Nú segjast Steingrímur og Árni Páll geta miklu betur en allir aðrir

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir að stjórnvöld hafi í dag búið til „þykjustumynd sem sýni gríðarháar fjárhæðir í stöðugleikaframlag, með því að telja til framlaga hluti sem eru ekki framlög í nokkrum skilningi.“
Þetta kemur fram í stöðufærslu á Facebook-síðu Árna Páls sem telur að með þeirri leið sem verið sé að fara við skuldaskil föllnu bankanna – að veita þeim undanþágu frá höftum að uppfylltum ýmsum stöðugleikaskilyrðum – sé verið að „gefa erlendum kröfuhöfum hundruði milljarða í afslátt af stöðugleikaskatti.

Þetta er endursögn dv.is af skoðun Árna Páls Árnasonar, þingmanni og fyrrverandi ráðherra í vinstristjórn Jóhönnu og Steingríms. Honum ferst rétt eins og Birni hvíta Kaðalsyni sem frá segir í Njálu en hann þótti frekar grobbinn og lítt til stórræða.

"Svo mun þér reynast," sagði Björn, "að eg mun ekki vera hjátækur í vitsmunum eigi síður en í harðræðunum."

Þannig er nú með þá stjórnvitringa sem skipuðu lið vinstri stjórnarinnar að núna þykjast þeir eiga hugmyndir og frumkvæði og geta gert allt miklu betur en allir aðrir. Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hefur unnið í tvö ár að vandamálum sem vinstri stjórnin skapaði og loksins er komin lausn þá standa þessir menn upp og hafa allt á hornum sér. Segjast geta gert miklu betur. 

Í dálknum Skjóðan í Fréttablaðinu í dag segir:

Þeir félagarnir [Steingrímur J. Sigfússon og Gylfi Magnússon] afhentu kröfuhöfum á þriðja hundrað milljarða með beinum gjafagjörningi á kostnað viðskiptavina bankanna tveggja. Síðan hefur skotleyfið skilað þessum bönkum um 50 milljarða hagnaði á ári hverju. Nú hefur slitastjórn Glitnis boðið gjöfina sem meginhluta af sínu stöðugleikaframlagi, bankann sem byggir verðmæti sitt á herför gegn viðskiptavinum sínum og eigum þeirra.

Hví fór ríkið ekki sömu leið með Arion banka og Íslandsbanka og farin var með Landsbankann? Hví voru fyrrnefndu bankarnir gefnir slitabúum ásamt skotleyfi á viðskiptavini í stað þess að gefið væri út skuldabréf milli nýja bankans og þess gamla (í krónum en ekki gjaldeyri!) líkt og gert var með Landsbankann?

Ekki verður séð að ráðherrarnir hafi haft umboð til að gefa eigur ríkisins og út frá nýlegu dómafordæmi Hæstaréttar getur vart leikið vafi á að um umboðssvik var að ræða. Raunar verður ekki betur séð en að þessi umboðssvik Steingríms J. og Gylfa gegn þjóðinni hafi verið mun alvarlegri en þau umboðssvik sem verið er að dæma menn í margra ára fangelsi fyrir í ýmsum hrunmálum.

Þetta er sá sami Steingrímur og ætlaði að keyra í gegn um Alþingi óséðan samning í Icesave-deilu Íslands við Bretland og Holland – samning sem hefði kostað þjóðina 200 milljarða hið minnsta. Já, ekki skorti ráðherrann örlæti gagnvart kröfuhöfum, jafnvel þegar um ólögvarðar kröfur var að ræða.

En nú lýsir hann áhyggjum sínum yfir fjárhæð stöðugleikaframlagsins, ráðherrann sem vildi gefa erlendum kröfuhöfum á fimmta hundrað milljarða þó að þjóðin hafi raunar náð að takmarka tjónið með því að hafna með öllu Icesave-samningum.

Er hægt að taka nokkurt mark á þeim sem klúðruðu bönkunum í hendur útlendinga. Eru þeir bestu mennirnir til að gagnrýna aðgerðir núverandi ríkisstjórnar? Ef til vill, en rökin þessara manna eru hvorki góð né traustvekjandi. Tími Árna Páls, Steingríms og Gylfa er liðinn ... sem betur fer.

 

 


mbl.is „Við settum kúluna í byssuna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun Cameron biðjast afsökunar á hryðjuverkalistanum?

Það er að sjálfsögðu ánægjuefni að forsætisráðherra Stóra-Bretlands, David Cameron, skuli koma til Íslands. Ef tilgangur hans er að bæta nágrannasambandið og taka samvinnu í þessum heimshluta alvarlega er koma hans af hinu góða. Án efa ætti hann að byrja á því að biðja íslensku þjóðina afsökunar á því að forveri hans í embætti, Gordon Brown, skyldi beita hryðjuverkalöggjöf gegn staðföstu bandalagsríki í bankakreppunni. Einnig gæti hann dregið til baka hina sérkennilegu ákvörðun bresku ríkisstjórnarinnar um að neita að taka þátt í loftferðaeftirliti NATO á norðurslóðum og að senda ekki eitt einasta skip flota hennar hátignar til að taka þátt í eftirlitsferðum þar á undanförnum árum.

Þetta er úr grein í Morgunblaði dagsins eftir Angus Brendan MacNeil, þingmann skoska Þjóðarflokksins á breska þinginu. Honum mælist vel og tekur þarna á þeim málum sem skipta miklu í samskiptum Íslands og Bretlands.

Íslenska þjóðin bíður enn eftir að Bretar biðjist afsökunar á að hafa skilgreint Ísland sem hryðjuverkaríki haustið 2008. Samskipti landanna geta aldrei orðið sömu fyrr Bretar geri sér grein fyrir því hversu ódrengilega og óheiðarlega var að verki staðið.

Eftir að hafa fylgst með breskum stjórnmálum í langan tíma tel ég nær útilokað að David Cameron taki upp á því fyrir hönd breskra stjórnvalda og þjóðanna að biðjast afsökunar. Bretar gera ekki mistök hversu heimskulegar gerðir þeirra eru.

Ekki einu sinni hálfsósíalistinn Tony Blair, fyrrum forsætisráðherra gat um daginn beðist afsökunar á því er hann og ríkisstjórn hans drógu Breta inn í Íraksstríðið á fölskum forsendum. Hann sló í og úr eins hans er venja.

Í niðurlagi greinar sinnar segir Angus Brendan MacNeil, þingamaður, og er ekki efi í mínum huga að Skotar muni reynast góður nágranni:

Ég man vel eftir heimsóknum ráðherra úr ríkisstjórn Verkamannaflokksins til Íslands þar sem þeir töluðu vinsamlega. Þegar þeir komu aftur til Lundúna var komið annað hljóð í strokkinn, því þá hreyktu þeir sér af því í fjölmiðlum að þeir hefðu krafist þess að Íslendingar endurgreiddu innistæðurnar.

Englendingar skilja fæstir önnur tungumál en ensku en Íslendingar skilja ensku og tóku eftir misræminu. Þetta varð til þess að prentaðir voru frægir t-bolir með myndum af þeim Brown og Darling. Svo fór að lokum að Ísland vann málið fyrir EFTA-dómstólnum. Nú vona ég að framkoma Lundúnastjórnarinnar verði betri. Sá dagur kemur að Skotland mun reynast Íslendingum betri nágranni.


Draumspakur maður spáir fyrir um vetrarveðrið

Draumspakur maður og fjölfróður hefur haft samband við þann sem hér lemur á lyklaborð og veitt upplýsingar um veðurfar vetrarins. Hann hefur oft spáð fyrir um veður, jarðskjálfta, eldgos, kvennamál og annars konar óáran hér á landi. Alltaf hefur hann haft rétt fyrir sér eins og lesendur muna án efa.

Þessi maður spáði fyrir um síðustu Heklugos, gosið á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli, norðvestlægu lægðirnar sem kældu landið frá síðustu áramótum og langt fram á sumar, sagði til um útbreiðslu Spánarsnigilsins, spáði FH-ingum Íslandsmeistaratitlinum í fótbolta og fleira mætti upp telja. Að vísu var hann í nokkrum tilfellum heldur seinn að tilkynna mér um spár sínar en þá, merkilegt nokk, höfðu þær ræst - undantekningalaust.

Sá draumspaki veit lengra en garnir og fleiri innyfli annarra spákarla og -kerlinga ná. Því er vissara að leggja við eyrun ... í þessu tilviki, glenna upp glyrnurnar.

September: Frekar vætusamt og leiðinlegt.

Október: Frekar kalt, rigning af og til, snjóar í fjöll og á láglendi norðanlands og austan. Fyrsta snjókoman suðvestanlands verður laugardaginn 24. október.

Nóvember: Frekar kalt, rigning af og til, snjóar víða um land, annars staðar ekki, víða mun rigna þegar ekki snjóar. Snjó tekur upp þegar hlýnar. Slydda af og til suðvestanlands en auð jörð á suðurlandi nema þegar snjóar. Hitastigið mun rokkar upp og niður. Frekar kalt verður þegar frystir. Þegar vindur blæs getur orðið hvasst.

Desember: Meiri líkur á snjókomu eftir því sem líður á mánuðinn. Ef ekki mun rigna, þó aldrei í frosti. Þegar snjóar verður það sjaldnast þegar hitastig er hátt. Sólin verður lágt á lofti en það lagast eitthvað eftir 21. desember. Að næturlægi verður frekar dimmt.

Janúar: Miklar líkur eru á að kalt verði í janúar. Allan mánuðinn verður frost á Eyjafjallajökli. Kalt verður í norðlægum áttum en síður er vindur blæs af suðri. Í norðaustanáttum er hætta á snjókomu norðanlands. Snjóflóð verða þar sem hlíðar eru brattar nema þar sem ekkert hefur snjóað.

Febrúar: Kalt verður allan mánuðinn nema þegar hlýtt er. Sundum mun rigna þó ekki í þegar snjóar. Hætt er við hálku þegar kólnar eftir rigningu. Norðurljósin munu sjást vel einkum að næturlagi þegar skýjafar er í lágmarki.

Mars: Í lok mars veður bjartara en í byrjun nema að næturlægi. Frekar kalt verður allan mánuðinn en þó verða nokkrir dagar hlýrri en aðrir. Stundum mun sjást til fjalla, einkum í heiðskíru veðri.

Apríl: Kalt verður í apríl nema þegar hlýrra verður. Hlýjast verður alltaf sunnan megin fjalla og einnig undir húsveggum sem snúa í suður. Húsaflugur lifna við. Fjölmiðlar fara að ræða um páskahret og vorhret sérstaklega þegar lítið er í fréttum. Vorið getur verið kalt verði það ekki hlýtt og sólríkt.

Að lokum sagðist sá draumspaki vera með stórfrétt. Ólafur Ragnar Grímsson verður ekki forseti út árið 2016.

 


mbl.is Búist við mildum vetri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. október 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband