Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2016

Sumardagurinn fyrsti er formlega vorsins fyrsti dagur

IMG_3341_HDR2Ég óska lesanda mínum gleðilegs sumars. Í tilefni sumarkomunnar langar mig til að endurtaka það sem ég hef áður sagt um þennan forna sið okkar að halda upp á hana.

Sumardagurinn fyrsti markar upphaf vors en margir átta sig ekki á því að vor og sumar eru af sama meiði, rétt eins og haust og vetur. Samkvæmt skilningi forfeðra okkar hefst sumarið á vori, rétt eins og veturinn á hausti.

Vorið kemur ekki á Íslandi í mars eða byrjun apríl. Þetta er óskaplega hvimleiður misskilningur þeirra sem komnir eru úr tengslum við veður landsins og láta sér duga að fylgjast með því út um stofu- eða bílglugga. Forfeður okkar fundu upp sumardeginum fyrsta og einhvern tímann var stungið upp á því að hann yrði fyrsti fimmtudagur eftir 18. apríl. Sem barn var ég látinn muna að þessi ágæti dagur væri alltaf fimmtudagur. 

Oft snjóar á vorin. Tilgangslaust er að væla út af snjó á sumardaginn fyrsta. Nafnið sem þessi dagur ber er tilbúningur og til þess að gera ófullkomin tímasetning miðað við gang náttúrunnar hverju sinni. Hann er aðeins viðmiðun.

Gerist það, sem svo iðulega hendir, að það snjói á sumardaginn fyrsta eða frost sé á þeim degi eða síðar er það einungis gangur náttúrunnar og skýr merki um að við ættum að skoða stöðu landsins á hnettinum áður en farið er að agnúast út í það sem við ráðum engu um.

Halli jarðar veldur því að smám saman nær sólin að losa um tök vetrarins og eftir því sem líður mun sólin ná að verma landið og gróðurinn tekur þá við sér. Skipir þó litlu þó lítt sjáist til sólar, hnötturinn hallar undir flatt og áhrif hennar eru óumdeilanleg.

Þeim sem eru óhressir með ofangreindar skýringar get ég gefið tvö ráð. Annað hvort er að flytja til annarra landa þar sem veðráttan hugnast fólki betur eða halda áfram tilverunni á skerinu okkar og hætta bölvaðri neikvæðni. Á Íslandi er hlýrra að sumarlagi en um vetur, en vonandi verður aldrei veðurfar hér eins og í Suður-Evrópu.

Fyrir þá sem aðhyllast seinni kostinn bendi ég á að veðrið er alltaf miklu skárra en það virðist þegar staðið er innan við stofugluggann.

Fjölmargir þeirra sem njóta útivistar halda því fram að veður sé fyrst og fremst huglægt ástand, síður raunverulegt. Um leið og fólk venst útiverunni kemur í ljós að veðrið á Íslandi er bara ágætt. Þetta heitir að lifa með því sem við höfum og getum ekki breytt. Það gerðu forfeður okkar og skyldum við ekki get gert það sama? Nema við séum svoddan bölvaðir aumingjar.

Og enn og aftur, gleðilegt sumar.


Rannsóknarnefnd um skattaskjól verður pólitískar nornaveiðar

Rannsókn vegna skattaskjóla íslenskra ríkisborgara eða fyrirtækja er best komin hjá skattafyrirvöldum og rannsóknarlögreglu. Alþingismenn er varla sérfræðingar í skattamálum.

Hætt er við því að rannsóknarnefnd sem Alþingismenn skipa verði fyrst og fremst pólitísk nefnd og gagnslaus í þeim efnum. Sama er þó þingið skipi rannsóknarnefnd skipaða utanþingsmönnum. Þetta verður alltaf pólitísk nefnd sem stunda munu nornaveiðar og brennur á torgum.

Skynsamlegast er að halda sig við stofnanir íslenska lýðveldisins sem sérhæfa sig í rannsókn á lögbrotum.

Raunar sjá allir í gegnum svona tillögu. Hún er sett fram af pólitískum hvötum, síst af öllu til að leiða fram sannleikann og koma skattsvikurum fyrir dóm.


mbl.is Spurðu út í rannsóknarnefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlega heimskuleg ekki-frétt Morgunblaðsins

Ólafur Ragnar Grímsson hefur fimm sinnum verið réttkjörinn í lýðræðislegum kosningum sem fram hafa farið samkvæmt lögum sem sett hafa verið af lýðræðislega kjörnu Alþingi. Hvað kemur Morgunblaðinu til að setja fram „frétt“ þar sem hann er settur í hóp með einræðisherrum og skíthælum? Er verið að gera lítið úr manningum, embættinu sem hann gegnir eða fólkinu sem kaus hann?

Þetta er ekki blaðamennska heldur eitthvað allt annað. Mann skortir eiginlega orð gagnvart svona framsetningu í blaði sem vill og er oftast virðulegt og sanngjarnt í fréttaflutningi. Hér setur blaðið svo sannarlega niður við þetta tilræði að mannorði forsetans og þess embættis sem hann gegnir.

Aðferðafræðin er svona álíka vitlaus eins og að flokka menn saman eftir því hvort þeir eru örvhentir eða rétthentir, dökkhærðir, ljóshærðir eða hárlausir. Vissulega gæti samanburðurinn verið óheppilegur fyrir suma en hann er jafnmikið út í hött og „fréttamennska“ Morgunblaðsins.

Framsetning fréttarinnar er slík að Morgunblaðið getur ekki annað en beðið forsetann afsökunar sem og lesendur sína.


mbl.is Ólafur í hópi með einræðisherrum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ólýðræðislegt ef sami maður er oft kjörinn forseti?

Furðuleg er sú afstaða að forseti megi ekki vera við völd í sex kjörtímabil. Þetta segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. Hún talar oft um lýðræði en skilningur hennar á því virðist nú ekki rista djúpt.

Ég sé ekkert að því þótt sami maður sé forseti svo lengi sem hann fær fái meirihluta atkvæða í hvert skipti sem hann býður sig fram. Í því felst lýðræðið.

Hins vegar má alveg binda í lög að sá einn kjöri verði kjörinn sem fær meira en helming atkvæða miðað við þá sem eru kjörskrá. Ekki miða við kjörsókn. Þá lendum við í sömu vitleysunni og með flugvallakosninguna í Reykjavík og kosningu um stjórnarskrárhugmyndir stjórnlagaráðs að léleg kjörsókn sé ásættanleg.

Raunar er það svo að Birgitta heldur því þar að auki fram að hér á land geti minnihlutinn Alþingis ráðið þvert á það sem meirihlutinn vill.

Þetta með forsetakosningar og þingræðið ber ekki vott um að hún skilji eðli lýðræðisins. Miklu frekar að hún beygi það og beygli svo það virðist styðja skoðanir hennar.

Vonandi sjá kjósendur í gegnum svona ómerkilegan málflutning.


Ólafur Ragnar er ekki meðframbjóðandi Hrannars Péturssonar

Líklega er Hrannar Pétursson að misskilja framboðstilkynningu Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands frekar illilega. Sá síðarnefndi var ekki að taka ákvörðun um að bjóða sig fram með Hrannari Péturssyni, hvað þá einhverjum öðrum.

Ólafur Ragnar er mótframbjóðandi Hrannars Péturssonar. Þeir bjóða sig fram á móti hvorum öðrum. Síst af öllu eru þeir meðframbjóðendur.

Gera verður kröfu til þess að frambjóðandi til forseta Íslands tali rétt mál svo hann verði nú ekki misskilinn. 


mbl.is „Velkominn í slaginn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leyfilegt að hjóla yfir gangbraut

Á vefmiðlum hefur sú skoðun verið viðruð að ekki megi hjóla yfir gangbraut heldur skuli hjólreiðamaður leiða hjól sitt. Umræða um þetta hefur spunnist upp vegna þess að Ómar Ragnarsson lenti í því að bíll ók á hann þar sem hann hjólaði yfir gangbraut.

Fleirum en mér þykir þetta fráleit túlkun á umferðalögum. Fyrir réttu ári svaraði fræðslustjóri hjá Samgöngustofu hins vegar spurningunni um rétt hjólafólks á sebrabrautum yfir götu. Svarið var þetta:

Gangbraut er skilgreind í umferðarlögum sem „Sérstaklega merktur hluti vegar, sem ætlaður er gangandi vegfarendum til að komast yfir akbraut“.

Annars staðar þar sem fjallað er um gangbraut í lögunum er alltaf gert ráð fyrir að ekki sé aðrir en gangandi vegfarendur sem fara yfir akbrautina á gangbraut.

Í lögunum segir einnig „Heimilt er að hjóla á gangstétt og gangstíg, enda valdi það ekki gangandi vegfarendum hættu eða óþægindum. Hjólreiðamaður á gangstétt eða gangstíg skal víkja fyrir gangandi vegfarendum.“

Ekki er gangbraut þar með í upptalningunni og því má ætla að ekki skuli hjólað yfir á gangbraut heldur hjól leitt yfir. [...]

Má þá ætla að hjólreiðamaður fyrirgeri rétti sínum um forgang ef hann hjólar yfir sebramerkta gangbraut.

Þessi lögskýring stenst ekki. Með beinni lögjöfnun má álykta sem svo að gangbraut sé ekkert annað en framlenging á gangstétt eða gangstíg. Þar með ætti að vera leyfilegt að hjóla yfir gagnbraut rétt eins og að hjóla á gangstíg.

Um forgang er fjallað í tilvitnaðri klausu í lögunum þar sem segir að hjólamaður skal víkja fyrir gangandi fólki.

Hins vegar segir ekkert í lögunum aki bíll á hjólamann á gangbraut. Allt bendir til þess að réttur hans sé þá hinn sami og gangandi vegfaranda.

Að þessu sögðu má álíta sem svo að hafi Ómar Ragnarsson sýnt tilskilda varúð er hann hjólaði á rafmagnshjóli sínu út á gagnbrautina sé ökumaðurinn sem ók á hann bótaskyldur. Undir þetta tekur Sigurður M. Grétarsson í athugasemdadálki vegna fyrri pistils um Ómar. Sigurður segir:

Í það minnsta gerir lögregla ekki athugasemd við það og ekkert tryggingafélag hefur reynt að koma sér undan bótaskyldu þegar bílar tryggðir hjá þeim hafa ekið niður hjólreiðamenn sem hafa hjólað yfir gagnbraut. Ég sjálfur hef lent tvisvar í árekstri við bíl við slíkar aðstæður. Í öðru tilfelli gerði viðkomandi ökumaður tilraun til að koma sökinni yfir á mig en niðurstaða tryggingafélaganna var sú að ég væri í rétti. Í hinu tilfellinu vísaði ökumaðurinn einfaldlega á tryggingafélagið sem viðurkenndi bótaskyldu og greiddi mér tjónið. Þeir sem halda því fram að það beri að leiða reiðhjól yfir gangbraut eiga sér fáa fylgismenn meðal sérfræðinga í umferðalögum.

Þetta er enn ein staðfestingin á því að hjólamönnum sé heimilt að hjóla yfir gangbraut. Önnur túlkun á þessu hlýtur að vera tóm vitleysa.

Hjólreiðamönnum hefur fjölgað mjög mikið á undanförnum árum og ef ætlunin er að túlka umferðalögin svo þröngt að stíga þurfi af baki og ganga yfir gangbraut þá er það þvert gegn þeirri hagkvæmni sem hjólreiðar vissulega eru.

Svo má alveg íhuga að bæta umferðarlögin hvað varðar hjólreiðar og einnig gangandi umferð. Sérstaklega ber að leggja áherslu á að hjóla- og göngufólk haldi sig hægra megin á göngustíg og gangstéttum. Margir ganga og hjóla vinstra megin og valda þannig vandamálum og hættu.

 


Friðlýsum Ómar Ragnarsson, hann er einstakur

Svo stutt er á milli slysa hjá Ómari Ragnarssyni að þjóðin verður að fara að gera það upp við sig hvort hún vilji ekki vernda hann sem náttúruundur eða þjóðararf. Náttúran er friðlýst, búnir eru til þjóðgarðar, náttúruvætt og fuglar eru friðlýstir. Byggt er hús yfir handritin og þau geymd við bestu hugsanlegu aðstæður um ókomna tíð.

Aðeins eitt eintak er til af Ómari Ragnarssyni. Það stykki verður að vernda og verja með öllum ráðum. Legg til að Alþingi lýsi því einfaldlega yfir að Ómar sé friðlýstur, maðurinn sé alltaf í rétti í umferð eða annars staðar, jafnvel þó hann sé í órétti.

Ómar Ragnarsson er nokkurn veginn óumdeildur þó örfáir fái eitthvað „kikk“ út úr því að þrasa í honum á blogginu hans eða annars staðar.

Ég er þess fullviss að hefði maðurinn döngun í sér myndi þjóðin kjósa hann sem forseta, með yfirgnæfandi meirihluta.

Grínlaust, ef það er hægt þegar um Ómar er rætt, þá verður hann að fara að gæta sín. Ég á fimm barnabörn sem enn hafa ekki kynnst list hans og síðan koma börnin þeirra einn góðan veðurdag.

Svo megum við ekki gleyma baráttu hans fyrir náttúru landsins. Hann er þar í fararbroddi og sú barátta stendur enn yfir.


mbl.is Ekið á Ómar Ragnarsson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óþverraliðið í athugasemdadálkum pressan.is

Það á nefnilega ekki við að hafa orðið „sekur“ framan við bæði þessi orð [það er skattsvik og skattasniðgöngu]. Ástæða mistakanna kann að vera sú að sumir þeirra sem fjalla um þessi tvö hugtök að gera lítinn mun á þeim.

Á heimsmálinu ensku er talað um „tax evation“ og „tax avoidance“. Það fyrra fjallar um skattsvik og hið síðara um skattasniðgöngu. Í skýringu á síðara orðinu segir þó, að átt sé við „löglega aðferð til að takmarka fjárhagslega stöðu einstaklings í þeim tilgangi að lækka það hlutfall af tekjum sem skattur leggst á. (The legal methods to modify an individual's financial situation in order to lower the amount of income-tax owed.)

Það er því óheiðarlegt að leggja þetta tvennt að jöfnu. Í skattalögum hafa löngum verið heimildir til að draga útgjöld, sem menn sanna með reikningum, frá tekjum. Úr slíku hefur þó dregið.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins er meðal annars að finna þessa ofangreint (feitletranir eru undirritaðs). Bréfið er nokkuð vel skrifað eins og oft áður.

Víkur nú sögunni að vefritinu eyjan.is sem er ekki merkilegur snepill. Í dag er er að finna „frétt“ um Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins. Það er ekki gert vegna þess að verið er að skýra út þá skoðun sem í því felst. Þess í stað er með hálfsagðri sögu og hálfsannleik r látið í það skína að höfundurinn sé fylgjandi skattsvikum. 

Óheiðarleiki eyjan.is og pressan.is er líka í því fólginn að þeir leyfa athugasemdadálk sem oftar en ekki er misnotaður. Í þá skrifar stórfurðulegt og illgjarnt fólk; vont fólk. Það dregur ekki af sér í fordómunum þegar snúið er út úr efni Reykjavíkurbréfsins og ekki virðist það há þessu fólki nokkurn skapaðan hlut þó það hafi ekki lesið það. Hér eru nokkrar athugasemdir:

Finnbogi Vikar: Það er gott að vita af því að Sjálfstæðisflokkurinn og Morgunblaðið sjá ekkert athugavert við skattasniðgöngur, aflandsfélög og leynimakk í skattaskjólum. Þetta segir manni að c.a. 1/4 af þjóðinni er siðblindur.

Finnbogi Vikar virðist ekkert vita hvað skattasniðgang er en það truflar hann ekki hið minnsta.

Bergur Ísleifsson: Svona hugsa sjálfstæðismenn. Siðferðið er ekkert. Svart á hvítu. Þessi orð Davíðs Oddssonar sýna vel að þessari mafíu er engan veginn treystandi til að setja sjálfum sér og öðrum lög og ég ætla rétt að vona að almenningur í landinu geri ekki þau mistök að kjósa leppa hennar í valdastöður aftur.

Varla verður sagt um Berg þennan að hann sé skýr í hugsun né heldur að hann hafi lesið Reykjavíkurbréfið, hvað þá að hann hafi skilið það.

Pétur Eyvindarson: Davíð staðfestir hvers konar viðbjóður hann er. Vonandi drepst hann fljótlega til að spara okkur allar greiðslurnar sem fara til hans, klæðskerasaumaðar að hætti siðleysingja.

Hugsanlega er þessi undir fölsku nafni. Engu að síður er hann meðal verstu óþokka á Facebook. Skyldi einhver vera stoltur af kynnum sínum við manninn eða tengslum.

Ólafur Jónsson: Ekki djúpt á siðleysinu þarna frekar en fyrri daginn.

Frekar djúpt á skilningi hjá þessum en snöggur að tjá sig um það sem hann greinilega veit fátt um.

Svona er daginn út og daginn inn skrifað í athugasemdadálka pressan.is, eyjan.is og dv.is. Yfirleitt ekkert nema óhróður og illmælgi. Raunar er það svo að sömu mennirnir skrifa oftast þarna. Þeir sem kynna sér þessa dálka þekkja nöfnin smám saman. Yfirleitt eru athugasemdirnar endurtekningar á sama róginum, aldrei kemur neitt nýtt fram. Líklega vegna þess að þetta fólk getur ekki haldið sömu hugsun lengur en í þrjár til fjórar línur.

 


Lof sé vinstri stjórninni ... fyrir að loka ekki sjúkrahúsum og skólum

Íslendingar hafa löngum elskað vísur og ekki síst öfugmælavísur þó varla svo að menn hafi lagt nokkurn trúnað á þær. Þessi er eftir Bjarna Jónsson sem nefndur var Borgfirðingaskáld (1560-1640).

Í eld er best að ausa snjó,
eykst hans log við þetta,
gott er að hafa gler í skó
þá gengið er í kletta.

Engin öfugmæli eru það að þegar Stalín dó grétu margir hér á landi af því þeir trúðu ekki „Moggalyginni“ um þann ljúfa landsföður. Nú mæla fæstir honum bót enda ljóst að hann var fjöldamorðingi þó hann tæki ekki í gikkinn sjálfur.

Ekki heldur eru það öfugmæli að Leoníd Brésnev, aðalritari sovéska kommúnistaflokksins dó 1982 og svo leið þó nokkur tími áður en hann lét af embætti. Þannig gerst sumir þausætnir.

Sú ríkisstjórn sem féll með brambolti í kosningunum 2013 er sögð hafa verið fyrsta vinstri stjórnin hér á landi sem ríkti í heilt kjörtímabil. Það mun líklega vera rétt fyrir utan þá staðreynd að hún dó drottni sínum eftir tvö ár en hún trúði ekki fréttum um andlát sitt og tórði því áfram. Þetta eru engin öfugmæli. 

Galvaskur riddari birtist fyrir stuttu á Fésbókinni og fór með öfugmælaþulu um afrek vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar, það er þeirrar sem féll en ríkti þó áfram. Riddarinn, Þorvaldur Örn Árnason, kveður þessa þulu (feitletranir eru ritstjóra):

 

Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms vann afrek við verstu aðstæður. Við skulum vera henni þakklát. Fyrir að bjarga Íslandi frá fullkomnu gjaldþroti og íbúunum landsins frá ánauð og langvarandi niðurlægingu á alþjóðavettvangi, fyrir að lækka rekstrarhalla ríkissjóðs úr 216 milljörðum í 4 milljarða án þess að kollkeyra samfélagið,

    1. fyrir að verja velferðarkerfið, 
    2. fyrir að loka ekki sjúkrahúsum og skólum eins og aðrar þjóðir hafa gert, 
    3. fyrir að hafa náð að lækka skuldir heimila þannig að þær eru nú á sama róli og var árið 2006, 
    4. fyrir að hafa náð að draga svo úr atvinnuleysi að það er hvergi minna í Evrópu,
    5. fyrir að hafa lækkað verðbólgu úr 20% í tæp 4%,
    6. fyrir að hafa náð vöxtum úr 18% í 5%,
    7. fyrir að draga svo úr fátækt á Íslandi að það er minna en var í góðærinu,
    8. fyrir hagvöxtinn sem er einn sá mesti í Evrópu,
    9. fyrir landsdóminn
    10. fyrir að hafa gert ungu fólki kleift að stunda nám í stað þess að vera atvinnulaust,
    11. fyrir að láta velferðarkerfið virka þrátt fyrir Hrunið,
    12. fyrir að hafa lagt tugi milljarða til skuldamála heimilanna
    13. fyrir að greiða niður þriðjung vaxta hjá skuldugum heimilum, 
    14. fyrir að hafa endurskoðað regluverkið utan um fjármálakerfið, 
    15. fyrir að fækka ráðherrum úr 12 í 8 og endurskipuleggja áður hálf ónýtt og lamað stjórnkerfi,
    16. fyrir að afnema sérréttindi ráðherra sem sett voru í tíð hægrimanna, 
    17. fyrir að samþykkja rammaáætlun, 
    18. fyrir að lögfesta barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, 
    19. fyrir að setja ný náttúruverndarlög
    20. fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá
    21. fyrir kosningar til stjórnlagaráðs
    22. fyrir að setja veiðigjöld á sjávarútveginn, 
    23. fyrir að endurskoða þingsköp og auka vægi minni hlutans á þingi, 
    24. fyrir strandveiðarnar
    25. fyrir að verja rétt landsins vegna makrílveiða, 
    26. fyrir breytingarnar á skattakerfinu, 
    27. fyrir þrepaskipta skattkerfið, 
    28. fyrir auðlegðarskattinn
    29. fyrir að tvöfalda fjármagnstekjuskattinn, 
    30. fyrir að færa skatta á fyrirtæki til samræmis við það sem annarsstaðar gerist
    31. fyrir stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs, 
    32. fyrir friðun landsvæða, 
    33. fyrir að koma í veg fyrir fólksflótta frá landinu vegna Hrunsins, 
    34. fyrir að setja lög um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyritækjum, 
    35. fyrir að hafa dregið úr ójöfnuði í landinu, 
    36. fyrir að afnema ráðherraskipanir dómara, 
    37. fyrir að hefja táknmál til vegs og virðingar,
    38. fyrir að gera hæfniskröfur til Seðlabankastjóra í fyrsta skipti í lýðveldissögunni,
    39. fyrir að setja ríkisstjórninni og stjórnarráðinu siðareglur, 
    40. fyrir að stórauka vægi umhverfisverndar í stjórnarráðinu, 
    41. fyrir að jafnrétti á Íslandi mælist nú meira en í nokkru öðru landi, 
    42. fyrir að auka vægi skapandi greina, 
    43. fyrir stuðning við kvikmyndagerð
    44. fyrir stuðning við menningu og listir, 
    45. fyrir fjárfestingaráætlunina sem gerir ráð fyrir 40 milljörðum í margskonar framkvæmdum á næstu árum, 
    46. fyrir að styðja vel við tækni- og hugverkageirann, 
    47. fyrir græna hagkerfið, 
    48. fyrir að innleiða kynjaða hagstjórn, 
    49. fyrir að hefja byggingu nýs fangelsis, 
    50. fyrir að leggja aukið fé til tækjakaupa á sjúkrahúsum
    51. fyrir vegaframkvæmdir og fleiri verklegar framkvæmdir,
    52. fyrir að ráðstafa nú hærra hlutfalli til velferðar- og félagslegra mála en gert var í góðærinu,

Þetta eru fögur eftirmæli. Eitthvað var ég nú að malda í móinn og birti lista yfir dóma á ráðherra vinstri stjórnarinnar, þruglaði eitthvað um Icesave og annað. Auðvitað sagði Þorvaldur að þetta væri lygi hjá mér sem er mjög líklegt

Nú, mér finnst vanta nokkrar fjaðrir inn í upptalningu Þorvaldar, hins sérlega aðdáanda vinstri stjórnarinnar. Hér eru nokkrar:

  • fyrir að stuðla að vori eftir kaldan vetur
  • fyrir að hækka laun forstjóra Landspítalans
  • fyrir aukinn grasvöxt á túnum landsins
  • fyrir sólina sem vermir alþýðu landsins
  • fyrir norska seðlabankastjórann
  • fyrir leyfa svo mörgum að vera ráðherra
  • fyrir kaupin á Sjóvá
  • fyrir að gefa kröfuhöfum Íslandsbanka og Arion banka
  • fyrir leyniherbergið í þinginu
  • fyrir ÁrnaPáls-lögin
  • fyrir að lækka atvinnuleysið með því að knýja fólk til að flytjast úr landi
  • fyrir að láta embættismenn sinna bókhaldi ríkissjóðs
  • fyrir að veita nýju bönkunum 25% afslátt af íbúðalánum
  • fyrir að leyfa nýju bönkunum að rukka heimilin að fullu þrátt fyrir afsláttinn
  • fyrir að skattleggja þjóðina svo að um 16 þúsund manns áttu ekki fyrir nægum mat

Annars væri ráð fyrir áhugasama að líta á þennan lista sem Þorvaldur Örn Árnason segir „lygi“ og meta með sjálfum sér hvort svo er.


Hornreka Ugluspegilsdóttir giftist Jóni Góða sem er vondur gæi

Mannanafnanefnd veit ekki að einhverjir gárungar eru að gera at í henni. Engum myndi detta í hug að skíra barnið sitt Ugluspegill, hvað þá Silfru ... Jæja, kannski fyrirfinnast einhverjir sem gætu viljað að afkomendi þeirra heiti Silfra Ugluspegilsdóttir.

Ég er þess fullviss að klúbbur bráðfyndinna náunga skemmira sér hið besta við að senda nafnamannanefndinni tillögur um nöfn. Svo mikil gæðablóð sitja í nefndinni að alltaf skulu nefndarmenn svara af sömu alvöru, alúð og kurteisi sem fyrr.

Eflaust kann það að vera dæmi um hingnun málsins ef maður sem er bæði fauti og glæpon í þokkabót geti verið með millinafnið „Góði“. Sem betur fer getur hann Jón Góði Jónsson ekki skírt son sinn Eldflaug. Skammt væri þá í það að Eldflaug Jónsdóttir ætti barn sem skírð væri Skrúfjárn Ugluspegilsdóttir eða jafnvel Klíputöng. Verra væri ef kát, hress og félagslynd kona í ótal kórum og kvenfélögum héti Hornreka, nú eða þá að hún næði sér aldrei á strik vegna nafnsins.

Þó ég hafi mikla samúð með mannanafnanefnd eða heitir hún nafnamannanefnd ... get ég ekki varist þeirri hugsun að best væri að leggja hana niður og um leið rýmka heimildir fólks til að  fá nafni sínu breytt. Gæti vel trúað að þegar hún Hornreka kemst til vits og ára myndi hún vilja breyta nafni sínu í eitthvað venjulegt, til dæmis Guðrún.


mbl.is Nafnið Ugluspegill samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband