Náttúruhamfarir yfirvofandi vegna prófkjörs VG í NV kjördæmi

Vegna mistaka sem urðu við út­gáfu og út­send­ingu kjör­gagna, ákvað kjör­stjórn í Norðvest­ur­kjör­dæmi, í sam­ráði við formann flokks­ins, að senda út ný kjör­gögn með skýr­ari leiðbein­ing­um og að fram fari nýtt for­val hið allra fyrsta.

Svo segir á vefsíðu Vinstri grænna. Þessi flokkur hefur ásamt Samfylkingunni verið hvað ötulastur í samsæriskenningum og þá sérstaklega gagnvart „ljótu kapítalistunum, nýfrjálshyggjunni, kvótakóngum og heildasalamafíunni“.

Auðvitað tekur enginn mark á Vinstri grænum, í það minnsta afar fáum, enda er fylgið í 10%. Útilokað er að mistök hafi verið gerð, þau eru fyrirslátturinn og eru af stalínískum uppruna.

Staðreyndin er einfaldlega sú að flokksforustan sá sitt óvænna þegar Skagfirðingurinn Bjarni Jónsson bauð sig fram í prófkjöri flokksins í Norðausturkjördæmi.

Skagfirðingar, hvar í flokki sem þeir standa, eru þekktir fyrir umsvif sín og dugnað í stjórnmálum. Bjarni lætur sér ekki duga að lulla í framboð án undirbúnings. Hann, eins og aðrir úr þessum fallega firði, tekur til óspilltra málanna, safnar liði og nýtur liðsinnis föður síns, Jóns Bjarnasonar, sem var á síðasta kjörtímabili þingmaður og stórhættulegur þyrnir í síðu flokksforustunnar vegna afstöðu sinnar til ESB, Icesave og fleiri mála.

Vandinn er sá að fyrir á fleti er Vestfirðingurinn Lilja Rafney Magnúsdóttir, hægfara félagsmálakelling sem hafist hefur til metorða fyrir að fylgja flokksforustunni án þess að mögla yfir meintum svikum vegna ESB og Icesave eins og Jón Bjarnason gerði. Miklu viðráðanlegri kostur.

Þetta þolir flokksforustan ekki. Hún ætlar sér síst af öllu af fá þennan Jóns bur inn í þingflokkinn og eiga það á hættu sem þessi sósíalistaflokkur þurfti að endurlifa enn á ný sem gerðis á tíma hálfdauðu vinstri ríkisstjórnar Samfylkingar og VG, annum terrebilis.

Þess vegna er hætt við prófkjörið.

Katrín Jakobsdóttir, formaður, og Steingrímur, fyrrverandi, ætla nú að safna liði annars staðar í kjördæminu og koma í veg fyrir þá vá að Bjarni sonur Jóns komist þá þing. Búið er að hringja öllum bjöllum og blása í alla finnanlega herlúðra, senda reykjarmerki og morsa á milli fólks.

Vandinn er hins vegar sá að á meðan þau tvö og fleiri ráða ráðum sínum hefur Bjarni enn rýmri tíma til undirbúnings og liðssafnaðar. Úbbs ...

Líklega verður niðurstaðan algjör hervæðing VG í Norðvesturkjördæmi, allir sem vettlingi geta valdið verða dregnir á kjörstað eða kjörstaður dreginn til þeirra. Mun þá engu skipta hvort kjósendur séu meðlimir í VG eða ekki, sprellifanndi eða hálfdauðir. Tilgangurinn helgar meðalið

Ég ætla sko ekki að fá annan Atla Gíslason í þingflokkinn hvað þá son Jóns ...“ er sagt að Steingrímur hafi frussað út úr sér í hleruðu símtali við Katrínu Jakobsdóttur. „Þetta eru náttúrhamfarir Kata, Áttarðu þig á því ... ha?“


Tillögur um val frambjóðenda í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík vegna alþingiskosninganna í haust verður á laugardaginn. Ég hef gert upp huga minn og ætla að kjósa eftirfarandi frambjóðendur í þessari röð:

  1. Ólöf Nordal, innanríkisráðherra
  2. Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður
  3. Brynjar Níelsson, þingmaður
  4. Birgir Ármannsson, þingmaður
  5. Sigríður Ásthildur Andersen, þingmaður
  6. Jón Ragnar Ríkharðsson, sjómaður
  7. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins 
  8. Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi

Kjósa skal sex til átta frambjóðendur, hvorki fleiri en átta né færri en sex, ella ógildist kjörseðillinn. Kosið skal með því að setja tölustaf frá einum og upp í átta fyrir framan nöfn frambjóðenda í þeirri röð sem óskað er að þeir skipi endanlegan framboðslista.

Eðli máls vegna getur sami einstaklingur aðeins kosið í því kjördæmi þar sem hann er búsettur. Þar af leiðandi fæ ég ekki að kjósa annars staðar en í Reykjavík. Hins vegar þekki ég ágætlega til víða um land og hef myndað mér skoðanir á framboðum til allra prófkjara. Ég leyfi mér því hér að benda góðu Sjálfstæðisfólki á þá sem ég myndi kjósa í prófkjörunum.

Stór galli er þó á prófkjörum og hann er sá að fjöldi þeirra sem má kjósa er takmarkaður. Ég hefði viljað kjósa marga aðra enda góðir frambjóðendur í öllum kjördæmum. Ekki þekki ég alla sem ég set á minn lista en hef það til viðmiðunar að hafi frambjóðandi tekið þátt í stjórnmálaumræðu eða setið í bæjar- eða sveitarstjórn tel ég það honum til tekna. Finnst eiginlega ótækt að einhver vakni upp einn góðan veðurdag og vilji setjast á þing en ekkert finnst um skoðanir hans rétt eins og hann hafi aungvar.

Suðvesturkjördæmi

Prófkjörið í suðvesturkjördæmi verður 10. september. Væri ég búsettur þar myndi ég kjósa eftirfarandi frambjóðendur:

  1. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins
  2. Óli Björn Kárason, varaþingmaður
  3. Karen Elísabet Halldórsdóttir, bæjarfulltrúi í Kópavogi
  4. Jón Gunnarsson, alþingismaður
  5. Vilhjálmur Bjarnason, formaður hagsmunasamtaka heimilanna
  6. Vilhjálmur Bjarnason, alþingismaður

Kjósa skal 6 frambjóðendur, hvorki fleiri né færri, ella ógildist kjörseðillinn. Kosið skal með því að setja tölustaf frá einum og upp í sex fyrir framan nöfn frambjóðenda í þeirri röð sem óskað er að þeir skipi endanlegan framboðslista.

Norðvesturkjördæmi

Prófkjörið er 3. september og þar sem ég var búsettur í kjördæminu í nokkur ár er mér ánægja að leggja til að þessir frambjóðendur verði valdir:

  1. Teitur Björn Einarsson, aðstoðarmaður efnahags- og fjármálaráðherra
  2. Haraldur Benediktsson, þingmaður
  3. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, aðstoðarmaður innanríkisráðherra
  4. Hafdís Gunnarsdóttir, kennari

Kjósa ber fjóra frambjóðendur, hvorki fleiri né færri.

Norðausturkjördæmi

Prófkjör fer ekki fram í norðausturkjördæmi heldur sér kjördæmisráð um niðurröðun á listann samkvæmt ákveðnum reglum. Fengi ég einhverju ráðið um niðurröðun á listann myndi ég velja þessa frambjóðendur:

  1. Kristján Þór Júlíusson, þingmaður og ráðherra
  2. Valgerður Gunnarsdóttir, þingmaður og varaforseti Alþingis
  3. Njáll Trausti Friðbertsson, bæjarfulltrúi á Akureyri
  4. Arnbjörg Sveinsdóttir, fyrrverandi þingmaður
  5. Valdimar O. Hermannsson, bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð

Suðurkjördæmi

Prófkjörið í suðurkjördæmi verður 10. september. Væri ég búsettur í kjördæminu myndi ég velja eftirtalda frambjóðendur:

  1. Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður og iðnaðar- og viðskiptaráðherra
  2. Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður
  3. Vilhjálmur Árnason, þingmaður
  4. Ásmundur Friðriksson, þingmaður
  5. Oddgeir Ágúst Ottesen, hagfræðingur

 

Með þessum uppástungum mínum ætti að fylgja rökstuðningur. Hann er til en læt hann bíða til betri tíma.


Bloggfærslur 31. ágúst 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband