Hélstu að fjölgun ferðamanna væri öll af hinu góða?

Þjóðin kætist og ræður sér ekki fyrir fögnuði yfir fjölgun ferðamanna. Einn milljón og tvöhundruð þúsund manns á ári. Munar miklu fyrir ríkissjóð. Stjórnmálamenn eru himinnlifandi.

Hins vegar er ekki allt sem sýnist. Fæstir gerðu sér grein fyrir því að þessum hrikalega fjölda útlendra gesta fylgdi neinn vandi. Því er nú öðru nær og nær öruggt að kosta þarf talsverðum fjármunum til vegna vandans.

Þetta er það helsta:

  1. Fjölgun bíla á þjóðvegum með hlutfallslegri aukningu slysa. Þjóðvegir landsins eru engan veginn undir þetta búnir.
  2. Fjölgun fólks í fjallaferðum, oft vanbúið fólk, án kunnáttu og leiðsagnar. Slysum hefur fjölgað mikið.
  3. Margföldun á útköllum lögreglu, björgunarsveita og þyrlna Landhelgisgæslunnar. Björgunarsveitir ráða ekki við vandamálið.
  4. Gríðarlegur sóðaskapur við helstu ferðamannastaði. Dettur til dæmis einhverjum í hug að enginn þurfi að ganga örna sinna? Því fleiri sem eru á faraldsfæti því meiri sóðaskapur.
  5. Átroðningur á helstu ferðaleiðum gangandi og akandi fólks
  6. Fyrir fimmtán árum mátti við því búast að hitta einn náunga á strigaskóm með plastpoka í hönd á „Laugaveginum“ og var sá að leita að „the hotel in Landmannalaugar“. Nú má búast við margfalt fleiri slíkum á þessari og öðrum gönguleiðum, allir að leita að hótelinu.
  7. Náttúra landsins selst „unnvörpum“ ef svo má að orði komast. Náttúra landsins er hins vegar stórhættuleg, því fleiri sem hingað koma því fleirum verður hún að aldurtila.

Fyrir um fimm árum spáði Jón Karl Ólafsson þáverandi formaður SAF því að milljónasti ferðamaðurinn myndi koma hingað til lands á árinu 2015. Hann hafði ekki rétt fyrir sér því í ár kemur sá 1.200.000.

Þeir sem heyrðu spádóminn tóku andköf og töldu Jón Karl frekar rugludall en hitt. Hann vissi og veit þó sínu viti. Hann benti á að þjóðfélagið væri ekki undirbúið undir þennan fjölda. Grunnatriði eins og þjóðvegir, flugsamgöngur, ferjusiglingar og fleira og fleira þyrfti að laga. Fátt hefur hins vegar breyst.

Staðreyndin er líka sú að hingað koma ekki bara kurteisir og góðir ferðamenn. Líka hinir, glæpamenn, ruddar og sóðar. Þeir koma í skjóli hinna, drekka óhóflega, gera þarfir sínar við þjóðargrafreitinn, troða illsakir við mann og annan, stela, meiða og svo framvegis.

Af hverju eru landsmenn svona hissa á hegðun ferðamanna? 

Halda menn að engu þurfi að breyta vegna fjölgunar ferðamanna? 

Í mörg ár var ein vinsælasta bæjarhátíð landsins haldin á Skagaströnd. Þangað komu á Kántríhátíð margfaldur fjöldi bæjarins, jafnvel tólffaldur. Svo fengu heimamenn leið á ferðamönnum sem kunnu sér ekki hóf, drukku frá sér allt vit, hægðu sér í næsta garði, sprændu þar sem þeir stóðu eða sátu, neyttu eiturlyfja og sóðuðu út bæinn eins og þeim væri borgað fyrir það.

Einn góðan veðurdag sögðu heimamenn að nú væri nóg komið og þeir hættu þessari vitleysu. Síðan hefur mannlífið verið fámennara á sumrin en áður en hins vegar miklu betra. 

Er íslenska þjóðin komin í sama spor og Skagstrendingar forðum?

 


mbl.is „Míga og skíta“ glottandi við Gullfoss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimtufreki krakkinn í sælgætisbúðinni

Hjúkrunarfræðingar haga sér eins og argasta mafía, fyrirgefið orðbragðið en maður getur ekki lengur orða bundist. Félagið heldur að kröfur þess séu ólíkar öllum öðrum launakröfum og verði farið að þeim hafi það engin áhrif á launakröfur annarra launþegafélaga. Þess vegna hóta hjúkrunarfræðingar hryðjuverkum í samfélginu nema allt sé gert sem félagið krefst.

Þannig ganga ekki hlutirnir fyrir sig hér á landi og hafa aldrei gert. Ekki heldur hefur það tíðkast hér á landi að launþegafélög gefi fullnægjandi skýringu á launakröfum sínum né breytingu á töxtum og öðru tengdu. Þess vegna veit almenningur ekkert hversu mikill útgjaldaaukinn verður fyrir ríkissjóð veri gengið að ítrustu kröfum hjúkrunarfræðinga. Þar að auki hafa þeir ekki ljáð máls á neinum tilslökunum frá upphaflegum kröfum.

Læknar gerðu þetta sama í vetur. Fóru í mafíuhlutverkið og hótuðu hryðjuverkum. Almenningur varð skelfingu lostinn og mikill þrýstingur var á að farið yrði að kröfu þeirra. Auðvitað vissu allir að hjúkrunafræðingar og aðrir starfsmenn myndu koma í kjölfarið með óbilgjarnar kröfur. Það gekk eftir.

Sama er uppi núna. Óupplýstum almenningi finnst allt í lagi að ganga að kröfum hjúkrunarmafíunnar vegna þess að stéttin er svo mikilvæg. Sannarlega er hún það.

Hins vegar er ótækt að fara að ítrustu kröfum þeirra. Efnahagur þjóðarinnar hefur ekki efni á því nema því aðeins að forysta hjúrunarfræðinga geti tryggt að ekki komi aðrar stéttir á eftir og heimti samskonar fullnustu á ítrustu kröfum sínum. Það geta hjúkrunarfræðingar auðvitað ekki. Þess í stað berja þeir höfðinu við steininn og heimta og heimta rétt eins og óþægur krakki í sælgætisbúðinni.

Munurinn á óþæga krakkanum og hjúkrunarfræðingunum er sá að krakkinn tekur sönsum, hann lærir og veit að það þýðir ekkert að grenja og spakara eftir að foreldrarnir hafa tekið ákvörðun

Hjúkrunarfræðingarnir aðhafast annað. Þeir ráða almannatengla, henda inn fréttum á fjölmiðlanna og sýna fram á að heilbrigðiskerfið er á leið í hundana og það sé allt ríkisstjórninni vondu að kenna. Og fjölmiðlar birta allt í gúrkutíðinni. Þeir fóru í verkfall og síðan í skipulagðar uppsagnir. 

Minna fer fyrir tillögum ríkisstjórnarinnar sem hjúkrunarfræðingum bauðst þess efnis að „leiðrétting“ á launum þeirra gangi yfir nokkur ár. Flestum sem sjá yfir sviðið í gegnum óbrengluð gleraugu vita að það er eina lausnin.

Lausnin er ekki 50% launahækkun í dag með skelfilegum og nær ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir ríkissjóð, launaþróun í landinu og efnahagslíf.

Afleiðingar verða tvímælalaust samskonar kröfur annarra launþegafélögum. Slík hækkun á laun mun hafa hrikaleg áhrif á verðbólguna, óðaverðbólgan mun verða ráðandi næstu árin. Verðlag mun hækka, vextir munu stórhækka og víxlhækkanir launa og verðlags ganga út í það óendanlega.

Í ofangreindu er ábyrgð Félags hjúkrunarfræðinga falin. Með óbilgirni sinni og mafíustælum verður þetta afleiðingin. Þess vegna er kominn tími til að spyrna við fótum. 

Og nú telja hjúkrunarfræðingar sig þess umkomna að hóta brotthlaupi úr landinu. Þeir ætla sem sagt að yfirgefa þjóðfélagið sem veitti þeim ókeypis menntun í sínu fagi, gerði þá að frábæru starfsfólki sem er ábyggilega til sóma fyrir hvaða heilbrigðiskerfi sem er í öllum heiminum.

Þetta fólk segir beinlínis við okkur hin: Hér tilboð sem þið getið ekki hafnað. Er það ekki svona sem Mafían tekur til orða?

Nei, maður getur andskotakornið ekki lengur orða bundist. Þetta er hinn nýi raunveruleiki, og næst kemur Bandalag háskólamanna og hagar sér eins og krakkinn í sælgætisbúðinni. 


mbl.is Lokun gjörgæslu yfirvofandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. júlí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband