Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

Hetjur þjóðarinnar

Svona gæti ég haldið áfram. Hvar sem ég fer verður á vegi mínum gott, harðduglegt alþýðufólk sem vill vel. Þess vegna er svo óendanlega dapurlegt að skrípafólkið fái alla þá athygli sem raun ber vitni. Ég vona að breyting verði þar á.

Svona skrifar Sigurður Bogi Sævarsson, blaðamaður á Morgunblaðinu í blaðið sitt í morgun. Í henni rekur ann nokkur dæmi um fólk sem sinnir sinni vinnu, verir það vel og af ástríðu. Sjómaðurinn, flugmaðurinn, brúargerðarmennirnir og heilbrigðisstarfsfólkið.

Hann segir það vera alþýðufólk landsins, ég vil kalla það hetjur þjóðarinnar. Almenningur þessa lands sem gengur dag hvern til vinnu sinnar, klárar verkefni sín og heldur að kvöldi heim í faðm fjölskyldunnar. Skiptir engu þó kreppa ríki eða einhver önnur óáran, jafnvel mannfjandsamleg ríkisstjórn.

Góð grein hjá Sigurði Boga, vel skrifuð og þrungin tilfinningu. 

 


Langá á Snæfellsnesi eða Langavatn?

AA vötn

Hafi lögreglan úr Borganesi farið á vettvang slyssins er líklegt að um sé að ræða Langá á Mýrum. Þangað eru líklega um sex kílómetrar. Í fljótu bragði man ég ekki eftir neinni Langá á Snæfellsnesi.

Langavatn er þó til á Snæfellsnesi. Ofan við Ölduhrygg eru mörg afskaplega falleg vötn og í þeim er veiði. Myndin hér til hliðar er líklega ekki af Langavatni, kannski eru þetta Garðar en vatnið man ég ekki hvað heitir.

Niðurstaðan er engu að síður sú að landafræðin er enn að flækjast fyrir einhverjum blaðamönnum á mbl.is. 


mbl.is Bílvelta við Langá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Egilssel er langt frá Fljótsdalsheiði

MYND004

Fljótsdalsheiði hélt ég að væri milli Fljótsdals og Jökuldals. Ég man í augnablikinu bara eftir einu Egilsseli og það er skáli við Kollumúlavatn í Lónsöræfum. Þangað er umtalsverður spölur frá Fljótsdalsheiði.

Margir hafa gengið skemmtilega leið frá Snæfelli, yfir Eyjabakkajökul og niður með Geldingafelli og allt að Kollumúla. Þar er vinsæll áfangastaður, góðir skálar, einstaklega fallegt landslag, margt að sjá og gaman að koma.

Hérna er um tólf ára gömlar, en illa skannaðar, myndir frá Egilsselsskála (Hans Petersen að kenna, ekki mér).

MYND007

Seinni myndin er tekin í nokkurri fjarlægð frá Kollumúlavatni og má sjá skálann neðarlega fyrir miðri mynd.

Að lokum er ekki úr vegi að biðja Morgunblaðið um að sjá svo til að landakort af Íslandi séu blaðamönnum til brúks og ekki síður að þeir kunni að nota þau. Það er ekki skammlaust ef virðulegur fjölmiðill fer sí og æ með fleipur í landafræðinni.


mbl.is Mennirnir fundnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin stendur sig býsna vel - eða hvað?

Fjármálaráðherra hreykir sér af stöðu ríkisfjármála í grein í Fréttablaðinu í dag. Hann fer með himinskautum og ætlast eðlilega til að við hin tökum undir og hælum honum og ríkisstjórninni fyrir vel unnin störf. Staðreynd mála er hins vegar sú að fjölmargt hefur ríkisstjórnin gert vel. Dæmin eru nokkur og þessi þau helstu samkvæmt grein Steingríms:

  • Fjárlög næsta árs gera ráð fyrir „aðeins“ 20 milljarða króna halla, 1,6% af vergri þjóðarframleiðslu
  • Ríkisfjármálin eru nærri því komin á sjálfbæran grunn
  • Kjarasamningar hafa náðs um talsverðar launahækkanir á næstu árum 
  • Hækkanir eru umtalsverðar á lífeyri, örorku- og atvinnuleysisbótum
  • Lágmarkstrygging tekjulausra hækka
  • Grunnatvinnuleysisbætur hækka
  • Hækkanir á endurhæfingarlífeyri, barnalífeyri, uppbót á lífeyri og sérstakri uppbót til framfærslu, vasapeningum og örorkustyrk
  • Hækkanir á mæðra- og feðralaun, umönnunargreiðslur, maka- og umönnunarbætur, barnalífeyri vegna menntunar, dánarbætur, foreldragreiðslur, fæðingarstyrk og ættleiðingarstyrki

Steingrímur leggur áherslu á að þetta komi fram. Hann telur ríkisstjórnina hafa lagt „lagt ríka áherslu á að verja velferðarsamfélagið“ á kerfisbundinn hátt. Og hann heldur því fram með rökum að efnahagsbatinn sé mikill:

Efnahagsbatinn á fyrstu níu mánuðum ársins var sterkari en bjartsýnustu greiningaraðilar þorðu að spá. Í nóvember á síðasta ári var gert ráð fyrir hagvexti upp á 2% fyrir árið 2011 en nýjustu tölur Hagstofunnar benda til að hann hafi orðið 3,7% á fyrstu níu mánuðum ársins. Á milli annars og þriðja ársfjórðungs er vöxturinn nær ævintýralegur eða upp á 4,7%. Til að setja þessa tölu í samhengi þá er vöxturinn á þriðja ársfjórðungi innan ríkja ESB að meðaltali 0,3% og mesti hagvöxtur meðal þeirra mældist hjá Rúmeníu upp á 1,8%. 

Að sjálfsögðu ber að virða árangur ríkisstjórnarinnar. Hann er talsverður. Hins vegar spyr ég hverjir eru haldnir bölmóðinum, svartsýninni og sundurlyndisfjandanum? Eru það menn eins og ég sem kvarta yfir stöðu þjóðarinnar og ekki sé nóg að gert til að koma hjólum atvinnulífsins í gang eða eru það þeir sem segja að ekkert sé í raun hægt að gera umfram það sem ríkisstjórnin gerir?

Atvinnuleysi 

  • 11.844 einstaklingar voru atvinnulausir í lok október 201, 6,8% þjóðarinnar, og þeim hefur líklega farið fjölgandi í nóvember
  • Á Suðurnesjum eru 11,5% íbúa atvinnulausir
  • Á höfuðborgarsvæðinu eru 7,7% atvinnulausir

Landflótti

Frá upphafi árs 2009 hafa um 6.000 manns flutt úr landi.

Skuldavandi heimilanna

  • Á þessu ári eru skuldir 59 þúsund fjölskyldna meiri en eignir þeirra.
  • Samkvæmt samantekt Creditinfo á 9,4% landsmanna í alvarlegum vanskilum með lán sín.

Rekstrarvandi atvinnulífsins

  • Viðskiptalífið í landinu hefur haldið áfram þrátt fyrir hrunið og þrátt fyrir aðgerðir ríkisstjórnarinnar.
  • Fyrirtækin standa þó höllum fæti, ekki aðeins vegna skattastefnunnar heldur líka vegna þess að þau eiga mörg hver í miklum samkeppnisvanda við þau fyrirtæki sem bankarnir tóku yfir og „hreinsuðu“.

Kjarasamningar

Así ályktaði eftirfarandi fyrir nokkrum dögum:

Áform ríkisstjórnarinnar um að skerða hækkun bóta almannatrygginga (og atvinnuleysistrygginga) og álögur á lífeyrissjóðina til að fjármagna umboðsmann skuldara, sérstakar vaxtabætur og almenna skattlagningu á launakostnað lífeyrissjóðanna eru klárt brot á þeim fyrirheitum sem ríkisstjórnin gaf við gerð kjarasamninga og þeim forsendum sem þeir byggja á. Verði þau að veruleika munu lífeyrissjóðir almenns launafólks þurfa að skerða lífeyrisréttindi sinna sjóðsfélaga og auka þar með enn frekar á þann mun sem á lífeyrisréttindum milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins.  

Hagvöxtur

Samkvæmt Hagstofunni byggist hagvöxtur ársins einkaneyslu sem byggðist á útgreiðslu viðbótarlífeyrissparnaðar og launahækkunum. Hið fyrrnefnda er nú hætt og deilt er um hið síðarnefnda, hvort atvinnulífið hafi haft efni á þessum launahækknum. 

  • Hafa háir skattar hafi ekki áhrif á einkaneysluna? Er ekki sjálfgefið að lágir skattar breikki tekjuskattsstofninn?
  • Jafnvel framtíðaspár um hagvöxt byggja ekki síst á stóriðjuframkvæmdum og tengdum verkefnum. Eitthvað virðist tefja þær.

Hurru Steingrímur,

Bestu þakkir fyrir að halda bókhaldi ríkisins í lagi, sinna daglegum rekstri ráðuneytisins, víkja úr vegi fyrir þeim sem þrífa, brjóta ekki niður móralinn í ráðuneytinu, gegna störfum þínum eins og þú varst kosinn til, synja ekki öllum beiðnum um hækkanir og að reyna að lækka hallann á ríkissjóði.

Hitt hefur ríkisstjórnin vanrækt og það er að koma með frambærilega pólitík sem dugar gegn afleiðingum kreppunnar. Það sem ég hef nefnt hérna er til marks um að ríkisstjórnin hefur ekki staðið sig í þeim málaflokkum sem raunverulega brenna á þjóðinni. Reyndu að halda því fram að „sjálfbær grunnur“ fjárlaga skipti þann einhverju máli sem misst hefur íbúðina sína vegna verðtryggingarinnar.

 

 


Skelleggur andstæðingur ESB

Ef þessi samningur væri lagður undir þjóðaratkvæði í Grikklandi, Spáni, Portúgal, Írlandi myndu honum verða hafnað. Ástæðan er sú að það væri betra fyrir þessar þjóðir að fá aftur gömlu gjaldmiðlana sína og geta fellt gengi þeirra. Aðeins þá ættu þessar þjóðir möguleika á að leysa vandamál sín. Lögþing þessara þjóða eru núna í efnahagslegu fangelsi Evrunnar og lýðræðið hefur verið tekið af þeim og ég óttaast að sá órói sem átt hefur sér stað á götum Grikklands muni breiðast út.

Þetta sagði hinn skelleggi andstæðingur ESB í Bretlandi, Nigel Farage í viðtali í sjónvarpi í morgun, http://www.ukip.org/content/latest-news/2563-real-eu-debate-is-just-beginning. Hann hefur ekki nokkra trú á að hægt sé að leysa Evru-vandann. Og honum finnst undarlegt að ESB geti komið því til leiðar að lýðræðislegum ríkisstjórnum í Grikkalandi og Ítalíu segi af sér og við ráðherraembættum taki fólk sem hefur ekki nokkurn einasta lýðræðislegan bagrunn eða stuðning.

Farage situr á Evrópuþinginu og hefur þar augliti til auglitis staðið upp í hárinu á kommissörum ESB. hann er einstaklega vel mælskur og hagar orðum sínum á þann hátt að eftir er tekið. Fyrir vikið er hann ekki vinsælasti maðurinn í Brussel en eflaust er það staðreynd að nákvæmlega á þessari stundu hefur David Cameron orðið óvinsælli fyrir að halda fram hagsmunum Breta í Evrukrísunni. Og hver skyldi vera skoðun Nigel Farage á frammistöðu forsætisráðherrans?:

It is tempting to say well done David Cameron for standing up for British interests, but then we realise that he has actually gained nothing.

Og Farrage er ekki í vafa hvert atburðir gærdagsins muni leiða:

The same is true on the European debate - expect in the coming weeks and months for there to be an overwhelming demand in Britain for an in/out referendum.

Mikið óskaplega gæti nú verið skemmtilegt að fá Farage hingað til lands, en hann er formaður Sjálfstæðisflokksins í Bretlandi. Eflaust gæti hann sagt okkur sitthvað um aðlögunarviðræður Íslandinga við ESB.  Að minnsta kosti hefur hann ekki mikið álit á aðild Króatíu að ESB en hún gekk í gildi í dag.

Croatia is to sign the EU accession document in 45 minutes. They must be off their chump. 


mbl.is „Cameron er óvinsælli en ég“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Katla í austurhlíðum Mýrdalsjökuls?

aa kötlumyndavél

Ríkisútvarpið segir frá því að stofnunin hafi fengið tölvupóst utan úr heimi vegna ljósagangs „undir rótum Mýrdalsjökuls“. Spurst var „hvort hraun væri byrjað að renna niður hlíðarnar og að Katla væri byrjuð að gjósa.“

Ástæðan fyrir ljósaganginum var þó aðeins sú að þar voru kvikmyndagerðarmenn að vinna við tökur á sjónvarpsröðinni „Games of Thrones“.

Mér þykir nú frekar undarlegt að orða fréttina svo að ljósagangurinn væri „undir rótum Mýrdalsjökuls“.

Matthías Jochumsson spurði einhvern tímann Árna Pálsson í hálkæringi hvort hann vissi hversu þung Esjan væri. Árni svaraði snubbótt að Matthías ætti nú að vita það, hann byggi undir henni! Matthías var þá prestur á Kjalarnesi.

Líklega hefði ástandið á Matthíasi verið verra hefði hann búið undir rótum fjallsins.

Menn geta vissulega búið undir fjalli en varla undir rótum fjalls. Þó hafa flestir komið að rótum Esjunnar og fjölmargir gengið upp.

Auðvitað kíkti ég á vefmyndavél Ríkisútvarpsins sem er uppi á Háfelli, fjalli skammt norðan við brúna yfir Höfðabrekkukvísl. Þar mátti greinilega sjá ljósglampa á Höfðabrekkuheiði og raunar allt upp að jökli.

Undir myndinni er hrúga af texta sem saminn er af greinilegum ókunnugleika. Þar er ein landfræðileg villa sem gengur ekki upp og kemur eins og þruma úr heiðskírum læk, ef svo má að orði komast:

Fyrir nokkrum árum var þar komið fyrir myndavél til að vakta eldfjallið Kötlu sem er í austurhlíðum Mýrdalsjökuls í um 23 km fjarlægð og sést afar vel frá Háfelli. [...] en jökulhlaup sem fylgja Kötlugosum geta fallið hvort heldur niður á Mýrdalssand, Sólheimasand, eða í Emstrur og niður á Markarfljótsaurar.

Hvernig skyldi nú allt þetta geta komið heim og saman, svona landfræðilega séð?


Ríkið semji frekar um skuldir en að skatta og skera

Fjálög hafa verið samþykkt á Alþingi. Skuldir ríkissjóð eru núna 1.406 milljarðar króna, 475 milljörðum hærri en árið 2008 og nærri 1.100 milljörðum hærri en 2007. 

Á næsta ári mun ríkissjóður greiða 78,4 milljarða í fjármagnskostnað. Ekki er gert ráð fyrir að gengið sé á skuldirnar, þvert á móti er aukið við þær. Þetta er gríðarleg fjárhæð.

Kristján Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir meðal annars þetta í viðtali í Fréttablaðinu í dag:

Verklagið sem við horfum upp á núna er þannig að menn eru að reyna að skatta sig og skera niður úr þeim vanda sem við er að glíma en ná ekki pólitískt saman um þá þætti sem lúta að því að auka framleiðsluna og atvinnuna í landinu, sem gefur ríkissjóði með þeim hætti meiri tekjur.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, tekur undir með Kristjáni um að ekki sé hægt að skattleggja þjóðin á sama tíma og skorið sé niður í ríkisrekstri. Hannsegir í viðtali við Fréttablaði í dag að semja „eigi við eigendur þeirra skulda að fresta þeim vaxtagreiðslum, eða hluta þeirra, um einhvern tíma, á meðan við komumst upp úr hruninu. Þá sé hægt að sleppa niðurskurði í heilbrigðis- og menntamálum.

Þetta er þekkt aðferð fyrir þjóðir að ná sér út úr erfiðum skuldamálum. Ná samkomulagi um skuldirnar og greiða þær seinna.

Þetta eru mjög athyglisverðir punktar há þingmönnunum. Miðað við þá stöðu sem þjóðin er í væri skynsamlegt að hætta ofurskattheimtu og reyna að fá frið til að atvinnulífið komist í fullan gang. Þá breikkar skattstofninn umtalsvert og ríkissjóður fær meiri tekjur til að standa undir skuldum sínum og vaxtakostnaði.

Þjóðverjar dauðþreyttir á að draga vagninn

Margur gjörist nú þreyttur á sífelldum barlómi frá Evrópu um kafsiglingu evrunnar og bága skuldastöðu fjölmargra ríkja í álfunni. Þetta er eins og með hundinn Lúkas sem enginn drap en fjöldi manns syrgði sárt og hótaði drápsmanninum öllu illu.

 Á vef vinstri vaktarinnar gegn ESB var skrifað um daginn:

Samkvæmt könnun sem þýska tímaritið Focus lét gera og birti í gær, um áratug eftir að evran var kynnt til sögunnar telja 60% Þjóðverja evruna slæma hugmynd.

85% af aðspurðum sögðust vera þeirrar skoðunar að evran hefði hækkað allt í verði. [...] og þrír fjórðu sögðust trúa því að gamli gjaldmiðillinn, þýska markið, hefði verið stöðugri og reynst hafa meiri stöðugleika gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Kemur þetta fram hjá fréttaveitunni AFP en fréttin birtist á mbl.is í gær, 4. des. 

Rétt eins og Lúkas ekki-heitinn-heitinn er þýska markið heitið enn lifandi í evrunni. Allir líta til Þýskalands sem forysturíkis í efnahagsmálum og vilja fleyta sér áfram í kjölfarinu. Þjóðverjar eru hins vegar dauðþreytti á því að draga vagninn og dreymir um þá tíð er þeir fengu að vera í friði.
mbl.is Allt til bjargar evrunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lélegur texti í auglýsingum Arion banka

augl arion 1

Arion banki eyðir peningum í ímyndar- og vöruauglýsingar rétt eins og önnur fyrirtæki. Þó er eins og enginn innan bankans hafi vit á auglýsingum eða auglýsingagerð og láti allt vaða sem „lookar“ þokkalega - og svo er offjár pungað út fyrir lélega vöru.

Rakst í dag á auglýsingar bankans á blaðsíðum fimm og sex í Fréttablaðinu í dag. Með þeim reynir auglýsingastofan að fleyta bankanum áfram með fallegum landslagsmyndum. Ekki tekst betur til en svo að þokkalegar myndir eru eyðilagðar með ljótu skilti sem tekur yfir nær helming plássins.

Textinn er er hins vegar afspyrnu illa skrifaður og af nær engri þekkingu. Höfundurinn veit ekkert um nástöðu orða. Hann hefur engan skilning á upplýsingagjöf. Hvort tveggja eyðileggur eiginlega öll áhrif auglýsingarinnar, hún snýst í andhverfu sína. Í auglýsingunni blaðsíðu fimm stendur eftirfarandi:

Veiðivötn eru vatnaklasi á Landmannaafrétti, sem samanstendur af allt að fimmtíu vötnum, bæði smáum og stórum. Vötnin eru mörg sprengigígar sem mynduðust í Veiðivatnagosinu árið 1477. Mikil urriðaveiði er í vötnunum en einnig hefur bleikju fjölgað síðustu árin, sérstaklega í þeim vötnum sem eiga samgang við Tungnaá.

Ég leyfði mér að lita nokkur orð. Held að flestir átti sig á því að rauðu orðin eiga við nástöðu en þau blálituðu eru annað hvort barnaleg samsuða eða bull. „... vatnaklasi ... sem samanstendur af ...“, „Vötnin eru mörg sprengigígar ...“. Þvílíkt rugl.

augl arion 2

Önnur auglýsing eftir sama aðila birtist á blaðsíðu sex og í henni er þessi texti: 

Þingvallavatn er stærsta náttúrulega stöðuvatn Íslands og er 83,7 km2 að flatarmáli. Þar sem Þingvallavatn er dýpst er það 114 m og er dýpsti punkturinn u.þ.b. 13m undir sjávarmáli.Vatnið er hið fjórða dýpsta á landinu. Mest af vatninu kemur beint úr uppsprettum og því er aðeins lítill hluti þess úr ám. Þó renna árnar Villingavatnsá, Ölfusvatnsá og Öxará í Þingvallavatn. Úr vatninu rennur Sogið en það er stærsta lindá á Íslandi.

Nú bregður svo við að enginn virðist hafa lesið textann yfir. Gallarnir eru þó fjölmargir. Ekkert bil er á milli orða á tveimur stöðum, annars vegar á eftir orðinu 13 og metrans og hins vegar þar rétt á eftir, á milli punkts og upphafsorð næstu setningar.

Höfundurinn heldur sig enn við sama heygarðshornið og tönglast á sömu orðunum sí og æ rétt eins og ekki sé neinum ljóst að verið er að fjalla um Þingvallavatn, lesandinn geri sér ekki grein fyrir því að Villingavatnsá er á og Þingvallavatn er vatn.

Það er hins vegar rangt að Þingvallavatn sé náttúrlegt stöðuvatn. Árið 1959 var útfallið stíflað og við það hækkaði vatnsborðið og nú hæð þess stjórnað með hliðsjón af þörfum virkjunar við Úlfljótsvatn.

Og þó Þingvallavatn sé djúpt og nái ef til vill þrettán metra undir sjávarmál er að öllum líkindum ekki rétt að tala um að það eigi dýpstan „punkt“.

Ég ætla ekki að gagnrýna skiltið í auglýsingunum væri þó ef til vill ærin ástæða til. Arion banki ætti þó að skoða auglýsingamál sín, sérstaklega textagerðina. Hún er alltof mikið vandamál í íslenskum auglýsingum.

 


Þrotabúið borgar, ekki þjóðin!

„Við“ erum ekki að borga! Íslenska þjóðin greiðir ekki krónu! Enda skuldar hún engum fyrir hrakleg ævintýri íslenskra bankamanna.

Ríkisstjórn vildi hins vegar borga og þar með talinn Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra. Staðreyndin er einfaldlega sú að þjóðin hafnaði því í tvígang að ábyrgjast eða greiða skuldir óreiðumanna hinna hrundu íslensku banka.

Nú greiðir þrotabú Landsbankans gamla fjögur hundruð þrjátíu og tvo milljarða króna. Munum að peningarnir koma ekki úr sameiginlegum sjóði landsmanna. Þetta eru restirnar af eignum gamla Landsbankans.

Og svo leyfir Árni Páll sér að skríða upp á dekk og persónugera ríkisstjórnina fyrir þessum viðburði, rétt eins og hún hafi skrifað út tékkann. Það eru slík endaskipti á sannleikanum að engu tali tekur.

Ég skora á lesendur þessara orða að muna eftir því er þjóðin rasskellti ríkisstjórnina og gerði að engu fyrirætlanir hennar um að láta alla Íslendinga ábyrgjast Icesave. Árna Pál ætti að logsvíða enn í afturendann en hann ber sig karlmannlega, þykist ekkert muna og vonar að þjóðin hafi fyrirgefið sér. 

Og munum einnig, að þó nú sé verið að greiða forgangskröfuhöfum gamla Landsbankans verða aðrar hrikalegar skuldir sama banka aldrei greiddar. Fyrir því virðist ekki vera til nokkur króna, nema því aðeins að Árni Páll telji að „við“ eigum að borga þá skuld líka ...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband