Leiðréttingin fari í heilbrigðismálin

Þessu til viðbótar viljum við hjónin skora á alla sem sóttu um og geta fengið leiðréttingu, en telja sig ekki þurfa á henni að halda, telja upphæðina svo litla að hún skipti ekki máli, telja sig fá óbragð í munninn við að þiggja hana, telja leiðréttinguna vera illa meðferð á almannafé eða hafa talað gegn leiðréttingunni af hvaða ástæðu sem er, að þiggja ekki leiðréttinguna með ósk um að sú upphæð, sem þeim var úthlutað, fari í sjóð til uppbyggingar á heilbrigðiskerfinu og til málefna öryrkja og aldraðra.

Sérstaklega skorum við á formenn stjórnmálaflokka á þingi, sem sóttu um og geta fengið leiðréttingu sinna lána, að gera slíkt hið sama.

Einnig viljum við skora á öll fyrirtæki í landinu að greiða litlar eða stórar fjárhæðir til slíks sjóðs.

12. nóvember, 2014 Harpa Karlsdóttir Marinó G. Njálsson

Ég held að þetta sé ein sú besta hugmynd um fjáröflun í heilbrigðismálum sem komið hefur fram í langan tíma. Tek undir með hjónunum Hörpu Karlsdóttur og Marinó G. Njálssyni. Bloggarinn Páll Vilhjálmsson, bloggari (sem ekki sótti um), tekur undir með þeim hjónum og hvetur jafnframt stjórnvöld til að búa svo um hnútanna að þetta verði mögulegt.

Mesta athygli vekur auðvitað skotið á formenn stjórnmálaflokkanna á þingi og hvað háværast hafa gagnrýnt leiðréttinguna. Afar fróðlegt verður að sjá hvort þeir verði við áskoruninni og ekki síður aðrir gagnrýnendur sem og þeir sem eru í sömu sporum og þau Harpa og Marinó sem þurfa ekki lengur á leiðréttingunni að halda.

Hér er komin ástæða til að halda fund á Austurvelli til stuðnings frábærri hugmyndi og hvetja fólk til að styðja við hana.


Pólitíkusinn Einar Kárason og rithöfundurinn

Merkilegast finnst mér þegar menn leyfa sér að gera þúsundum manna upp skoðanir. Eins og Einar Kárason hafi hugmynd um hvað öllum sem búa utan Reykjavíkur finnst um flugvallarmálið? Hvað þá að hann taki sér þann rétt að hæðast að og atyrða sama fólk, fyrir hans ímyndanir um álit þess.

Viðbrögð mín, og mögulega fleira fólks við skrifum Einars, hafa ekki neitt með flugvöllinn í Vatnsmýrinni að gera. Mér finnst leitt þegar hroki er talinn eðlilegur málflutningur, burtséð frá hvert umræðuefnið er. Jafnvel þótt menn telji sig vera stóra kalla.

Menn hafa leyft sér að hneykslast á ummælum Einars Kárasonar, rithöfundar, sem í umræðu um flugvöllinn í Reykjavík kallaði fólk sem býr utan höfuðborgarsvæðisins landsbyggðarhyski. Þetta mun hann hafa gert vegna áhuga framsóknarmanna á Alþingi á að taka skipulagsvaldið yfir flugvellinum til ríkisins.

Einar talar eins og fjölmargir vinstri menn sem hafa öðlast frægð og frama svo ekki sé talað um svarið við lífsgátunni. Þetta eru „besservisserar“, „fúll á móti“ sem einn veit og kann. Ofangreind tilvitnun er úr ágætri grein í Morgunblaði dagsins eftir Kára Gunnarsson, kennara, og hann er einn fjölmargra sem leyfir sér að gagnrýna Einar og það með réttu.

Gleymum því ekki að Einar er pólitískur, hann er Samfylkingarmaður og stendur þétt með því liði sem vill flugvöllinn burtu frá Reykjavík. Hann kærir sig lítið um hagsmuni þeirra sem eru á öndverðri skoðun. Má vel vera að það sé rétt hjá Kára að Einar sé hrokafullur í málflutningi sínum.

Vinstra liðið, Samfylkingin og týndu samstarfsflokkarnir í borgarstjórn, talar um þéttingu byggðar í höfuðborginni rétt eins og skortur sé á landi og nauðsynlegt sé að hlaða fólki í blokkir á sama lúsarblettinn. Þétting byggðar er einfaldlega mýta sem á ekki við hér á landi og er hreinlega ekki eftirsóknarvert. Trúr þesssari mýtu ræðst pólitíkusinn Einar Kárason á hagsmuni fólks, ekki aðeins landsbyggðarinnar heldur líka Reykvíkinga en ætla má að stór hluti þeirra séu fylgjandi flugvellinum og þeirri atvinnustarfsemi sem honum fylgir.

Þó svo að Einar Kárason hafi öðlast frægð og frama og sé frábær rithöfundur þá er ekki þar með sagt að pólitískar skoðanir hans séu jafn burðugar. Greinum samt á milli rithöfundarins og pólitíkusarins. Kaupum og lesum bækur þess fyrrnefnda en ráðumst málefnalega á skoðanir þess síðarnefnda. Bókabrennur eiga hér ekki við.


Bloggfærslur 13. nóvember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband