Vegagerðin misnotar Reynisfjall illilega

ReynisfjallÍ sannleika sagt er lítið að því að búa til ný örnefni og finna þeim stað þar sem engin eru fyrir. Viðleitnin er góð því Ísland er í sannleika sagt ótrúlega fátækt af örnefnum. Þetta vita þeir sem ferðast um landið og safna þekkingu af landakortum af ýmsu tagi.

Skorturinn er þó ekki minna vandamál en þegar örnefni eru misnotuð, ekki notuð eins og venja er til. Um það ofbeldi fjallar pistillinn.

Starfsmönnum Vegagerðarinnar er stundum mislagðar hendur í starfa sínum. Það þættu til dæmis ekki góð vinnubrögð að moka snjó á vegi eða setja vegvísi á rangan stað. Ekki þykir heldur góð lenska að fara rangt með örnefni. Samt kemur hendir þetta Vegagerðina.

Mikill snjór var á jóladag og annan í jólum á Suðurlandi og lentu menn í vandræðum víða meðal annars á heiðinni norðan Reynisfjalls. Flestir ættu að þekkja fjallið. Undir því austanverðu stendur þéttbýlið Vík sem kennt er við Mýrdal.

Þegar Vegagerðin segir á ferðaupplýsingum segir hún heiðina heita Reynisfjall sem auðvitað er alrangt.

Fjallið fjall, ekki heiði, sérstaklega vegna þess að greinileg skil eru á fjallinu og umhverfi þess. Þar að auki er verið að „stela“ örnefninu Reynisfjall og færa það yfir stærra svæði en fjallinu nemur. Það telst einfaldlega vítavert. 

Meðfylgjandi mynd er fengin af vef Landmælinga Íslands. Á henni miðri er Reynisfjall og vegir sjást greinilega. 

Efst, nyrst, á myndinni sést þjóðvegurinn sveigja fyrir fjallið. Af þessu má ljóst vera að Reynisfjall á ekki við þetta svæði.

En hvað heitir svæðið þá? Ég leitaði til Þóris Níelsar Kjartanssonar, sem búsettur er í Vík, alinn upp í Mýrdalshreppi og þekki vel til. Hann útskýrði staðhætti í svari sínu og segir að þarna uppi vanti hreinlega örnefni en er ekki sáttur við Vegagerðina:

Já okkur Víkurum og öðrum Mýrdælingum finnst þetta ótrúlega asnalegt og er auðvitað alrangt.

Hvað ætti að koma í staðinn er svo kannski ekki alveg augljóst.

Þannig er að örnefni eru ekki alveg ljós á þessu svæði. Það er því ekki furða þó þeir hjá Vegagerðinni hafi lent í vanda með að finna nafn. Hins vegar er þrautalending Vegagerðarinnar alveg út í hött og ekkert annað en skemmdarverk að lengja Reynisfjall í norður.

Mér dettur ekkert annað í hug en að kenna heiðina fyrir norðan Reynisfjall við þennan sama Reyni og legg því til Reynisheiði. Má vera að það sé of djarft, heimamenn hafi ákveðna skoðun á landsvæðinu og leggist á mót því. En eins og Þórir Níels segir þá er Reynisfjall asnalegt nafn á svæðinu en hvað á að koma í staðinn?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í sumum vasahandbókum er listi yfir fjallvegi landsins og hæð þeirra yfir sjó. Þar stendur efst á blaði:  "Reynisfjall. 119 metrar." 

Þetta nær engri átt. Vatnsendahæð er 144 metrar og hluti úthverfa Reykjavíkur liggur í meiri hæð.  

Ómar Ragnarsson, 26.12.2016 kl. 17:34

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Afsakið, endinn datt af setningunni: "...liggur í meiri hæð en þessi vegarkafli austan Reynisfjalls."

Ómar Ragnarsson, 26.12.2016 kl. 17:35

3 Smámynd: Þórir Kjartansson

Sæll Sigurður og aðrir sem þetta lesa. Það er reyndar ekki rétt að það vanti þarna örnefni, heldur er vandamálið að svæðið er stórt og kannski erfitt að festa nafnið á þessum vegspotta við eitthvað eitt þeirra.  Ég lími ég hér inn athugasemd sem ég var að skrifa við blogg Ómars Ragnarssonar til frekari útskýringa.                        

Fjallaskarðið þar sem vegurinn liggur inn af þorpinu í Vík á milli Höttu og Reynisfjalls er kallað einu nafni "Víkin"  Þar eru svo auðvitað mörg örnefni sem vegurinn liggur, s.s. Skjónugil, Grafartangi, Selhryggur, Selhryggsmýri, Messuholt, o.f.l. Veðurstöð Vegagerðarinnar sem á heimasíðunni er kölluð "Reynisfjall" er langt frá fjallinu sjálfu.  Svæðið norðan við enda Reynisfjallsins er kallað "Fjallsendi" og með góðum vilja má kalla að hún sé innan þess en nærtækast er þó að segja að hún standi við Saurukeldubotna. Eini staðurinn sem vegurinn kemst í snertingu við Reynisfjallið sjálft er brekkan upp af þorpinu þar sem vegurinn liggur í austurhlíðum þess

Þórir Kjartansson, 26.12.2016 kl. 21:22

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Bestu þakkir fyrir þetta, Þórir.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 26.12.2016 kl. 23:06

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Sigurður og gleðilega hátíð.

Vegagerðinni eru mislagðar hendur, þegar að nafngiftum kemur. Dettur í fljótu bragði tvær nafngiftir vegagerðarinnar á vegspottum, önnur þeirra afbökun og hin snjöll lausn.

Bjarnafjarðarháls er nafn sem vegagerðin tók upp fyrir nokkuð mörgum árum síðan, áður hafði sú leið verið nefnd Bassastaðarháls frá upphafi byggðar. Fyrst um sinn, eftir nafngift vegagerðarinnar, mátti finna bæði þessi nöfn á kortum, en nú hefur Bjarnarháls yfirtekið hið eldra nafn. Heimamenn tala hins vegar áfram um Bassastaðarháls. Tilgangslaus nafnabreyting vegaerðarinnar, engum til gagns en mörgum til ama.

Fyrir örfáum árum síðan var nýr vegur lagður milli Barðastrandar og Strandasýslu. Fyrt um sinn var ætið talað um Arnkötludalsveg. En jafnvel þó heimamenn vissu að þessu vegalagning yrði seint til sóma, þar sem um mjög snjóþungt svæði væri að ræða, fóru menn að karpa um nafn og vildu eigna sér veginn. Arnkötludalur var nefnilega einungis að norðanverðu vegstæðisins, að sunnan lá það um Gautsdal. Lausn vegagerðarinnar var snjöll. Milli Arnkötludals og Gautdals var smá öxl eða hæð. Samkvæmt örnefnaskrá kallaðist þessi litla öxl Þröskuldar. Þetta nafn tók vegagerðin upp sem nafn á þessum vegspotta og flestir sættust við þá lausn, jafnvel þó fáir hefðu heyrt talað um þetta örnefni. Kannski hjálpaði til við að heimamenn sættust á þessa nafngift, að hún lýsti meira en nokkuð annað nafn sjálfum vegspottanum. Sannur þröskuldur í vegakerfinu, sem lokast fyrstur allra vega á þessu svæði.

kveðja

Gunnar Heiðarsson, 27.12.2016 kl. 07:27

6 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Ég þekki lít til örnefna á þessu svæði, en það væri sérkennilegt ef þessi þjóðleið þarna væri nafnlaus í landi þar sem hver steinn, lægð og þúfa hafði nafn á slíkum leiðum hér á Íslandi, svo sem umsögn Þóris Kjartanssonar bendir til. 

Þessi nöfn urðu bara til, tld. vegna atburðar, aðstæðna og eða háttu. þau urðu að vera til svo að ferðalangur gæti staðsett sig, sagt til um leið með einföldum nákvæmum hætti, með eini setningu  í stað langrar flókinnar sögu. 

Á þeim tímum voru engin galdra tæki til sem framleiddu tölulega staðsetninga pungta.  Pungta sem segja enga sögu, lýsa engu í staðháttum og eru því steingeldir og segja ekkert nema tækið sé til staðar.

 En þessum smátæku örnefnum virðist vera ríkur vilji hjá embættismönum og fleirrum til að gleyma.  En það eru líka stór svæði sem einföldunar menn vilja líka losna við.  Er það nærtækast  fyrir mig hér á norðanverðu Snæfellsnesi að mynnast á fjörð sem er iðulega nefndur einu nafni og merktur á mörgum kortum Kolgrafarfjörður. 

Norður hluti þessa fjarðar heitir þó Urthvalafjörður og eru bæði þessi nöfn mjög lýsandi ef menn nenna að velta þeim fyrirsér. Austur úr mótum þessara fjarða er fjörður sem gjarnan er nefndur Hraunsfjörður, og yfir hann er brú sem í daglegu tali er nefnd Hraunsfjarðarbrú en fjörðurinn heitir engu að síður Seljafjörður. 

Hraunsfjörður er svo innar en ekki veit ég nákvæmlega mörkinn en ætla að þau séu á því svæði þar sem fjörður þessi sveigir til suðurs, rétt norðan við Mjósund þar sem gamla Mjósundabrúin er en hún til heyrði einum af hömlu þjóðvegunum.

Gömlum, fornum örnefnum er auðvelt að glata með kæruleysi, en það er mikill missir að þeim þar sem þau benda oft á sögu, staðreyndir, í landi þar sem oft var bara sagt frá upphafsstað og svo endastöð.   En ekkert um erfiðleika göngumanns í landi napra vindanna og vattna.

Hrólfur Þ Hraundal, 27.12.2016 kl. 08:09

7 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Afsakið stafa feil, svo sem hömlu,sem átti auðvita að vera gömlu þjóðvegunum og svo leiðindi  í niðurlagi sem átti að vera, napra vinda og kaldra vattna.  

Hrólfur Þ Hraundal, 27.12.2016 kl. 09:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband