Samfylkingin stærst og ógnar fólki í borginni

Svo virðist sem Samfylkingin sé í sókn í Reykjavík og muni verða stærri en Sjálfstæðisflokkurinn í næstu borgarstjórnarkosningum. Það er með algjörum ólíkindum.

Leiðtogi Samfylkingarinnar í borginni er kunnur fyrir blíðmælgi en henni fylgja langlokur og þreytandi útskýringar sem fæstir skilja. Hann er engu að síður einn þeirra sem ætlar sér að þrengja byggð í Reykjavík, henda burtu flugvellinum með allri þeirri atvinnustarfsemi sem honum fylgja.

Hann vill og byggja fjölbýlishús hvar sem því verður við komið og skiptir engu máli hvernig umhverfið er byggt. Á sunnanverðu Skólavörðuholti er ætlun breyta umhverfinu, gera Landspítalann að borgríki innan borgarinnar, byggja þar upp algjörlega úr takt við aðra byggð. Hann vill þrengja að einkabílnum, búa til biðraðir fyrir aftan strætisvagna. Og fyrir okkur hjólreiðafólkið vill hann búa til hjólabrautir þar sem síst er þörf á þeim, t.d. á Hofsvallagötu eða Vatnsstíg! 

Og í þokkabót ætlar Samfylkingin að standa að eignarnámi vegna þess að ekki eru íbúðarhús byggð út að gangstéttum. Þess vegna á að gera eignir fólks upptækar og byggja á grænum svæðum. Gæti ekki verið að Samfylkingin sé að skipuleggja íbúðabyggð á umferðareyjum?

Síðustu fjögur árin hafa verið við stjórn í Reykjavík fólk sem kann ekki til verka en stundað trúðslæti. Nú virðist ætla að koma til valda hreinræktuð vinstri stjórn sem tekur ekkert mið af þörfum íbúanna heldur ætlar að fara sínu fram með valdboðinu einu saman. 


mbl.is Meirihlutinn í borgarstjórn heldur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. maí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband