Bloggfærslur mánaðarins, júní 2012

Kæfandi umhyggja vinstri manna

Margir vinstri menn halda að fólk sé fífl, það hafi ekki sjálfstæða hugsun og sé síst af öllu óstutt fært að taka ákvarðanir. Um leið á þetta fólk að vera svo illa af guði gert að auðveldlega sé hægt að fá það til að skipta um skoðun, jafnvel með heimskulegum rökum.

Svo virðist sem að Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands sé einn af þeim mönnum. Hann var í viðtali í Speglinum á rás tvö í Ríkisútvarpinu í gær og í endursögn dv.is sagði hann þetta:

Þessi fundur sem LÍÚ boðaði til á Austurvelli er einn ömurlegasti atburður í sögu þessa lands, þar sem vinnuveitendur eru að hvetja og flytja fólk sem er í vinnu hjá þeim á slíka fundi,“ segir Svanur. Hann vill að ný lög um stjórn fiskveiða taki ekki gildi fyrr en þau hafi verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu og búið sé að kjósa nýjan meirihluta Alþingis. Þá geti þjóðin farið að snúa sér að einhverju öðru, enda kominn tími til.

Svo vildi til að ég fór á þennan útifund. Hitti þar fjölda fólks, nokkra þekkti ég jafnvel og tók fleiri tali. Svanur lætur að því liggja að vinnuveitendur hafi krafist þess að starfsfólk þess mætti á útifundinn og fólk hafi af hræðslu við að missa starf sitt mætt þar.

Ég hef sagt það áður og segi það aftur að á þessum fundir voru á annað þúsund manns, heilbrigt og duglegt fólk sem án efa hafa sína ákveðnu skoðanir á skattinum sem ríkisstjórnin leyfir sér að kalla veiðileyfagjald.

Þegar vinstri menn sjá almenning mótmæla á öðrum forsendum en þeirra er hlaupið í skotgrafirnar og vinnuveitendur sakaðir um heilaþvott. Ástæðan er einfaldlega sú að vinstri menn ætla sér að hugsa um almenning hvort sem hann vill það eða ekki. Þetta má kalla kæfandi umhyggju, rétt eins og þegar stóra, feita frænkan tekur litla strákinn í fangið og knúsar hann þar drengurinn nær ekki andanum lengur.

 


Viðbjóðslegt er karlmaður grætur

Fjör og mikil skemmtun er af Evrópumótinu í fótbolta sem haldið er í Póllandi og Úkraínu. Kemur þar margt til. Þjóðverjar leika fínan fótbolt, Danir eru ekki alveg með sjálfum sér, Hollendingar eru frábærir en fúlir og hrokafullir og eiga því ekkert erindi áfram. Úkraínumenn koma á óvart, Rússar líka, Frakkar valda vonbrigðum sem og Svíar, Grikkir leika með þjáningu, og Portúgalir geta ekkert ef Ronaldo er haldið niðri sem að vísu er afar erfitt.
 
Væntingarnar til enska landsliðsins eru eins og til íslenska lagsins á Eurovision, ávísun á tóm vonbrigði. Þó tvær efstu deildirnar á Englandi séu með þeim skemmtilegustu í heimi er landslið þeirra fremur svona eins og lið Hollendinga og Dana.
 
Ítalir og Spánverjar leika keimlíkan fótbolta. Hver einasta snerting verður til þess að leikmaður kútveltist í grasinu og grípur jafnan um ökkla sér oftar og skiptir engu þó honum hafi verið hrint. Svo kemur æ oftar fyrir að leikmenn leggjast flatir til þess eins að fá leikinn stöðvaðann. Það gerði sá hugumprúði Pepe um daginn, þóttist hafa verið brugðið og grenjaði og emjaði eins og íslenskur grís sem er geldur án deyfingar. Endursýning leiddi hins vegar í ljós að hann hafði fallið á eigin bragði. Að sjálfsögðu gekk hann óhaltur útaf og aftur inn á völlinn en sókn andstæðinganna hafði með þessu verið stöðvuð.
 
Einn skemmilegasti penninn á Morgunblaðinu er án efa Kolbrún Bergþórsdóttir. Hún hefur allt annan vinkil á fóboltann en við karlremburnar. Hún segir:
 
Allt bendir til þess að vandasamt verði að koma auga á flottustu lærin á EM þetta árið. Stuttbuxurnar hafa síkkað svo mjög að erfitt er að koma auga á þrekleg læri. Helst gerist það þegar leikmenn meiðast eftir spark andstæðingsins og liggja grenjandi á vellinum. Ekkert er viðbjóðslegra en karlmaður sem grætur, sagði Nóbelsskáldið okkar, mjög réttilega, en þá er bót í máli að þegar karlmenn á EM meiðast á læri þá sýna þeir meidda svæðið. Á þeim stundum horfir maður faglegum gagnrýnendaaugum á viðkomandi læri. Stundum er lærið fremur væskilslegt, en einstaka sinnum stenst það prófið og er svo pattaralegt að það er leikmanninum til mikils sóma. Læri skipta yfirleitt ekki máli í hinu daglega amstri, en fyrir áhorfanda á knattspyrnuleik sem gerir fagurfræðilegar kröfur gegna þau lykilhlutverki. 
 
 
 
 

Dauðar lóur á jöklinum við Goðahnúka

920430-118 - Version 2

Fyrir nákvæmlega tuttugu árum fórum við fjórir félagar á gönguskíðum yfir Vatnajökul frá Goðahnúkum í Öræfajökul.

Eitt af því minnisstæðasta úr ferðinni var er við vorum að ástæðulausu veðurtepptir í Goðanúkum, en þeir eru tindar austast á jöklinum. Eftir að hafa dvalið í tvær eða þrjár nætur í skála Jöklarannsóknarfélagsins þarna uppi komust við að því að veðrið var þar miklu verra en um tvö hundruð metrum neðar. Þá lögðum við af stað úr storminum á hnúkunum og niður á rokið á jöklinum, en það er nú önnur saga og alveg einstaklega skemmtileg eins og allar mínar ferðasögur - eða þannig.

920430-102 - Version 2

Hitt er mér ekki síður minnisstætt er við gengum dagstund er birti til út á jökulinn og sáum tugi ef ekki hundruðir lóa sem höfðu í þokunni rekist á jökulinn og rotast. Þær hafa án efa ekki séð mun á þoku og jökli og því fór sem fór.

Lóurnar lágu þarna hálfdauðar margar hverjar, sumar klakabrynjaðar og blóðugar. Auðvitað fannst manni þetta hræðilegt en það var ekkert sem við gátum gert. Svo var það mörgum árum síðar er ég sagði einhverjum frá þessu. Sá hváði við og spurði hvers vegna við hefðum ekki étið lóurnar, steikt á pönnu. Skildi ekkert í heimsku okkar.

920430-139

Þetta hafði okkur ekki hugkvæmst þó aðrar þjóðir leggi vorn háheilaga þjóðarfugl til munns.

„Lóan er komin ...“, „dýrðin-dýrðin“, „dirrindí“ og allt þetta. Að hugsa sér að éta lóuna, það væri bara eins og að leggja sér Snata sér til munns eða Skjóna ...

Úps, ... gleymdi því sem snöggvast að við borðum hrossakjöt meðgóðri lyst. En lóan er friðhelg ... að minnst kosti hér á landi og þjóðarfugl. 

Efsta myndin er af lóulíki (má ekki orða það svo?).

920430-142

Sú næsta er af þremur félögum mínum en bak við þá er einhver ólöguleg hrúga. Inni í henni er skáli Jöklarannsóknarfélagsins.

Þriðja myndin er tekin þegar við erum að búa okkur til brottfarar. Þá er skafrenningur. Þarna sést inngangurinn inn í skálann. Tók okkur dágóð stund að finna hann og grafa okkur inn.

Fjórða myndin er tekin nokkru síðar, þá erum við komnir niður úr Goðahnúkum og út á jökulinn. Þar var dálítil gjóla en dásemdar veður og við stoppuðum til að fækka fötum. 

 

 


Eru braskarar heppilegir til mannaforráða?

Páll Vilhjálmsson er ötull gagnrýandi í pistlum sínum á blogginu. Hann sést stundum ekki fyrir en oft er hann afar beinskeyttur sérstaklega gegn ESB aðildinni. Í dag beinir á spjótum sínum að Sjálfstæðisflokknum. Hann segir:

Framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, Jónumundur Guðmarsson, tók þátt í braski þar sem SpKef lánaði félagi Jónmundar ógrynni fjár án veða. Peningarnir voru notaðir til að kaupa hlutabréf í Sparisjóðabankanum. Tapið á þessari fjármálafléttu er þrír til fjórir milljarðar króna.

Jónmundur var bæjarstjóri á Seltjarnarnesi þegar hann ákvað að taka snúning með félögum sínum suður með sjó. 

Með því að Jónmundur er núna framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins þá sendir flokkurinn þau skilaboð til samfélagsins að braskarar séu heppilegir til mannaforráða á Íslandi. 

Við næstu kosningar verða flokkar og frambjóðendur spurðir um aðild sína að hruninu. Sjálfstæðisflokkurinn ætti að íhuga sína stöðu vel og vandlega. 

Ekki þekki ég framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins en víða sem ég legg leið mína heyri ég kvartanir um fjármál einstakra trúnaðarmanna flokksins. Svo rammt kveður að slíku að það má vel vera að Páll Vilhjálmsson hafi rétt fyrir sér í ofangreindum pistli.


Mannorð Steingríms J og Halldórs Ásgrímssonar

Rétt eins og Halldór Ásgrímsson, fyrrum þingmaður og ráðherra, átti ásamt fjölskyldu sinni hlutafé í Skinney-Þinganesi á Höfn í Hornafirði og fyrirtækjum fyrir samruna, þá átti Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, og fjölskylda hans hlut í Hraðfrystistöð Þórshafnar.

Steingrímur ræðst að Morgunblaðinu í grein í blaðinu í morgun fyrir að hafa upplýst um eignarhald hans. Hann ákærir blaðið fyrir að sverta mannorð sitt en reynir þó ítrekað að gera lítið úr fréttaflutningi blaðsins. Hjólar í blaðið vegna þess að það, hjólaði í hann, sagði frá persónulegum staðreyndum um hann.

Grein Steingríms er upplýsandi. Hann segir í lok hennar:

Ég er stoltur af því að hafa í þessu tilviki eins og fleirum reynt að leggja mitt litla af mörkum í þágu atvinnuuppbyggingar á mínum heimaslóðum.

Ekki minnist ég þess að Steingrímur hafi nokkurn tímann komið Halldóri Ásgrímssyni til varnar vegna þess sem hann lagði til í þágu atvinnuuppbyggingar á heimaslóðum sínum. Hefur þó hatramlega verið ráðist á Halldór og alvarlegri brigsl höfð uppi en fram kemur í einföldum fréttaflutningi Morgunblaðsins sem Steingrímur kveinkar sér sárlega undan.

Samherjar Steingríms réðust með offorsi á Halldór og kölluðu hann kvótakóng og sægreifa og öll hans störf á þingi og sem ráðherra miðuðust við að styrkja kvótann í sessi. Steingrímur sat jafnan hjá og lét sér vel líka. Aldrei hélt hann því fram að verið væri að „sverta mannorð“ Halldórs Ásgrímssonar, ekki nefndi hann umræðuna „lágkúruplan“ eða sagði hana hafa „dapurlegan tilgang“.

Auðvitað veit ég minnst um eignarhald þessara tveggja manna í atvinnufyrirtækjum í heimabyggð. Finnst hins vegar ótrúlegt samræmi milli Steingríms og Halldórs.

 


Tifandi tímasprengjan ...

Er nema von að Gunnar hafi ekki fagnað þegar elsta dóttirin tilkynnti að hún ætlaði að byggja upp eigið fyrirtæki strax að loknu prófi í rafmagnsverkfræði? Í huga Gunnars er slíkt fjárhagslegt glapræði. Hann benti dóttur sinni á að öll skynsamleg rök stæðu til þess að fá góða vinnu hjá hinu opinbera. Fá þokkaleg laun og lífeyrisréttindi með ábyrgð launagreiðenda.
 
Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, skrifar sláandi grein í Morgunblaðið í morgun. Í henni segir hann dæmisögu af tveimur mönnum sem ólíkt hafast að.
 
Annar byggir upp fyrirtæki og á í sögulok með eiginkonu sinni eignir upp á 200 milljónir króna. Fyrir vikið þurfa þau að greiða árlega 1,5 milljónir króna í auðlegðarskatt og vegna þess hafa lífeyrisréttindi hans verið skert.
 
Gunnar hefur komist að þeirri niðurstöðu að hann hafi hreinlega ekki efni á því að njóta ævistarfsins á komandi árum, enda treystir hann því ekki að auðlegðarskatturinn sé tímabundinn, eins og lofað hefur verið, eða að fjármagnstekjuskatturinn lækki og miðist við raunávöxtun fjármuna. 
 
Ekki nema von að maðurinn hafi fengið áfall þegar dóttirin tilkynnti að hún ætlaði að fara út í eigin rekstur. 
 
Hinn starfar hjá ríkinu og á eignir í sögulok upp á 100 milljónir króna og 200 milljóna króna lífeyrisréttindir, sem auðvitað eru undanþegin auðlegðarskatti og hann þarf ekki að sætta sig við skert lífeyrisréttindi enda eru þau á ábyrgð ríkissjóðs. Hann getur því sest í helgan stein um sextugt.
 
Niðurstaða Óla Björns Kárasonar er því þessi: 
 
Ekki reyna að standa á eigin fótum. Slíkt sýnir lítil hyggindi. Veljið fremur öryggið hjá Stóra-Bróður. 
 
Þessu til viðbótar má nefna lífeyisskuldbindar ríkissjóðs sem eru 400 milljarðar og eftir 2020 verður hann að greiða tugi milljarða á ári til að standa við skuldbindingar sínar. Þetta segir Óli Björn réttilega að sé tifandi tímasprengja. Og ekkert er gert í málinu ...
 

Lokaður eða sagður lokaður

Lokaður vegur

Er ekki dálítið mikið um að útlendir ferðamenn festi bíla sína innan eða utan lokaðra vega eða þá í ám upp á síðkastið? Sé svo má draga þá ályktun að ekki nægi að prenta einhver boð um að hinir og þessir vegir séu lokaðir og láta duga til viðbótar að setja upp keðju og skilti þar sem stendur „LOKAГ.

Oft þarf ekki annað en að aka nokkra metra utan vega framhjá þessari hindrun og halda síðan áfram ferð sinni. 

Lokaður vegur á að vera lokaður, ekki sagður lokaður. Þetta hlýtur að liggja í augum uppi.

Lokaður vegur2

Einu myndirnar sem ég á af lokuðum vegi eru meðfylgjandi. Sú fyrri var tekin á veginum norðan undir Eyjafjallajökli í maí 2010, það er inn í Þórsmörk og Goðaland, svokölluð Þórsmerkurleið. Plastborðarnir dugðu lítið, timburverkið hægra megin á myndinni fauk og hver sem er gat ekið inneftir enda vegurinn ekki ófær nema við Gígjökul og þangað fór ég. Þessi lokun var alls ekki til fyrirmyndar.

Seinni myndin er tekin aðeins innar á sama vegi. Þarna er búið að setja upp girðingu og öflugt plast og síðan keðju við skiltið. Held að hvergi hafi verið skilti með áletruninni „LOKAГ enda kannski skilaboðin flestum ljós. Ég og félagar mínir komu hins vegar akandi úr Básum eftir að hafa gengið yfir Fimmvörðuháls rétt eftir miðjan maí 2010. Löggan þurfti að koma til að opna fyrir okkur sem hún fúslega gerði. Hugsanlega var þessi lokun hafi verið skárri en sú fyrri.

Svo er það allt annað mál að með einbeittum brotavilja er allt mögulegt. 


mbl.is Ferðamenn fastir í á
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hversu fjarri getur nærri verið

VÉLARVANAÍ frétt á visir.is segir í fyrirsögn „Vélarvana bátur nærri Kvískerjum í öræfum.“ Og í meginmáli segir að báturinn hafi verið 40 til 50 sjómílur frá Kvískerjum.

Hafi báturinn verið nærri Kvískerjum má gera ráð fyrir að hann hafi verið á landi. Mig minnir að sjómílan sé 1,8 km og því var hann meira en 74 km frá bænum. Hafi Halfdán Björnsson litið út um gluggann hefði hann áreiðanlega ekki getað greint bátinn því síst af öllu var hann nærri.

Línan á meðfylgjandi korti Samsýnar frá Kvískerjum og út á haf mælist um 74 kílómetrar.

Svona gerist nú ef blaðamenn eru fljótfærnir, sem getur nú hent alla, en verra er ef skortur er á þekkingu. Hvort tveggja má þó laga, þó varla með lyfjagjöf.

Vélarvana 2

Víða eru öræfi á Íslandi, jafnvel reginöræfi. Aðeins eitt landsvæði nefnist þó Öræfi og er nafnið því ritað með stórum staf.

PS: Breytti fyrirsögninni, held að hún sé betri svona. 


Skiptimynt fyrir stjórnarsetu

Ég sat á þingi fyrir sjávarútvegsbyggðirnar á Norð-Austurlandi og síðar á Austfjörðum frá 1971 til 2007, fyrst sem varaþingmaður en síðan kjörinn þingmaður. Allan þennan tíma lagði ég upp úr því að heimsækja byggðarlögin og hlusta á það sem þar var sagt um atvinnuhorfur og afkomu fyrirtækjanna á staðnum. Og það virtist mér Steingrímur J. Sigfússon gera líka. En nú er ég orðinn gamall og það eru breyttir tímar. Afkoma sjávarútvegsins er orðin að skiptimynt til að sitja út kjörtímabilið og Steingrímur J. Sigfússon hefur keypt sér eyrnaskjól. Jóhanna Sigurðardóttir þurfti ekki að gera það, – hún hefur alltaf átt þau. Og þeir sem búa í sjávarútvegsbyggðunum á Norður- og Austurlandi eiga sér engan þingmann í stjórnarliðinu, sem á þá hlustar. Þá er aðeins að finna í röðum stjórnarandstæðinga, í Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.
 
Svo skrifar sá mæti maður Halldór Blöndal, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, í grein í Morgunblaðinu í morgun. Gagnrýni hans virðist hógvær en á milli línanna er hörð gagnrýni á starfshætti ríkisstjórnarinnar sem hlustar ekki á byggðarlögin, skiptir sér ekki af atvinnuhorfum, lítur ekki til afkomu fyrirtækjanna og formenn stjórnarflokkanna líta undan og gæta þess að svara ekki gagnrýni. Og sjávarútvegurinn er orðinn svo ómerkilegur að hennar mati að hann er aðeins skiptimynt til að ná því að sitja út kjörtímabilið.
 
Halldór Blöndal fer engu að síður með staðlausa stafi þegar hann segist gamall. Hann er ekki hótinu eldri en þegar hann sat á þingi, skiptir engu þó árin færast yfir. Skynsemi og rökvísi er ekki bundin aldur, þó mikil reynsla sé gulls ígildi. Hollt er að hlusta á þann mann sem nú er kominn á hliðarlínuna og tjáir sig um samtímann. 

Vegið að tjáningarfrelsinu

Þetta fólk átti ekki erindi við Reykvíkinga, heldur Alþing sitt og ríkisstjórn, sem hefur aðsetur sitt á þessum útnára siðmenningarinnar, en þegar það ætlaði að bera upp erindi sitt sótti að því hópur innfæddra, með ópum, hrópum og svívirðingum. Greinilega var tilgangurinn sá, að svipta þetta aðkomufólk tjáningarfrelsi sínu, og rétti þess til að kynna Alþingi á málefnalegan hátt mótmæli sín. 
 
Austurvöllur
Reykvíkingurinn Kristján Hall skrifar ofangreint í grein í Morgunblaðinu í morgun. Hann ræðir um fund sem haldinn var síðasta fimmtudag á Austurvelli og var á vegum LÍU og fleiri aðila. 
 
Við þessi orð Kristjáns þarf ekkert að bæta annað en að flestum ofbauð ruddamennska um 100 manna sem réðust inn á 1500 til 2000 manna fund og reyndi með ósvífnum hætti að takmarka málfrelsi ræðumanna og fundarmanna. Þessu liði tókst með hávaða og látum að skemma fund enda er það takmarkið að ein skoðun ríki, skoðun ríkisstjórnarinnar.
 
Meðfylgjandi mynd var tekin á Austurvelli. Obeldisfólkið með skiltin reyndi hvað það gat til að komast að ræðupallinum til þess að meina öðrum að geta fylgst með.
 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband