Ógnir við Húsavík og Húsmúla

Jarðfræði landsins er víða áhyggjuefni. Nóg er um fræðimenn sem hafa skoðun á Kötlu, Heklu, Eyjafjallajökli, gosbeltinu sem gengur í gegnum landið og svo framvegis. Meiri áhyggjur hefur maður af stöðum þar sem vísindamenn kjósa einhverra hluta vegna að tjá sig lítið um. Ég er hef lítið vit á jarðfræði en mér hefur lengi verið starsýnt á tvo staði.

HúsavíkTjörnesbrotabeltið

Nefna má þann fallega stað Húsavík. Í gegnum bæinn gengur mikil sprunga, allt frá Þeystareykjum og út í haf, þvert um Skjálfandaflóa og fyrir mynni Eyjafjarðar. Þetta eru raunar ekki ein heldur margar sprungu, misgengi sem skera Húsavíkurfjall og miðjan bæinn og norðan við hann.

Verið er að reisa kísilmálmbræðslu nákvæmlega á hluta misgengisins sem raunar er virkari hluti þess. Sjúkrahúsið á Húsavík stendur á syðra misgenginu, beint ofan á sprungu sem við ákveðnar aðstæður mun ekki aðeins ganga í sundur heldur munu barmar hennar fara í sitt hvora áttina.

Á Húsavíkurmisgenginu er gríðarlega mikið um jarðskjálfta, allt árið um kring. Sama er með annað svæði norðan við það sem kennt er við Grímsey.

Enn norðar er annað misgengi sem kennt er við Grímsey og liggur sprunga eða sprungukerfi frá Kópaskeri og norðvestur til Grímseyjar eða aðeins norðan við eyjuna.

Tjörnesbrotabeltin tengjast fyrst og fremst flekahreyfingum. Myndin hér til hægri sýnir gríðarlegan fjölda skjálfta sem urðu á þessum Tjörnesbrotabeltinu á fimm dögum árið 2013. Með misgengi er átt við að barmar sprungu færast í gagnstæðar áttir.

HúsmuliHúsmúli

Annar staður sem vekur dálítinn óhug er Hellisheiðarvirkjun sem engu að síður er við Kolviðarhól en ekki á Hellisheiði. Þar fæst mikil gufa úr jörðu og með henni er framleidd raforka. Eftir að gufan hefur orðið að vatni og það kælst mjög mikið er því aftur dælt ofan í jörðu.

Fáir jarðvísindamenn ræða opinberlega þessa „hugvitsamlegu“ lausn. Í einkasamtölum eru þeir engu að síður nokkuð áhyggjufullir vegna þess að hún veldur beinlínis jarðskjálftum.

Í dag er mikil skjálftahrina við Húsmúla en þar er einmitt talsvert um niðurdælingu. Hrinan er öflugari en ég hef séð áður.

Þegar þetta er skrifað hafa komið sex skjálftar sem eru meira en tvö stig, þar af fjórir sem eru 2,5 stig og stærri. Um 40 skjálftar eru stærri en 1 stig.

Ég hef spjallað við jarðfræðinga sem halda því fram að niðurdæling auki á líkur á skjálftum, vatnið virki einfaldlega sem smurning. Aðrir segja að ekkert sé að óttast, þessir skjálftar verði alltaf mjög litlir.

Á grænu myndinni sem fengin er af vef Veðurstofunnar sést hvar jarðskjálftahrina dagsins er, það er suðvestur af Húsmúla, skammt frá Hellisheiðarvirkjun.

 

 


Áróður Ríkisútvarpsins gegn Framsókn og formanninum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður FramsóknarSigmundurflokksins, hlaut örugga kosningu sem oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi. Hann hlaut meira en helming atkvæða og því þarf ekki að kjósa aftur um efsta sætið. Sigmundur hlaut yfirburðarkosningu eða 170 atkvæði, 72 prósent.

Svo segir á vef Ríkisútvarpsins. Nú velti ég því fyrir mér hvað stofnunin tekur til bragðs eftir um fimm mánaða fabúleringar um valta stöðu formanns Framsóknarflokksins í kjördæmi sínu. Á þessum tíma hefur varla liðið sá fréttatími að ekki hafi verið minnst á Sigmund Davíð Gunnlaugsson  í fréttatímum og síst af öllu til að fegra ímynd hans. Þvert á móti virðist Ríkisútvarpið hafi lýst yfir hatrömmu stríði gegn manninum og flokknum hans.

Mér er nokk sama um Framsóknarflokkinn, styð hann ekki og hef aldrei gert. Get þó varla orða bundist eftir langa baráttu fjölmiðils sem ég er neyddur til að vera áskrifandi að, þess hins sama sem í þokkabót segist vera allra landsmanna.

Heiftin gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni skín í gegnum allan fréttaflutning. Ekki þannig að á hann sé ráðist eins og fréttirnar skrifi „virkir í athugasemdum“ sorpblaða. Nei, umfjöllunin er lævíslegri en svo. Fréttamenn draga til alls kyns álitsgjafa sem hafa afar fjölbreytta skoðun á báðum, síst þó jákvæða.

Skelfing sem manni leiðist þessi fréttaflutningur og þar að auki Framsóknarflokkurinn. Samt er þessu er dengt framan í hlustaendur í fréttum, fréttaskýringum og alls kyns þáttum í útvarpi og sjónvarpi. Sannkallað maraþon gegn Framsóknarflokknum.

Næst á dagskránni er aðalfundur Framsóknar og fram að þeim tíma verða alls kyns bollaleggingar fréttamanna um framtíð Sigmundar Davíðs, hvort hann verði felldur í formannskjöri, hvað verði um forsætisráðherrann og hvað Guðni Ágústsson fái sér í morgunmat og kvöldmat.

Dettur einhverjum í hug að Ríkisútvarpið hafi ekki áhrif? Stór hluti landsmanna hlustar á fréttatíma í útvarpi og sjónvarpi og margir gleyma það hrátt sem kemur í þeim. Sá tónn sem þar er sleginn, hefur gríðarleg áhrif.

Ég viðurkenni að ég á fullt í fangi með að taka á móti þessum fréttaflutningi um Framsóknarflokkinn því smám saman hefur þau áhrif að hann hefur áhrif á undirmeðvitundina, að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sé hinn mesti skíthæll og landráðamaður.

Vandamálið er að ég tek fáu gagnrýnislaust, er bara betur upplýstur en svo að ég láti áróður ráða skoðunum mínum. Ég hlusta og les það sem stjórnmálamenn segja en læt ekki fjölmiðil ráða hvaða skoðanir ég mynda. Ég fylgist með fjölmiðlum, les skýrslur og afla mér upplýsinga. Þar rekst áróðurinn á vegg upplýsingarinnar.

Á grundvelli þess sem ég er, skil og veit þá veit ég að meira er spunnið í íslenska stjórnmálamenn en áróðursmeistarar og sundurlyndisfólk lætur í veðri vaka. Og ég mótmæli því að fjölmiðill sem ég er nauðbeygður til að vera áskrifandi að sé misnotaður til að hafa þau áhrif á mig að mér eigi á mislíka einhver stjórnmálamaður eða stjórnmálaflokkur.

Þrátt fyrir það sem ég hef hér sagt um Ríkisútvarpið er það ekki alls kostar slæmt og margt gott sem þar er gert.

Hér er samt eitt lítið dæmi um eitthvað sem ég skil ekki. Í Ríkisútvarpinu er verið er að auglýsa tónleika hinnar frábæru norsku söngkonu Sissel Kyrkjebø sem verða í haust. Um leið og auglýsingarnar taka að hljóma er farið að spila lög með þessari sömu söngkonu í ýmsum dagskrárliðum Ríkisútvarpsins. Þetta er ábyggilega tilviljun rétt eins og fréttaflutningurinn um formann Framsóknarflokksins.


mbl.is Sigmundur með afgerandi forystu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband