Flokkurinn með bestu stefnu í heimi á leið af þingi

johannaVið erum með bestu stefnu í heimi, ég hef enga trú á því.

Þetta segir Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, í viðtali á visir.is og er hún að svara því hvort hörmulegt fylgi flokksins í skoðanakönnunum sé vegna stefnu hans.

Og þá svarar hún svo barnalega að flokkurinn sé með bestu stefnu í heimi ...

Látum vera að gagnrýna formanninn fyrir kjánalegt svar. Séu stefnumálin ekki ástæðan fyrir því að kjósendur hafa gerst fráhverfir flokknum þá varður að kenna einhverju öðru um. 

Gæti verið að kennimerkið, lógóið, sé svona ljótt að fólk kjósi ekki Samfylkinguna? Nei, varla.

Gæti verið að húsnæði flokksins sé svo fráhrindandi að kjósendur velji frekar aðra flokka? Nei, varla.

Hvað annað gæti skaðað flokkinn fyrst það eru ekki stefnumálin, lógóið, húsnæði, húsgögnin eða annað álíka?

Maður þorir varla að nefna það en hér berast böndin að þingmönnunum. Má vera að starf þeirra á nýloknu þingi hafi ekki fallið kjósendum vel í gerð.

Ef til vill er fólki líka enn í fersku minni axarsköft flokksins á síðasta kjörtímabili þegar hann reyndi að troða Íslandi í ESB á fölskum forsendum, vildi láta skattgreiðendur greiða Icesave skuldirnar, breyta stjórnarskránni og fleira og fleira.

Jú, líklega er þetta sennilegasta skýringin.

Og í þokkabót mun Oddný G. Harðardóttir, formaður flokksins, ekki ná kjöri sé eitthvað að marka síðustu skoðanakannanir. Ekki eru það nú góð meðmæli, hvorki með henni né hinum þingmönnunum.

Mörgum kann að finnast stórbrotið að vera með bestu stefnu í heimi og klúðra henni vegna þess að þingmennirnir eru ekki starfi sínu vaxnir.

Hægra megin á myndinni er núverandi formaður Samfylkingarinnar, Oddný G. Harðardóttir, og fyrrum formaður, Jóhanna Sigurðardóttir.

Þegar Jóhanna hætti sem formaður hafði fylgið aldrei frá upphafi verið lægra. Við formennskunni tók Árni Páll Árnason (hann sést ekki á myndinni) og honum tókst að koma flokknum í 10% fylgi. Oddný hefur tekist að koma fylginu í 7% (þrátt fyrir bestu stefnu í heimi) en enn er hálfur mánuður til kosninga og aldrei að vita hvort hún komi því undir fimm prósentin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er nú það. Ég hef mínar kenningar í þessum efnum, og álít orsakirnar fyrir slöku gengi Samfó vera eftirfarandi(sem ætti að vera öllum augljósar):

1) Það er rétt hjá þér, að ást þessa fólks á ESB og að vilja endilega ana inní brennandi hús þar fælir fólk frá flokknum. Þess furðulegra er, að fólk skuli vilja kjósa Viðreisn, sem er á sama bátnum í þessum efnum, þótt þeir vilji ekki láta það í ljós, auk þess sem það er óskiljanlegt, að þetta fólk skuli vilja troða okkur inn í ESB í andstöðu við stærsta hluta þjóðarinnar.

2) Misnotkun flokksins og annarra vinstri manna á Rúv, sérstaklega fréttastofunni, er með þvílíkum hætti, að öllu heilbrigt hugsandi fólki ofbýður. Síðast í dag heyrði ég oftsinnis lesnar kosningaauglýsingar frá Samfó í útvarpinu.

3)...og ekki síst, þá ber að mínu mati fyrrverandi varaformaður Samfó, núverandi borgarstjóri, ásamt sínu kompaníi, stærsta ábyrgðina á slæmu gengi flokksins með yfirgangi sínum, frekju, stjórnleysi og sinnuleysi í málefnum borgarinnar og okkar borgaranna, svo ekki sé talað um hrokann, sem þetta fólk sýnir okkur, auk þess sem það hefur ekki fyrir því að svara okkur neinu, þegar talað er til þeirra. Þá tel ég, að styrjöldin um Reykjavíkurflugvöll hafi mikið að segja, og hvernig þessir krakkar í Ráðhúsinu eru að flæma allar verslanir og þjónustu úr miðbænum til að rýma fyrir hótelum og veitingastöðum, vanrækja úthverfin, og hirða ekkert um neitt nema eigin hugsjónir, þrengjandi götur fyrir hjólin, láta ekki gera við göturnar, hugsa ekkert um að láta hreinsa og fegra nærumhverfið, hvað þá láta moka snjóinn af götunum á veturna, vilja svo setja sporvagnakerfi um allar götur, jafnvel þar, sem ekki er pláss fyrir sporvagna, og annað eftir þessu. Þá er ótalið hvernig farið er með yngstu borgarana hér í borginni. Ef Dagur og kompaní er ekki með öllu rænulaus, þá ættu skoðanakannanirnar að geta sagt þeim eitthvað um, hvað fólk hugsar um hann og hans lið. Það ætti líka að geta sagt Oddnýju, að það er eitthvað um, hvaða áhrif Dagur og kompaní hefur á útkomu flokkanna í skoðanakönnunum. En því meira hissa er ég á því, að fólk skuli vilja láta þetta Reykjavíkurmunstur verða á landsvísu, og hvað Píratar virðast vera vinsælir, og virðist gleyma því, að óstjórnin og ruglið í Reykjavík er í boði Pírata! Það er gjörsamlega óskiljanlegt, en þessi þrjú meginatriði finnst mér aðalorsakirnar fyrir slöku gengi Samfó. Oddný Harðardóttir er bara svo glámskyggn að sjá þetta ekki, og heldur ekki aðrir í stjórn flokksins. Svo er nú það.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 15.10.2016 kl. 17:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband