónvarpsstöðva og annarra fréttamiðla hafa um þá sem skrifa og flytja fréttir á slæmri íslensku. Fólk sem ruglar saman hugtökum, orðtökum eða málsháttum, vantar nauðsynlegan orðaforða, kann ekki landafræði, veit ekki hvað stjórnar falli nafnorðs, skilur ekki viðtengingarhátt, veit ekkert um nástöðu, virðist ekki hafa ekki almenna þekkingu eða hreinlega giskar á ...

Dettur sjónvarpsliðinu það virkilega ekki í hug að neytendur hafi skoðun?

Því miður er það svo að hinir eldri og reyndari frétta- og blaðamenn lesa ekki yfir fréttir hinna yngri. Allt er látið vaða út á öldur ljósvakans eða prentað á pappír. Ástæðan er einfaldlega sú að magnið skiptir meira máli en gæðin og engin virðist hugsa um uppeldislegt gildi frétta.

Þess vegna skrifa „fréttabörnin“ mörg hver „tvitterísku“ og „fésbókísku“. Þó er vissulega til ungt fólk í fjölmiðlum sem eru sér til mikils sóma svo jafnvel margir hinna eldri ættu að taka sér þau til fyrirmyndar - láta þau lesa yfir fyrir sig.

Nei, auðvitað eru þetta bara leiðindi. Sjónvörpin eru óskeikul og þeir sem þar starfa eru óumdeilanleg enda vinir. 

Nei, kæri lesandi. Ég á ekki við neitt samtryggingakerfi. Á það ekki aðeins við um stjórnmál og atvinnulíf?

Nei, og aftur nei. Fréttaliðið klikkaði ekkert í fréttaflutningi sínum, hvorki fyrir né eftir hrun. Það ber enga ábyrgð. Við eigum bara að ráðast á Moggann og kenna honum um allt sem miður hefur farið í fortíð, nútíð og framtíð.


Skjálftarnir við Húsmúla færast sunnar

HúsmúliNiðurdæling Orkuveitunnar vegna Hellisheiðarvirkjunar virðist hafa verða til þess að stærri jarðskjálftahrina hafi orðið til á svæðinu en nokkru sinni áður.

Ég hef áhyggjur af niðurdælingunni og gat um það í pistli síðasta laugardag

Hægra megin er mynd af jarðskjálftasvæðinu og er hún fengin af vef Veðurstofunnar. Sjá má að það er suðvestanmegin við Húsmúla, í kringum Draugatjörn.

Neðra kortið er frá því síðasta laugardag.

Allir sjá að skjálftum hefur fjölgað að mun og svo virðist sem þeir teygi sig sífellt lengra til suðurs. Af samanburðinum sést að þeir eru komnir suður fyrir gamla suðurlandsveginn.

160917 HúsmúliÞað þykir fréttnæmt þegar skjálftar yfir þremur stigum verða í Bárðarbungu og keppast margir við að segja frá möttulstróknum þarna undir og ýmist að kvika sé að koma upp eða eldstöðin sé að róast eftir Holuhraunsgosið.

Sömu viðbrögð hafa ekki orðið við mikilli skjálftahrinu við Húsmúla. Fjölmiðlar þegja, leita ekki til jarðvísindamanna. Þeir virðast halda aftur af sér, segja sem minnst. Vilja líklega ekki valda óróa. Í einkaspjalli eru þeir þó afar órólegir og ekki af ástæðulausu.

Niðurdælingin er þess eðlis að um er að ræða vatn sem áður var gufa og notuð til raforkuframleiðslu í Hellisheiðarvirkjun. Til að losna við vatnið var gripið til þess ráðs að dæla því aftur ofan í jörðin. Hugmyndin var sú að þá verði til hringrás. Má vera að svo sé. 

Hins vegar er bent á að niðurdælingin valdi breytingu í jarðlögum. Þau eru af náttúrulegum ástæðum sprungin vegna flekahreyfingum og afleiðingarnar hafa verið eldgos af og til í þúsundir ár. Ísland gliðnar hægt og rólega. Vesturhluti landsins stefnir í vestur og sá eystri í austur en í miðjunni er gosbeltið.

Með því að þrýsta vatni ofan í jarðlögin er talið að til verði nokkurs konar „smurning“ sem geri það að verkum að kraftar sem valda gliðnun á Hengilssvæðinu eiga auðveldara með að hreyfa við sprungukerfunum. 

Segjum að þetta sé bara allt í lagi, jarðskjálftarnir hefðu bara komið fyrr eða síðar. Þessi rök eru þó ekki góð vegna þeirrar staðreyndar um að skjálftar á einum stað valda skjálftum á öðrum. Þetta er það sem jarðfræðingar kalla bókahillutektónk. Hún byggist á þeim einfalda atburði að byrji ein bók í bókhillu að hallast þá fellur hún á næstu bók og svo koll af kolli. 

Þetta er staðreyndin með jarðskjálfta á víðast á landinu, ekki síst á Reykjanesi og suðurlandi. Með skjálftunum á einum stað verður til orka sem safnast upp og getur leyst úr læðingi mikinn skjálfta langt í burtu eins og sannaðist í Suðurlandsskjálftunum fyrr á þessari öld og raunar síðustu aldir.

Hvað gerist nú þegar jarðlögin við Hengil eru smurð svo hressilega að þau eiga auðveldara með að hrökkva úr stöðu sinni? Ég er aðeins leikmaður og hef ekki þekkingu til að fylgja þessari hugsun til enda. 

Hins vegar hef ég verulegar áhyggjur af niðurdælingunni. Held að náttúran sé ekki þannig að hún láti einhverja leika með þá krafta sem í henni búa. Hér vantar skýringar og ég kalla eftir þeim.


mbl.is Skjálfti upp á 3,6 stig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband