20 milljón króna munur á íbúðaláni í Noregi og Íslandi

Var að fá bréf frá bankanum mínum í Noregi sem ákvað að lækka vextina á húsnæðisláninu mínu í þriðja skipti síðan í apríl, að þessu sinni niður í 2.15% óverðtryggða breytilega vexti. Sambærilegt húsnæðislán í Landsbankanum er á 7% vöxtum.

Þannig skrifar Sigurður Ragnar Eyjólfsson á Facebook síðu sína fyrir hálfum mánuði. Frétt á dv.is í  dag vekur athygli færslunni.

Þetta eru auðvitað stórmerkilegar staðreyndir og Sigurður fór í nokkra útreikninga og heldur áfram (feitletranir og greinaskil eru undirritaðs):

Segjum að lánsupphæðin sé 20 milljónir til 25 ára, þá verður mánaðarleg greiðsla 141.476 kr á Íslandi en 87.603 kr í Noregi, munar semsagt 53.873 kr á mánuði á afborguninni.

En í Noregi myndirðu reyndar fá 9.850 kr endurgreiddar frá skattinum (27% af vaxtargreiðslum ársins eru endurgreiddar til fólks í Noregi) svo í raun munar um 63.000 krónum á mánuði á mánaðarlegri afborgun eða um 756.000 krónum á ári eða 18.9 milljónum á þessum 25 árum.

Lántökugjaldið á Íslandi er svo miklu hærra en í Noregi. Það má því segja að miðað við vaxtastig landanna í dag þá er 20 milljón króna lán til 25 ára 19 milljón krónum dýrara á Íslandi en í Noregi.

Þessi munur er að sjálfsögðu ekki í lagi. Að fólki er þjarmað með ofurvöxtum og kostnaði sem hinn almenni launamaður á ekki nokkra möguleika á öðru en að láta yfir sig ganga. Þetta er eins og að glæpamaður gangi í skrokk á skuldaranum.

Svona er ekki hægt að reka þjóðfélag. Hér er þetta annað hvort í ökkla eða eyra. Ein kynslóðin naut þess að húsnæðisskuldir hennar brunnu upp í verðbólgubálinu, hrunið eyðilagði fjármál fyrir fjölda fólks og svo er það bannsett verðtryggingin.

Framundan er svo enn ein kollsteypan. Laun stórhækka á fjölmörgum þjóðfélagshópum sem klappa saman lófunum í fögnuði en sex mánuðum síðar verður allt komið út í verðlagið, skattar hækka, lánakjörin stórhækka. Tuttugu milljón króna munur á húsnæðislánum í Noregi og Íslandi verður þá líklega 30 milljónir. Ekki aðeins eru stjórnmálamenn snargalnir heldur líka bankarnir og samtök launþega.

Var einhver að tala um samfélagssáttmála? 


Bloggfærslur 16. október 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband