Ógnir við Húsavík og Húsmúla

Jarðfræði landsins er víða áhyggjuefni. Nóg er um fræðimenn sem hafa skoðun á Kötlu, Heklu, Eyjafjallajökli, gosbeltinu sem gengur í gegnum landið og svo framvegis. Meiri áhyggjur hefur maður af stöðum þar sem vísindamenn kjósa einhverra hluta vegna að tjá sig lítið um. Ég er hef lítið vit á jarðfræði en mér hefur lengi verið starsýnt á tvo staði.

HúsavíkTjörnesbrotabeltið

Nefna má þann fallega stað Húsavík. Í gegnum bæinn gengur mikil sprunga, allt frá Þeystareykjum og út í haf, þvert um Skjálfandaflóa og fyrir mynni Eyjafjarðar. Þetta eru raunar ekki ein heldur margar sprungu, misgengi sem skera Húsavíkurfjall og miðjan bæinn og norðan við hann.

Verið er að reisa kísilmálmbræðslu nákvæmlega á hluta misgengisins sem raunar er virkari hluti þess. Sjúkrahúsið á Húsavík stendur á syðra misgenginu, beint ofan á sprungu sem við ákveðnar aðstæður mun ekki aðeins ganga í sundur heldur munu barmar hennar fara í sitt hvora áttina.

Á Húsavíkurmisgenginu er gríðarlega mikið um jarðskjálfta, allt árið um kring. Sama er með annað svæði norðan við það sem kennt er við Grímsey.

Enn norðar er annað misgengi sem kennt er við Grímsey og liggur sprunga eða sprungukerfi frá Kópaskeri og norðvestur til Grímseyjar eða aðeins norðan við eyjuna.

Tjörnesbrotabeltin tengjast fyrst og fremst flekahreyfingum. Myndin hér til hægri sýnir gríðarlegan fjölda skjálfta sem urðu á þessum Tjörnesbrotabeltinu á fimm dögum árið 2013. Með misgengi er átt við að barmar sprungu færast í gagnstæðar áttir.

HúsmuliHúsmúli

Annar staður sem vekur dálítinn óhug er Hellisheiðarvirkjun sem engu að síður er við Kolviðarhól en ekki á Hellisheiði. Þar fæst mikil gufa úr jörðu og með henni er framleidd raforka. Eftir að gufan hefur orðið að vatni og það kælst mjög mikið er því aftur dælt ofan í jörðu.

Fáir jarðvísindamenn ræða opinberlega þessa „hugvitsamlegu“ lausn. Í einkasamtölum eru þeir engu að síður nokkuð áhyggjufullir vegna þess að hún veldur beinlínis jarðskjálftum.

Í dag er mikil skjálftahrina við Húsmúla en þar er einmitt talsvert um niðurdælingu. Hrinan er öflugari en ég hef séð áður.

Þegar þetta er skrifað hafa komið sex skjálftar sem eru meira en tvö stig, þar af fjórir sem eru 2,5 stig og stærri. Um 40 skjálftar eru stærri en 1 stig.

Ég hef spjallað við jarðfræðinga sem halda því fram að niðurdæling auki á líkur á skjálftum, vatnið virki einfaldlega sem smurning. Aðrir segja að ekkert sé að óttast, þessir skjálftar verði alltaf mjög litlir.

Á grænu myndinni sem fengin er af vef Veðurstofunnar sést hvar jarðskjálftahrina dagsins er, það er suðvestur af Húsmúla, skammt frá Hellisheiðarvirkjun.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur hefur oftar en einu sinni látið hafa eftir sér hversu arfavitlaust sé að byggja verksmiðju þarna, en engum hefur dottið í hug að svara honum. Væntanlega halda þeir að með því að þegja þá muni ekkert gerast. Ofan á allt er búið að gera göng frá hafnarsvæðinu að verksmiðjusvæðinu Í GEGNUM MISGENGIÐ. Verkfræðingar segjast vera svo rosalega klárir að þeir hafi hannað þau þannig að þau geti ekki hrunið þegar jarðskjǽalfti upp á 6.5 á Ricther ríður yfir.

thin (IP-tala skráð) 17.9.2016 kl. 18:34

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Páll er mikill fræðimaður og orðum hans má treysta.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 17.9.2016 kl. 18:37

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ekkert lát á jarðskjálftum við Hengil og þar af einn yfir þremur. Ekkert fáum við þó að vita annað en að samkvæmt fréttum þá stendur jarðskjálftahrina yfir á Hengilssvæðinu. Stundum hefur verið varað við skjálftum vegna niðurdælingar en ekki að þessu sinni. Hvað eigum við að halda? Allt bendir þó til niðurdælingar miðað við staðsetningu.

Emil Hannes Valgeirsson, 18.9.2016 kl. 11:19

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Já, hvað á maður að halda? Skjálftarnir eru eingöngu á niðurdælingarsvæði, suðvestan við Húsmúla, í kringum Draugatjörn. Svona hrina er óþekkt á þessu svæði. Annað er að þessir skjálftar eru mjög grunnir, stóru skjálftarnir eru á um tveggja km dýpi en litlu mun grynnri. Þarna er verið að „smyrja“ jarðlögin. Þessi skýring er líkleg, að minnst kosti þangað til jarðfræðingar koma með skárri.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 18.9.2016 kl. 11:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband