Vegagerðin misnotar Reynisfjall illilega

ReynisfjallÍ sannleika sagt er lítið að því að búa til ný örnefni og finna þeim stað þar sem engin eru fyrir. Viðleitnin er góð því Ísland er í sannleika sagt ótrúlega fátækt af örnefnum. Þetta vita þeir sem ferðast um landið og safna þekkingu af landakortum af ýmsu tagi.

Skorturinn er þó ekki minna vandamál en þegar örnefni eru misnotuð, ekki notuð eins og venja er til. Um það ofbeldi fjallar pistillinn.

Starfsmönnum Vegagerðarinnar er stundum mislagðar hendur í starfa sínum. Það þættu til dæmis ekki góð vinnubrögð að moka snjó á vegi eða setja vegvísi á rangan stað. Ekki þykir heldur góð lenska að fara rangt með örnefni. Samt kemur hendir þetta Vegagerðina.

Mikill snjór var á jóladag og annan í jólum á Suðurlandi og lentu menn í vandræðum víða meðal annars á heiðinni norðan Reynisfjalls. Flestir ættu að þekkja fjallið. Undir því austanverðu stendur þéttbýlið Vík sem kennt er við Mýrdal.

Þegar Vegagerðin segir á ferðaupplýsingum segir hún heiðina heita Reynisfjall sem auðvitað er alrangt.

Fjallið fjall, ekki heiði, sérstaklega vegna þess að greinileg skil eru á fjallinu og umhverfi þess. Þar að auki er verið að „stela“ örnefninu Reynisfjall og færa það yfir stærra svæði en fjallinu nemur. Það telst einfaldlega vítavert. 

Meðfylgjandi mynd er fengin af vef Landmælinga Íslands. Á henni miðri er Reynisfjall og vegir sjást greinilega. 

Efst, nyrst, á myndinni sést þjóðvegurinn sveigja fyrir fjallið. Af þessu má ljóst vera að Reynisfjall á ekki við þetta svæði.

En hvað heitir svæðið þá? Ég leitaði til Þóris Níelsar Kjartanssonar, sem búsettur er í Vík, alinn upp í Mýrdalshreppi og þekki vel til. Hann útskýrði staðhætti í svari sínu og segir að þarna uppi vanti hreinlega örnefni en er ekki sáttur við Vegagerðina:

Já okkur Víkurum og öðrum Mýrdælingum finnst þetta ótrúlega asnalegt og er auðvitað alrangt.

Hvað ætti að koma í staðinn er svo kannski ekki alveg augljóst.

Þannig er að örnefni eru ekki alveg ljós á þessu svæði. Það er því ekki furða þó þeir hjá Vegagerðinni hafi lent í vanda með að finna nafn. Hins vegar er þrautalending Vegagerðarinnar alveg út í hött og ekkert annað en skemmdarverk að lengja Reynisfjall í norður.

Mér dettur ekkert annað í hug en að kenna heiðina fyrir norðan Reynisfjall við þennan sama Reyni og legg því til Reynisheiði. Má vera að það sé of djarft, heimamenn hafi ákveðna skoðun á landsvæðinu og leggist á mót því. En eins og Þórir Níels segir þá er Reynisfjall asnalegt nafn á svæðinu en hvað á að koma í staðinn?


Bloggfærslur 26. desember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband