Fasteignir og peningar einstaklinga í útlöndum og svo lífeyrissjóða

LsjMargt fólk á íbúðir og hús á Spáni og nýtir þær hluta úr ári eða jafnvel mestan part ársins. Þetta fólk greiðir líklega eignaskatt af þessum eignum sínum - ekki á Íslandi heldur í viðkomandi landi. Svo mun einnig vera í mörgum öðrum Evrópu og Ameríku. Ég veit um vini, ættingja og kunningja sem eiga íbúðir á Flórída og á Spáni, jafnvel víðar. Því miður á ég enga slíka eign.

Nú spyr ég, líkleg heimskulega: Er eitthvað sem mælir á móti því að eiga húseignir í öðrum löndum?

Nei, ég get ekki séð það. Hvergi í íslenskum lögum segir að fólk megi ekki eiga eignir í öðrum löndum, þar með taldar íbúðir, hús og hvað sem nöfnum tjáir að nefna.

Að öllum líkindum er erfiðara að fela fasteignir fyrir skattayfirvöldum, hér heima og úti í löndum. Sá er líka munurinn á fasteignum og öðrum eignum. Hins vegar getur verið auðveldur leikur að fela eignarhald á fasteignum með því að þvæla það í endalausa röð af hlutafélögum sem jafnvel eru tengd að hluta eða ekki.

Þetta er alltaf spurning um innrætið.

Stóra málið er að fjöldi fólks nýtur eigna sinna í útlöndum og hefur raunar ekki annað upp úr þeim heldur en ánægjuna, en situr jafnan uppi með að þurfa að greiða eignaskatt og rekstrarkostnað. Fólk vissi það svo sem og kvartar þar af leiðandi ekki.

Fólk sem á eignir í erlendum bönkum eða fjárfestingarfélögum stendur að mörgu leiti eins og þeir sem eiga fasteignir. Munurinn er hins vegar að sá sem á peninga reynir auðvitað að láta féð ávaxta sig. Eigandi fasteignar kann auðvitað líka að vera í sömu stöðu.

Svo framarlega sem fólk telur fram peningalegar eignir sínar erlendis á íslenskri skattskýrslu og greiðir réttmæta skatta af þeim, þá get ég ekki betur séð að allt sé í himnalagi, eiga fasteign eða peninga í útlandinu. Hins vegar eru skattsvik allt annað mál.

Svo segja sumir að það sé nú alveg aldeilis ómögulegt að sannreyna hvort rétt sé gefið upp í skattskýrslu þess sem á peninga útlendum, Tortóla, Lúxemborg, Spáni eða einhvers staðar annars staðar. Hvað á þá að gera?

Sumir leggja til að viðkomandi séu beittir ofbeldi í fjölmiðlum? Og það er miskunnarlaust gert.

Ég er ósammála. Staðreyndin er einfaldlega sú að skattayfirvöld hér á landi hafa ýmsar aðferðir til að komast að sannleikanum. Ég ber fullt traust til þeirra.

Svo skulum við líka hafa það í huga að íslenskir lífeyrissjóðir eiga þúsundir milljarða víða um heim, jafnvel í skattaskjólum samkvæmt frétt í mbl.is í dag.

Velti því nú fyrir mér hvort einhver segi lífeyrissjóð eigi meira í en hann gefur sjálfur upp. Eða er þessi viðbára tómt rugl. 

Og nú er það bara spurningin hver á nú að segja af sér.

Klikkið á myndina og þá skýrist hún og stækkar. Á henni má sjá fjárfestingar lífeyrissjóða og tryggingafélaga víðs vegar um heiminn. Ekki er getið um einstaklinga en þeim hafa slíkar fjárfestingar verið heimilar og kann að vera að í náinni framtíð opnist möguleikar til þess.

Annars er ekki úr vegi að skoða vefritið Andríki um svipuð mál.

 


Eiga landlausir Íslendingar eitthvað í landinu okkar?

Í tilefni af því að Jörðin Fell við Jökulsárlón sé til sölu er ekki úr vegi að rifja upp eftirfarandi pistil sem ég skrifaði árið 2008.

Jökulsárlón

Það er stórt nafn „Landsamtök landeigenda á Íslandi“ ... Hver á Ísland? spurði maður nokkur og annar svaraði að bragði: Bændur, og svo bætti hann við landeigendur.

Auðvitað á maðurinn hér aðeins við beinan eignarétt. Frá örófi alda hefur stærð jarða miðast fyrst og fremst við þau hagnýtu not sem hafa mátti af þeim og þá eingöngu til búskapar. Utan heimajarða hafa menn á ítök í skógum til eldviðar eða kolagerða, stærri svæða sem afrétta, en um eignir var aldrei um að ræða því hver hefði viljað eiga stærri lönd en hann réði við að annast og hver hefði getað selt slík lönd. Varla hefur nokkur maður átt heiðarnar, fjöllin, miðhálendið og jöklanna svo eitthvað sé nefnt. 

Getur einhver haldið því fram að eigandi einfaldrar bújarðar eigi hreinlega fjallið fyrir ofan bæinn? Fjall sem er ekkert annað en fljúgandi björg og skriður þar sem varla sést stingandi strá né nokkur maður eða skepna hafi farið um.

Það er án efa ekkert annað en forn lygisaga að jörðin Reykjahlíð sé svo landmikil að hún eigi land allt suður að þeirri mörkum þeirrar bújarðar er áður var nefnd Skaftafell en er nú hluti af samnefndum þjóðgarði?

Gerir einhver kröfu til að eiga Kverkfjöll að hluta eða öllu leyti? Hver á Ódáðahraun eða Dyngjufjöll? Með hvaða rétti getur einhver talist eigandi Kaldbaks við Eyjafjörð eða Kinnarfjöll eða Víkurfjöll? Hvað þá með Kiðagil, Trölladyngju, Gæsavötn eða Urðarháls? Allir þessir staðir verða þjóðlenda gangi kröfur fjármálaráðherra fram.
„Fólkið fyrir norðan er ekki það eina sem hefur þurft að berjast gegn þessum yfirgangi ríkisvaldsins," segir í leiðara Fréttablaðsins 15. nóvember 2006 um kröfur fjármálaráðherra um þjóðlendur á austanverðu Norðurlandi. Skilningur leiðarahöfundar virðist ekki rista djúpt. Hann heldur að þjóðlenda merki land í eigu ríkisins en það er nú öðru nær. 

Svo fremi sem meintir landeigendur kvarta þá virðist vera réttlætanlegt að taka undir kvein þeirra. Staðreyndin er hins vegar sú að liggi ekki skýr og lögmæt gögn um landamerki þá má draga stærð jarðar í efa. Svo einfalt er málið.

Menn hafa frá upphafi landnáms á Íslandi deilt um lönd og landamerki og það er ekki nýtt að landeigendur grípi til margvíslegra ráða til að „stækka" jarðir sínar. Ár, lækir og sprænur hafa breytt um farveg, jafnvel þornað upp. Jöklar hafa gengið fram og eyðilagt lönd og hundruðum ára síðar hörfað. Hver á nú það land sem áður var hulið jökli? Stækkar land aðliggjandi jarða við það eitt að jökullinn hörfar eða verður til eitthvert tómarúm?

Hvar er steinninn stóri sem áður markaði línu til austurs í fossinn og hvort á að miða við fossinn eða miðja ána en ekki þennan eða hinn bakkann? Jú, steinninn þekkist ekki lengur og fossinn og áin eru löngu horfin og til hvaða ráða má þá grípa ef upp sprettur deila? 

Margir muna eftir röksemdum lögmanns Austur-Eyjafjallahrepps sem þá hét, er ráðist var með gjafsókn dómsmálaráðuneytisins að ferðafélaginu Útivist fyrir það eitt að endurbyggja ónýtan skála efst á Fimmvörðuhálsi, í 1000 m hæð yfir sjávarmáli. Í málflutningi lögmannsins sem nú er umboðsmaður Alþingis var því haldið fram að skálinn stæði innan landamerkja tiltekinnar jarðar sem þó var eitt þúsund metrum neðar og í 18 km fjarlægð. Hvernig það gat gerst að jörð gæti átt „land" þar sem jökull hafði verið í hundruð ára fékkst aldrei útskýrt.

Landeigendur bera oft fyrir sig þinglýsingar á landamerkjum. Á móti má spyrja hversu góð og ábyggileg gögn þinglýsingar eru, sérstaklega þær sem eldri eru. Dæmi eru til að hér áður fyrr hafi verið þinglýst bréfum sem gamalt fólk hafði handskrifað um landamerki bújarða sinna, byggt á minni eða sögusögnum og yfirleitt óvottfest. Þannig gögn og fleiri af því tagi geta auðvitað ekki staðist og skiptir engu hversu gamlar þinglýsingarnar eru,

Menn hafa eðlilega leitað gagna í fornbréfasöfnum um landamerki en grunur leikur jafnvel á að þaðan hafi gögn verið numin á brott til þess eins að koma í veg fyrir að sönnunargögn finnist um deilumál.

Hugsanlega hefði fjármálaráðuneytið getað staðið öðru visi að kröfum sínum í þjóðlendumálunum, en það er fjarri öllu lagi, að ráðuneytið hefði átt að láta hagsmuni landeigenda ráða ferðinni. Það eru meiri hagsmunir í húfi en landeigenda, og því er sú krafa eðlileg, að landeigendur fari aðeins með það land, sem þeir geti fært sönnur á að þeir eigi, - á því byggist eignarétturinn. Það er ekki eignaréttur né heldur er það sanngjarnt að Alþingi samþykki viðbótarlandnám mörgum öldum eftir að landnámi lauk.

Ég tel það skipta miklu máli fyrir þjóðina að verkefni samkvæmt þjóðlendulögunum verði leyst og reynt verði sem kostur er að eyða allri óvissu um mörk eignarlanda. Nokkur árangur hefur náðst en þó vantar talsvert upp á að lögin taki á öllu því sem deilt er um. Breytingar á landnotkun hafa orðið gríðarlegar á undanförnum árum. Nám ýmiskonar er orðið mjög ábatasamt, virkjanir, ferðaþjónusta, vegalagning, uppgræðsla og fleira og fleira má upp telja. Í þessu sambandi man ég eftir óbilgjarnri kröfu meintra eigenda jarðarinnar Fells sem telja sig eiga Jökulsárlón við Breiðamerkurjökul. Þeir gerðu einu sinni kröfu til þess að öllum myndatökum við Lónið væri hætt nema til kæmi greiðslur til þeirra!

Hver á Heimaklett í Vestmannaeyjum, Hamarinn í Vatnajökli eða Heljarkamb og Morinsheiði? Er til þinglýstur eigandi að Stapafelli undir Jökli, Sátu, Skyrtunnu og Kerlingunni í Kerlingarskarði. Hver á Tröllkallinn eða Böllinn við Ballarvað í Tungnaá? Og hver skyldi nú eiga Móskarðshnúka?

Þjóðlendulögin eru of mikilvæg til þess að þrýstihópur landeigenda megi fá nokkru ráðið um framgang þeirra.

Enn er óvissa um mörk eignarlanda á Íslandi ekki síður en árið 1998 þegar lög um þjóðlendur voru samþykkt af Alþingi. Vissulega hefur talsverðri óvissu verið eytt með því að úrskurðir hafa fengist um landamörk nokkuð víða.

Hins vegar skipir nú metu máli hver sé réttur okkar hinna, okkar landlausu landsmanna. Eigum við að láta hirða af okkur þau not sem landlausir hafa haft af Íslandi frá upphafi Íslandsbyggðar? Eigum við að sætta okkur við það að meintir landeigendur girði lönd sín rétt eins og gert er uppi á Hellisheiði þar sem girðing hefur verið reist yfir hia fornu þjóðleið.

Ég segi nei! 


mbl.is Jökulsárlón til sölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. apríl 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband