Vísindin og hindurvitnin

Hugtakið vísindi merkir hvorki sannleikur, trú né þekking. Hugtakið vísindi á við um þá aðferðafræði sem notuð er til að afla þekkingar. Það er þeirri aðferðafræði að þakka að hægt er að lækna sjúkdóma og senda fólk til tunglsins og heim aftur.

Þetta segir Björn Geir Leifsson, læknir, í greininni „Veruleiki vísindanna“ sem birtist í Morgunblaði dagsins. Hann hefur á undanförnum misserum vakið athygli fyrir skörulega herferð sína gegn hjátrú, hindurvitnum og skottulækningum sem birtast meðal annars í sölu á margvíslegum efnum sem ætlað er að bæta heilsu fólks og jafnvel lækna. Sem dæmi um slík efni eru þurrkaðar og muldar rauðrófur og einnig efni sem í raun eru óholl til neyslu.

Í greininni svarar Björn Geir konu sem segir: „Vísindin eru enginn heilagur sannleikur, ekki heldur er trúin sannleikur.“ 

Um þetta segir Björn Geir:

Hún leggur síðan út frá þessu, að því er virðist í tilraun til þess að gagnrýna málstað þeirra sem nota þekkingu sem aflað er vísindalega til þess að rökstyðja gagnrýni á heilsutengdar aðferðir og meðul sem hún aðhyllist. Það er hugmyndafræði sem byggist frekar á hugarburði, hindurvitni og hagsmunum en sannreyndri þekkingu. Boðskap hennar má draga saman svo að af því vísindin staðfesti ekki afurðir þess konar hugmyndafræði þá sé það ekki vegna þess að hugmyndafræðin sé röng heldur að vísindin séu röng.

Ástæða er til að vekja athygli lesenda á bloggi Björns Geirs. Jafnvel er ástæða til að hvetja fólk til að leita sér upplýsinga þar áður en lagt er í að kaupa efni sem sögð eru laga eða lækna ótrúlegustu kvilla og sjúkdóma.

Um daginn skrifaði Björn Geir um efni sem kallast „Nutrilink“ og er mjög hampað af innflytjanda þess og fleirum og fylgdi bæklingur um þetta efni Fréttablaðinu um svipað leyti:

Ef trúa má bæklingnum ættu allir sem finna til einhvers staðar að rjúka út í búð og nýta sér tilboðið á þessu gullmeðali sem gildir út mánuðinn? Það sem meira er, þér er lofað enn betri árangri ef þú kaupir líka hitt meðalið, "Nutrilenk Active" sem inniheldur hænsnasoð (Hýalúrónat), sem er óvirkt sé það tekið inn um munn, eins og ég hef áður útlistað. Það er víst eitthvað gagn af því sé því sprautað inn í liði.

Nú skal ég vera alveg hreinskilinn... Það er verið að segja okkur ósatt! Þessi bæklingur er fullur af ósannindum.

Til viðbótar við blogg Björns Geirs er ástæða til að vekja athygli á vefsíðunni Upplýst sem fjallar einnig um þessi efni.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband