Færsluflokkur: Bækur

Belgingur og hófsemd

Í sjálfu sér veldur öll nafnfrægð röskun á eðlilegu jafnvægi manns. Við eðlilegar aðstæður er nafn manns ekkert annað né meira en einkennisborðinn er vindlinum, kennimark, fánýtt yfirborðsatriði, sem á lítið skylt við raungildið, manninn sjálfan. En hljóti maður frægð hleypur ofvöxtur í nafn hans. Það losnar úr tengslum við mann, verður afl út af fyrir sig, sjálfgildur hlutur, verslunarvara, höfuðstóll sem hefur hina sterkustu gagnverkan á sálarlíf mannsins og tekur að drottna yfir honum og móta hann. Ánægðum og sérgóðum mönnum hættir þá ósjálfrátt við að leggja sjálfa sig að jöfnu við árangurinn, sem þeir hafa náð. Vegtylla, staða, heiðursmerki eða jafnvel nafnfrægð ein getur stigið þeim svo til höfuðs, að þeir freistist til að halda að sér beri sérstakur heiðursess í félagsskap manna, ríki eða samtíð. Þeir belja sig ósjálfrátt upp til að ná persónulegri fyrirferð, er samvari því sem þeir hafa afrekað. En hverjum þeim, sem hefur að upplagi takmarkað sjálfstraust finnst hvers konar vegsauka fylgja sú kvöð að gangast sem minnst upp við hann.

Úr bókinni Veröld sem var eftir Stefan Zweig, í þýðingu Halldórs J. Jónssonar og Ingólfs Pálmasonar, Forlagið, 2010.

 


Leigubílstjóri myrtur á Laugalæk

Morgunbla�i daginn eftir mor�i�Í janúar 1968 bar ég tæplega tólf ára drengur út Vísi í Skaftahlíð og Miklubraut. Gerði þetta í rúm tvö ár. hafði bara gott af. Verst þótti mér að bera út í skammdeginu, þurfa að fara alla leiðina niður í Alaska sem var í jaðri Vatnsmýrarinnar, nálægt flugvellinum. Þar var lítil götulýsing, myrkur mest alla leið og drengstaulinn því hálf skelfdur.

Í hinum endanum var bjartara. Þar, efst í Skaftahlíðinni, var risastór óður hundur sem ég hræddist ógurlega, sérstaklega þegar ég var að rukka. Síðar uppgötvaði ég að hann var svosem ekkert óður, gelti bara mikið.

Jæja, einn daginn minnir mig að fyrisögnin á Vísi hafi verið eitthvað á þessa leið: Leigubílstjóri myrtur.

Það gerðist árla morguns þann 18. janúar 1968 að Gunnar Tryggvason leigubílstjóri fannst myrtur í bíl sínum við Laugalæk.

Í gærkvöldi kláraði ég að lesa bókina „Morðið á Laugalæk“ eftir Þorstein B. Einarsson, en hún var gefin út 2007. Þetta er fín bók, doldið þurr en engu að síður mjög fróðleg. Fátt mundi ég um morðið en margt rifjaðist upp og enn fleira kom mér á óvart.

Gunnar þessi Tryggvason virtist hafa verið afar geðþekkur maður, engum til ama og tóm lygi að hann hafi verið okurlánari eins og kjaftasögurnar hermdu. Hins vegar var hann nokkuð vel stæður, hafði til dæmis unnið hálfa milljón í Happdrætti háskólans tíu árum áður. Kannski vildi einhver komast yfir peninga hans.

Maður nokkur var handtekinn ári eftir morðið og beindust öll sönnunargögn að honum og lá eiginlega ljóst fyrir að hann væri morðinginn. Hins vegar játaði hann aldrei og var að lokum sýknaður, bæði í héraðsdómi og hæstarétti.

Það sem mér kom mest á óvart var hversu lögreglan á þessum tíma var illa undir morðrannsókn búin. Höfundur bókarinnar rekur fjölmörg dæmi um yfirsjón lögreglumanna og handvöm. Sem dæmi má nefna að bíll leigubílstjórans var aðeins rannsakaður í einn sólarhring og síðan afhentur ættingjum hins myrta. Mörgum vísbendingum í rannsókninni var ekki fylgt eftir, t.d. fjarvistarsönnun meints morðingja. Hinn meinti morðingi var mjög reikull í frásögnum sínum og lögreglan virtist ekki hafa mannskap til að kanna allt sem hann sagði. Einnig virtist lögreglan ekki kortleggja það sem gerðist sérstaklega ekki ferðir lykilvitna.

Morðvopnið fannst en það var 35 calibera skammbyssa sem stolið hafði verið frá Jóhannesi Jósefssyni sem þekktastur var sem eigandi og hótelstjóri Hótel Borgar. Sá sem stal byssunni reyndist vera hinn meinti morðingi en hann hafði verið starfsmaður og vinur Jóhannesar.

Höfundur bókarinnar rekur það hvernig morðvopnið hafði komist í eigu Jóhannesar og að byssan var afar fágæt, tók 35 cal. skot sem voru og eru mjög sjaldgæf.

Færðar voru sannanir fyrir því að byssan var morðvopnið. Sá sem stal henni frá Jóhannesi, meintur morðinginn, hélt því fram að byssunni hefði verið stolið frá sér, engu að síður fannst hún í hanskahólf leigubíls sem hann átti. Illa gat hann skýrt út hvers vegna. Maðurinn breytti framburði sínum ítrekað en aldrei gaf hann færi á sér, hann brotnaði aldrei í yfirheyrslum.

Árið 1970 var ákærði sýknaður í héraðsdómi og rúmu ári síðar í Hæstarétti. Greinilegt var þó að miklar líkur voru taldar á því að hann hefði framið morðið en sannanirnar vantaði. Raunar var ekkert sem beinlínis benti til sektar hans. Ekki var hægt að fullyrða að hann hefði verið á vettvangi morðsins. Byssan fannst í hanskahólfi bílsins og þeir sem hana fundu handléku hana að vild án þess að gruna að hér gæti verið um morðvopn að ræða og eyðilögðu hugsanlega mikilvæg fingraför.

Loks má þess geta að sá sem stjórnaði yfirheyrslunum var á þeirri skoðun að hinn grunaði væri að því kominn að játa þegar yfirmenn í lögreglunni misstu þolinmæðina og settu hann af og sakadómari tók við. Segir í bókinni að sá hafi verið mjög slæmur í sínu starfi og hreinlega fengið sakborninginn upp á móti sér svo allir möguleikar á því að hann játaði breyttust í þrákelni.

Þetta er nú svosem enginn ritdómur um bókina og þaðan af síður kórrétt lýsing á henni. Hins vegar fannst mér hún afar fróðleg og mæli eindregið með því að fólk lesi hana.


Frábær bók Guðmundar Andra Thorssonar

Sá leiðinlegi pistlasmiður sem farið hefur hálfsmánaðarlega hamförum á forystugreinarsíðu Fréttablaðsins hefur nú skrifað sögu og fengið gefna út. Þá bregður svo við að sagan er að mínu mati verulega skemmtileg, afar vel skrifuð og sýnir aðra og betri hlið á rithöfundinum en ég hélt að hann ætti til.

Pólitískt er ég hreint ekki sammála Guðmundi Andra Thorssyni. Hann er miður hreinlyndur pólitískur skrifari, skautar oft fram hjá staðreyndum og lætur það vaða sem betur hljómar. Kannski er það vegna þess hversu góður skrifari hann er að mér líkar illa við pólitísku skrifin en held varla vatni yfir þeim fagurfræðilegu. Verð þó að viðurkenna að ég hef aldrei lesið neitt eftir Guðmund, en ákvað um daginn að gefa bókinni séns enda hefur henni verið mikið hampað.

Bókin „Segðu mömmu að mér líði vel“ er yndisleg saga, nokkurskonar ævisaga. Hún hefur víðtæka skírskotun í nöfn fræga fólksins. Fær það raunar á tilfinninguna að nöfn þeirra séu dulnefni fyrir raunverulegt fólk sem var uppi á síðustu öld, maður kannast einhvern vegin við karakterana. Kannski er verið að tala þar um rithöfundana eins og Jón Trausta, Guðrúnu frá Lundi, tónlistarmanninn Hauk Mortens og svo framvegis.

Hvað um það. Eftir lestur bókarinnar líður manni vel. Sagan flýtur óskaplega vel áfram. Það truflaði mig þó lítið eitt að í upphafi bókarinnar fær maður það á tilfinninguna að ástkona söguhetjunnar sé horfin, jafnvel dáin. Það olli því að maður las hratt, of hratt, til að komast að örlögum konunnar. Þannig heldur sagan manni í helgreipum og samúðin með söguhetjunni er óskoruð.

Kannski ég fari nú að lesa pistla Guðmundar Andra Thorssonar í Fréttablaðinu með öðru hugarfari. Í það minnst hef ég breytt um skoðun, hann er ekki eins leiðinlegur og ég hélt, bara alls ekki svo slæmur ... En pólitískt er ég langt frá því sammála manninum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband