Ungur maður verður langaömmubróðir ...

FjöskyldumyndÉg var kornungur er ég varð móðurbróðir í fyrsta sinn. Svo varð ég föðurbróðir og eftir það sitt á hvað í langan tíma.

Þetta hefst upp úr því að eiga mörg systkini, sagði móðir mín, einhvern tímann, rétt eins og sökin væri mín en ekki hennar. Hún og faðir minn áttu nefnilega níu börn, fjórar dætur og fimm syni. Þetta var kallað barnalán og þótti ekkert tiltökumál í gamla daga, fólk hafi ekki sjónvarp eða einhver menningartengd fyrirbæri sér til dægrastyttingar svo það stundaði bara það sem leiddi af sér barnseignir eða þannig ...

Flest í lífinu kemur með kostum og köllum. Vandamálið hvað mig varðar er sú staðreynd að ég er örverpi, eins og börn sem eru langyngst eru stundum nefnd. Var „orpinn“ níu árum eftir að foreldrar okkar áttu að hafa lokið barnseignum sínum. Og það gerðist raunar fjórum árum áður en elsta systkinabarnið kom í heiminn. 

Auðvitað var ég afar stoltur að eignast stóran hóp systkinabarna sem auk þess voru svo nálægt mér í aldri að þau voru miklu frekar leikfélagar eða yngri systkin. Svona var nú lífið skemmtilegt. Áður en ég varð tíu ára voru systkinabörnin orðin átta og þeim átti eftir að fjölga um sextán áður en yfir lauk.

Þá byrjar auðvitað martröðin. Dag einn er ég orðinn afabróðir og svo stuttu síðar ömmubróðir. Þetta hélt svo áfram nær út í það óendanlega. Nú held ég að það séu um fjörtíu manns, allt stórglæsilegt fólk, sem kallar mig afa- eða ömmubróður. Mér var þetta í upphafi auðvitað til mikillar skapraunar enda enda enn ungur maður sem er að velta því fyrir sér hvað hann ætlar að verða þegar hann verður stór. Svo vandist þetta og varð að sæmdarheiti.

Svo varð ég sjálfur afi og allt lífið varð fagurt og gott. En vegurinn er aldrei beinn og breiður og raunar ætti ég að hafa áttað mig á því að í lífinu skiptast á góðar fréttir og aðrar sem eru ... tja, hvað á ég að segja, ekki eins góðar.

Auðvitað gat ég búist við þessu rétt eins og það rignir í Reykjavík, á eftir flóði kemur fjara, allar ár stemma að ósi, að loknum vetri kemur vor og eftir grátur verður oft hlátur. Maður er þó ekki undir svona lagað búinn, það skellur á eins og él úr útsuðri ... Þó var þetta bara rökrétt framhald á því að verða föður- eða móðurbróðir og afa- eða ömmubróðir.

Í gær varð ég sumsé langaömmubróðir ... úff. Og nú hef ég sagt þetta, komið þessu frá mér eins og alkóhólisti sem viðurkennir vanda sinn. Samt er ég enn ungur maður og veit alls ekki hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór. Raunar varð ég langaafabróðir í janúar á þessu ári en hélt því leyndu eins lengi og ég gat.

Systursonur minn sendi mér tölvupóst áðan ... og hló að mér um leið. Hann heilsaði langaömmubróðurnum með ísmeygilegum orðum og ég ég gat næstum því heyrt ískrandi hláturinn í honum. Ég svaraði honum og reyndi hvað ég tók að draga úr nýfenginni stöðu minni í tilverunni en auðvitað er það ekki hægt. Ættartengsl, hvaða nafni sem þau nefnast, eiga eins og ég nefndi að vera sæmdarheiti og ég er stoltur af stórfjölskyldu minni og ættum.

Sjá, dagar koma, ár og aldir líða,
og enginn stöðvar tímans þunga nið.

Þannig orti Davíð Stefánsson og með sanni má segja að enginn stöðvar tímann. „Allt fram streymir endalaust, ár og dagar líða ...“, orti Kristján Jónsson sem nefndur var Fjallaskáld.

Oft er manni ekki eins leitt og maður lætur. Hvað sem öllu líður er maður bara kátur með ættingja sína, assi kátur.

Myndin: Höfundur er þarna skælbrosandi fyrir miðju með afa, mömmu, tveimur systrum og þremur syskinabörnum: Sigfinnur afi Sigryggsson, Soffía Sigfinnsdóttir, Soffía systir og Þuríður systir (sem væri nú langaamma hefði hún lifað). Lengst til vinstri er Þórdís Arnljótsdóttir, þá Soffía Káradóttir (sem nú er amma) og Edda Arnljótsdóttir.


Vísindin og hindurvitnin

Hugtakið vísindi merkir hvorki sannleikur, trú né þekking. Hugtakið vísindi á við um þá aðferðafræði sem notuð er til að afla þekkingar. Það er þeirri aðferðafræði að þakka að hægt er að lækna sjúkdóma og senda fólk til tunglsins og heim aftur.

Þetta segir Björn Geir Leifsson, læknir, í greininni „Veruleiki vísindanna“ sem birtist í Morgunblaði dagsins. Hann hefur á undanförnum misserum vakið athygli fyrir skörulega herferð sína gegn hjátrú, hindurvitnum og skottulækningum sem birtast meðal annars í sölu á margvíslegum efnum sem ætlað er að bæta heilsu fólks og jafnvel lækna. Sem dæmi um slík efni eru þurrkaðar og muldar rauðrófur og einnig efni sem í raun eru óholl til neyslu.

Í greininni svarar Björn Geir konu sem segir: „Vísindin eru enginn heilagur sannleikur, ekki heldur er trúin sannleikur.“ 

Um þetta segir Björn Geir:

Hún leggur síðan út frá þessu, að því er virðist í tilraun til þess að gagnrýna málstað þeirra sem nota þekkingu sem aflað er vísindalega til þess að rökstyðja gagnrýni á heilsutengdar aðferðir og meðul sem hún aðhyllist. Það er hugmyndafræði sem byggist frekar á hugarburði, hindurvitni og hagsmunum en sannreyndri þekkingu. Boðskap hennar má draga saman svo að af því vísindin staðfesti ekki afurðir þess konar hugmyndafræði þá sé það ekki vegna þess að hugmyndafræðin sé röng heldur að vísindin séu röng.

Ástæða er til að vekja athygli lesenda á bloggi Björns Geirs. Jafnvel er ástæða til að hvetja fólk til að leita sér upplýsinga þar áður en lagt er í að kaupa efni sem sögð eru laga eða lækna ótrúlegustu kvilla og sjúkdóma.

Um daginn skrifaði Björn Geir um efni sem kallast „Nutrilink“ og er mjög hampað af innflytjanda þess og fleirum og fylgdi bæklingur um þetta efni Fréttablaðinu um svipað leyti:

Ef trúa má bæklingnum ættu allir sem finna til einhvers staðar að rjúka út í búð og nýta sér tilboðið á þessu gullmeðali sem gildir út mánuðinn? Það sem meira er, þér er lofað enn betri árangri ef þú kaupir líka hitt meðalið, "Nutrilenk Active" sem inniheldur hænsnasoð (Hýalúrónat), sem er óvirkt sé það tekið inn um munn, eins og ég hef áður útlistað. Það er víst eitthvað gagn af því sé því sprautað inn í liði.

Nú skal ég vera alveg hreinskilinn... Það er verið að segja okkur ósatt! Þessi bæklingur er fullur af ósannindum.

Til viðbótar við blogg Björns Geirs er ástæða til að vekja athygli á vefsíðunni Upplýst sem fjallar einnig um þessi efni.

 

 


Bloggfærslur 21. apríl 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband