Bloggfærslur mánaðarins, desember 2012

Fallegir siðir um jól

Dagurinn er búin að vera fallegur í Reykjavík. Veðrið er milt og kyrrt og svo virðist sem jólin læðist inn hægt og hljótt. 

Við feðgar, Bjarki og ég, höfum verið á ferðinni um bæinn síðustu stundirnar. Útréttað og gengið frá því sem þarf að klára. Fórum í hádeginu til mágkonu minnar, Helgu Sveinsdóttur, ekkju Sigfinns, bróður míns. Hún fær jafnan til sín gott fólk og býður upp á möndlugraut, alveg fáránlega góðan. Hefðin hefur breyst á undanförnum árum. Maður ólst upp við heitan grjónagraut sem forrétt á aðfangadagskvöld og í honum faldi mamma möndluna. Þegar ég fór að búa hélt ég þessum sið í mörg ár.

Aðfangadagskveldi eyðum við feðgar að venju hjá Grétari syni mínum, Sonju konu hans og börnunum fjórum, Írisi, Rakel, Unni og Vilhelm. Get ekki hugsað mér neitt betra.

Bjarki hefur verið við nám í Hollandi undanfarin ár og þangað fer hann aftur milli jóla og nýjárs og hittir þar sambýliskonu sína, hana Önnu.

Heiðrún dóttir mín býr í Noregi ásamt Sigmari Ólfjörð Kárasyni, sambýlismanni sínum. Fékk að vita það rétt fyrir jól að hún er kona eigi einsömul og væntir sín líklega í maí. Þetta var besta jólagjöfin að þessu sinni.

Og nú rölti ég inn í rökkrið, fer út í kirkjugarð og kveiki á kertum á leiði foreldra minna. Finnst þetta alltaf fallegur siður.

Óska lesendum mínum gleðilegra jóla. 


Stjórnvöld gjörsamlega niðurlægð ...

Rúmlega viku niðurlægingartímabili lögreglu og fangelsisstofnunar er að hluta til lokið. Strokufanginn kom af sjálfsdáðum í leitirnar en ekki vegna þess að hann fannst.

Í ljós kom að maðurinn var vel klæddur og hann hafði skotvopn í fórum sínum. Ástæða er til þess að velta því fyrir sér hvernig hann komst yfir allt þetta. Fékk hann aðstoð eða tók hann þetta ófrjálsri hendi. 

Það verður að segjast eins og er að það er alsendis óásættanlegt að fangi strjúki. Menn geta ekki tekið þessu létt og látið eins og allt eigi núna að falla í ljúfa löð. Þannig gerast ekki kaupin á eyrinni ef svo má að orði komast.

Fyrir það fyrsta þarf að rannsaka hvernig fanginn komst úr fangelsinu og hvers vegna hans var ekki saknað fyrr en tæpum tveimur tímum síðar. Í annan stað verður að finna út hvers vegna eftirlitsmyndavélar eru bilaðar og hvort það sé algengt á Litla-Hrauni. Í þriðja lagi verður að upplýsa hverjir beri hina raunverulegu ábyrgð á því að maður geti einfaldlega strokið úr fangelsinu að Litla-Hrauni og í hverju sú ábyrgð er fólgin. Og síðast en ekki síst verður að komast að því hvers vegna lögreglan fann ekki strokufangann þrátt fyrir mikla og dýra leit.

Viðeigandi embætti þurfa að gera hreint fyrir sínum dyrum. Fyrr lýkur ekki niðurlægingu þeirra.


mbl.is Gaf sig fram vegna mömmu sinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ónýtur matur úr prýðilegu hráefni

Næsta kynslóð át þennan mat eingöngu af gömlum vana, þótt hún væri komin bæði með ísskáp og frystikistu auk varasjóðs í ístru sem reyndi á þolmörk vestistalnanna hvern einasta dag.

En sá hluti 68 kynslóðarinnar sem lifði af, þrátt fyrir bítlaæði, rollinga og Dylan, LSD og hið sérstaka tóbaksafbrigði tímabilsins, getur nú leyft sér í upplýstri umræðu manneldisráðs að slá sér upp í gamla matnum tvívegis á ári. Annars vegar pínulítið um jól og svo aftur á þorra þegar snjöllum matargerðarmönnum og sprenglærðum hefur tekist að búa til ónýtan mat úr prýðilegu hráefni til að gera landanum kleift að gera sér glaðan dag.

Þess á milli borðar hinn upplýsti íslenski nútímamaður ekki annað en það sem Matvælastofnun Bandaríkjanna, Matvælastofnun ESB og svo á annan tug íslenskra matvæla-, eftirlits- og hollustustofnana hefur sagt þeim að megi.

Þetta er úr Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins þessa helgina (greinaskil og feitletranir eru mínar). Þetta er hvöss ádeila á nútímann, samfélagið sem við höfum komið okkur upp í velsældinni. Og þar að auki afar vel að orði komist.

Við erum mörg hver með frystikistu auka varasjóðs í ístru. Síðan sláum við okkur upp um jól og þorra með því að slafra í okkur ónýtan mat sem þó var gerður úr prýðilegu hráefni. Hér er greinilega átt við hina ógeðslegu skötu (eða rass-skötu sem sumir nefna svo vegna fnyks) og útmigins hákarls.

Mikið óskaplega er ég sammála. 


Farsæll stjórnandi að engu metinn hjá FME

Lítil frétt á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu á laugardaginn vakti athygli mína. Sagt er þar frá Sigurði Jóhannessyni, stjórnarmanni Stapa lífeyrissjóðs, sem Fjármálaeftirlitið taldi ekki nægilega hæfan og rak úr stjórninni. Ennfremur kemur fram að í tilkynningu Samtaka atvinnulífsins að Sigurður hafi verið í varastjórn og samtökin telji hann fullkomlega hæfan til stjórnarsetu.

Sigurður Jóhannesson sat í aðalstjórn lífeyrissjóðsins Stapa en í maí síðast liðinn hætti hann sem stjórnarmaður en var þess í stað kjörinn sem varamaður í stjórn.  

Mér finnst þetta mál kalla á dálitla skoðun. Hvernig getur það verið að Fjármálaeftirlitið hafi vikið manni úr stjórn lífeyrissjóðs þegar sá sat í raun og veru í varastjórn. Menn í varastjórn hafa hingað til ekki þurft að gangast undir hæfismat og því engar forsendur til að reka þann sem þar situr vegna forsendna sem gerðar eru til stjórnarmanna.

Svo er það hitt sem er jafnvel enn áhugaverðara. Sigurður Jóhannesson er framkvæmdastjóri SAH afurða ehf. á Blönduósi sem er sláturhús og kjötvinnsla og veltir tæplega tveimur milljörðum króna á ári. Þar hefur Sigurður verið við stjórnvölinn í nærri tuttugu ár og er þar af leiðandi að vera kominn með margvíslega reynslu og þekkingu í fjármálum hald er í, jafnvel fyrir lífeyrissjóð. Annars væri hann í öðrum störfum.

Fjármálaeftirlitið gerir slíkar kröfur að reyndur stjórnandi stórfyrirtækis er talinn óhæfur. Hvernig getur það verið? Gæti verið að vandinn liggi í hæfnisprófinu sem slíku, það geri óhæfilegar kröfur um bóklega þekkingu á fjármálalegum skilgreiningum á erlendum málum en leggi minna úr almennri skynsemi og reynslu í rekstri og fjármálum? Er fjármálavit ekki þekking?

Nú verður því eflaust svarað á þann veg að lagt er samskonar próf fyrir alla og niðurstaðan sé einhlít, þeir sem ekki ná tilskyldum árangri, skiptir engu á hvaða sviðum prófsins, þeir falla. Þeim er boðið að taka prófið aftur og samkvæmt upplýsingum FME ná flestir prófinu í annað sinn. Hins vegar hefur enginn varamaður í stjórn lífeyrissjóð hingað til verið kallaður í prófið, aðeins Sigurður Jóhannesson. Og enginn varamaður hefur verið með valdi settur úr varastjórn, nema Sigurður Jóhannesson. FME svara engum spurningum um þetta.

Þegar öllu er á botninn hvolft er fer ekki hjá því að menn velti því fyrir sér hvort það sé einhver ástæða til þess fyrir fólk að gefa kost á sér í stjórnir lífeyrissjóða. Svo strangar og jafnvel óeðlilegar reglur gilda um hæfi að vart er við því að búast að reynt og gott rekstrarfólk gefi kost á sér. Þar að auki eru laun fyrir stjórnarsetu ekki slík að þau heill neinn.

Fyrir vikið er líklegast að þurrð verði á fólki með góða stjórnunarreynslu úr viðskiptalífinu í stjórnum lífeyrissjóða og tímabil reynsluminna fólks taki við, fólk sem tileinkar sér réttu svörin en því miður er ekki spurt um skynsemina.


Til hamingju, Hornfirðingar

P0005651

Árangur íþróttaliða frá landsbyggðinni vekja alltaf athygli og varla er hægt að hugsa sér jákvæðari auglýsingu fyrir sveitarfélag en þróttmiklir íþróttamenn á öllum aldri sem sameinast í að láta að sér kveða, hver í sinni grein.

Að mörgu leyti standa Hornfirðingar framar öðrum landsmönnum. Nefna má að óvíða er fegurri fjallasýn en frá Höfn, nema ef vera skyldi frá öðrum stöðum í Austur-Skaftafellssýslu. Þarna gleður allt augað. Veðráttan þarna er með afbrigðum góð.

Nú, og svo má nefna að íbúarnir eru einstaklega gott fólk. Það get ég borið vitni um eftir að hafa búið á Höfn í nokkur ár og kynnst fjölda manns, allt frá Skaftafelli í vestri og yfir til Lóns í austri. 

Dugnaði þessa fólks er viðbrugðið. Sést best á fjölhæfni atvinnulífsins, styrk sjávarútvegs, lífvænlegri ferðaþjónustu, blómlegum landbúnaði og jafnvel er þarna iðnaður og hátækniiðnaður.

Samfélagsleg ábyrgð er mikil. Skinney-Þinganes ákvað að gefa þessu góða samfélagi íþróttahús sem verður vígt í dag. Þetta er stórkostleg gjöf. Með þessu segir fyrirtækið einfaldlega: Við þrífumst ekki nema samfélagið sé gott og við leggjum okkar til að fólki geti liðið vel.

Þess vegna er ástæða til að fagna með Hornfirðingum og óska þeim til hamingju með nýja íþróttahúsið. Framar öllu ber þó að taka ofan fyrir Skinney-Þinganesi. Fordæmi þeirra er mikið og vonandi öðrum fyrirtækjum til eftirbreytni. 

Ég er þess fullviss að eftir nokkur ár verður Sindri kominn með fótboltalið í efstu deild og í frjálsum íþróttum munu fjölmargir Hornfirðingar láta að sér kveða. 


mbl.is Hornfirðingar fá veglega jólagjöf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Strokufangi gefur yfirvöldum langt nef

Sagan af strokufanganum frá Litla-Hrauni er öll hin athyglisverðasta. Fyrir það fyrsta er hann ekki eins og fangar eru flestir, fer ekki í sukkið í Reykjavík þar sem margir aðrir strokufangar hafa fundist. Hann hverfur einfaldlega af yfirborði jarðar.

  1. Myndavélar á útisvæðinu eru bilaðar, engin skýring komin á því né hvort fanginn hafi vitað af því eða skemmt þær sjálfur
  2. Hann klifrar yfir girðingu sem er þar með ómannheld
  3. Fangans er ekki saknað í tæpa tvo klukkutíma
  4. Hans er ekki leitað fyrr en þremur dögum eftir flóttann
  5. Á fjórða degi er leitað innan fangelsisins
  6. Sagt er að hann hafi týnt húfu sem passar ekki við yfirvegaðar ferðir mannsins
  7. Fullyrt að spor hafi fundist eftir fangann, en það er óstaðfest
  8. Í fyrstu héldu stjórnvöld að hann hefði farið á puttanum í menninguna en enginn virðist vita til þess
  9. Leitin þremur dögum eftir flóttann miðast við að hann liggi úti, viljandi eða óviljandi
  10. Kunningjar mannsins eru handteknir en síðan sleppt
  11. Ekkert nema óstaðfestar fréttir um strokufangann víða um land

Allt þetta mál bendir til að strokufanginn hafi skipulagt flóttann, hafi vitorðsmenn utan múranna. Hann virðist vera afar klár og skipulagður. Aftur á móti gerir málið allt Litla-Hraun, fangelsismálastofnun og lögreglu einfaldlega hlægileg. Engar líkar en lögreglumenn Spaugstofunnar, Grani og Gráni, séu þarna við stjórn, slík eru handarbaksvinnubrögðin.

Í ljósi þess að strokufanginn er skynsamur og yfirvegaður. Hefnd er ekki að finna hjá honum enda finnst hann hvergi þar sem hann ætti að hafa látið sjá sig. Hann er með fá tengsl og það bendir til þess að hann kaupi sér aðstoð.

Allt bendir til að maðurinn ætli sér að komast út úr landinu, ef til vill er hann löngu farinn, og yfirvöld orðin að aðhlátursefni.

Hvar skyldi ábyrgðin liggja? Hjá fangelsisstjóra á Litla-Hrauni, hjá forstjóra fangelsismálastofnunar, lögreglunni, innanríkisráðherra ...? 


mbl.is Handteknir í tengslum við flóttann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björn Valur í fýlu við Moggann

Björn Valur telur ekki að afhroð flokksins og hans sjálfs hafi neitt að gera með svik í ESB-málinu, framgöngu í Icesave, gjöf á tveimur bönkum til háskalegustu hákarlasjóða heimsins, svo fátt eitt sé nefnt og öðru sleppt, eins og meðferðinni á sparisjóðakerfinu.
 
Þetta er allt öðrum að kenna, þessum:
 
Þú getur flett Morgunblaðinu langt aftur í tímann og þú finnur enga gagnrýna forsíðufrétt um neitt annað en núverandi stjórnvöld. Þú stendur aldrei öðruvísi upp frá Morgunblaðinu en dæsandi og tautandi um að þetta sé nú meira ástandið! Ég er sjálfur löngu hættur að tala við Morgunblaðið, ég hef allt annað og betra með tímann að gera en ræða við þá og vil helst ekki sjá nafn mitt á síðum blaðsins.
 
Ofangreint er úr Staksteinum, þeim stórskemmtilega dálki Morgunblaðsins, í dag. Og eftir að höfundur hefur vitnað til ofangreindra orða Björns Vals Gíslasonar, fráfarandi alþingismanns Vinstri grænna og burtfarinn formann þingflokksins, spyr hann einfaldrar spurningar: 

Hvernig fara menn að þegar Björn Valur talar ekki við þá?
 
Og þá hló ég rosalega enda liggur svarið í augum uppi ... 

Eftirsjá af Lilju

Pólitískt er ég ekki ósammála Lilju Mósesdóttur, þingmanni, í afar mörgu, en ég virði hana mikils. Ég held að hún sé hugsjónamaður og eldhugi. Við þurfum slíkt fólk á þingi.

Hún hefur sýnst vera dugandi baráttumaður gegn óréttlæti og henni var stórlega misboðið í flokki Vinstri grænna sem sveik grundvallarloforð sem hann hafði gefið almenning í landinu. Í kjölfarið yfirgaf hún flokkinn og það var mikinn kjark til slíks.

Mér þótti það léleg pólitík hjá Lilju að gefa ekki kost á sér sem formann í þeim flokki er hún stofnaði. Fyrir vikið virðist hann vera að hjaðna niður. Gefi hún ekki kost á sér í næstu kosningum er ég sannfærður um að hann nái ekki því flugi sem hann þarf til að koma inn þingmanni. Aðrir innan flokksins eru einfaldlega ekki nógu þekkir og hafa ekki þá aðstöðu til að geta vakið athygli. Það getur sitjandi þingmaður eins og Lilja. 


mbl.is Gefur ekki kost á sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samráð um fiskveiðistjórnarfrumvarpið?

Eftir þriggja ára samráð með aðilum í sjávarútvegi , launþegahreyfingunni og öðrum þeim sem að greininni koma,  er það skylda Alþingis og ríkisstjórnar að leiða málið nú til lykta á grundvelli fyrirheita sem stjórnarflokkarnir hafa fengið lýðræðislegt umboð til að hrinda í framkvæmd. 

Hverju hefur þriggja ára samráð skilað í frumvarpi ríkisstjórnarmeirihlutans um fiskveiðistjórnunina? Hvort er orðið „samráð“ til málamynda eða á það aðeins við um samskipti milli stjórnarflokkanna?

Veit einhver hvort samráð hafi verið haft við einhverja aðra?


mbl.is „Nú er tækifærið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru örlög Björns Vals eitthvað vandamál?

í stjórnmálaflokkum eru sumir leiðtogar, aðrir eru fótgönguliðar og enn aðrir eru einfaldlega minnipokamenn. Þeir eru ábyggilega afar fáir. Þeim síðastnefndu gengur alltaf best í meðbyr. Í mótbyr er allt slæmt og í sárindum sínum kenna þeir öðrum um ófarir sínar.

Björn Valur Gíslason, fráfarandi þingmaður Vinstri grænna, fyrrum formaður þingsflokksins, kvartar sárlega yfir kynjareglu flokksins síns. Það gerði hann ekki fyrir prófkjörið sem hann fór svo hraklega úr.

Svona eftiráséð er afar ómarktækt að kvarta undan prófkjörsreglum. Undir þær gengst hann og fær ekki nægan stuðning. Eftir það eiga menn bara að þegja og bera harm sinn í hljóði. En nei, hann grætur opinberlega, kvartar undan flokknum sínum. Það hafa fleiri gert og út af alvarlegri málum en Björn Valur hefur út á hann að setja.

Þingmenn yfirgefa Vinstri græna vegna svika flokksforystunnar, Björn Valur er einn hinna útvöldu. Almenningur ætlar ekki að kjósa Vinstri græna vegna þess að flokkurinn hefur svikið kosningaloforð sín og ríkisstjórnin sem hann stendur að er slæm. 

í ljósi þess að Vinstri grænir eru að leiða Ísland inn í Evrópusambandið verður umkvörtunarefni Björns Vals afar lítið og ómerkilegt. Enginn yfirgefur þó flokkinn vegna þess að kynjakvótareglurnar fóru illa með manninn. Er ekki annars flestum sama þó svona hafi farið?


mbl.is Gagnrýnir kynjareglu VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband