Rauðisandur, einn fegursti staður landsins

dsc_0289.jpg

Rauðisandur er ekki mjög þekktur ferðamannastaður en það á örugglega eftir að breytast. Hann er syðst á Vestfjarðakjálkanum, nálægt Barðaströnd í samnefndri sýslu.

Í huga mér er Rauðisandur sveipaður mikilli dulúð. Þangað kom ég sem lítill strákur á ferðalagi með foreldrum mínum. Þá var mikil byggð í sveitinni en nú hefur hún dregist mikið saman eins og svo víðar á landinu. Mér er ákaflega minnisstætt þegar við ókum á Volkswagen bjöllu yfir krókóttan og ósléttan fjallveginn sem endaði í miklum bratta þar sem hann hlykkjaðist niður á láglendið. Á leiðinni, rétt eins og núna, blasir við Bæjarvaðallinn og hvítir skeljasandar og er þá sem umhverfið lýsist upp.

dsc_0458.jpg

Hvergi á landinu held ég að umhverfið sé öllu fegurra. Hamragirt sveitin horfir móti sólu, blár og mislyndur Breiðafjörður liggur með landi og hinum megin er Snæfellsjökull, svo voldugur og mikill, rétt eins og þegar horft er á hann hinum megin frá.

Rauðisandur er réttnefni, samt er sandurinn að hluta til gulur. Bæjarvaðallinn er flæðareyrar eða lón sem tekur yfir meirihlutann af sveitinni. Þar fellur sjórinn inn og yfir megnið af sandinum og á fjöru kemur allt upp aftur. Annað undirlendi er lítið en grænt og hlýlegt.

dsc_0346.jpg

Skýringin á nafninu er ekki einhlít. Sumir segja að sveitin sé kennd við Ármóð hinn rauða sem nam þarna land. Sé svo er nafnið á mörgum landakortum rétt, en þar stendur víða Rauðasandur. Hins vegar notuðu foreldrar mínir fyrra nafnið og því held ég hér. Munum að nafnið er ekki eins í nefnifalli og aukaföllunum.

Ferðamaðurinn sem kemur á Rauðasand í góðu veðri ekur því sem næst að kirkjustaðnum Saurbæ og þar liggur lítill vegarslóði niður graslendið. Þar er gott að leggja bílnum og ganga yfir rauða, leirborna sandinn og niður í gula skeljasandsfjöruna. Á björtum degi er stórkostlegt að ganga berfættur í heitum sandinum - næstum því eins og í útlöndum, bara miklu betra.

dsc_0332.jpg

Kaffihús er á Rauðasandi. Þegar við áttum leið þarna um fyrir nokkrum dögum sat fjölmenni fyrir utan dyra, naut sólar og gæddi sér á því sem á boðstólnum var. Við áðum ekki þarna þarna að þessu en gerum áreiðanlega síðar.

Saurbæjarkirkja virðist vera nýlega uppgerð, sker sig úr umhverfinu með sínu svarta lit, reisuleg og falleg. 

Mikil saga er bundin Rauðasandi. Innst í sveitinni, undir brattri fjallshlíð stóð bærinn Sjöundaá. Um aldamótin 1800 bjuggu þar tvenn hjón. Sambúð þeirra endaði með því að eiginmaðurinn úr öðru hjónabandinu og eiginkonan úr hinu myrtu maka sína. Af þessu varð mikið dómsmál sem endaði með því að þau voru dæmd til lífláts. Hann var tekinn af líki haustið 1805 í Noregi en hún lést nokkru áður í fangahúsinu í Reykjavík og var dysjuð á Skólavörðuholti. Hét þar allt fram á 20. öld Steinkudys.

dsc_0326.jpg

Undir Stálfjalli er Skor og þar var áður útræði. Þekktastur er staðurinn fyrir það að þaðan lagði Eggert Ólafsson í sína hinstu för vorið 1768. Hann var þá nýgiftur og sigldi frúin með honum skip þeirra og fylgdarmanna sökk þennan dag. Lengi var ljóð Matthíasar Jochumssonar kennt í barnaskólum og nemendur látnir læra það utanað. Það var lítill vandi því vel er það samið. Fyrsta erindið í þessum heillandi ljóðabálki er svona:

Þrútið var lofti og þungur sjór,

þokudrungað vor.

Það var hann Eggert Ólafsson,

hann ýtti frá kaldri skor. 

Ég mæli með Rauðasandi. Skemmtilegast er að aka til Stykkishólms og sigla með Baldri yfir Breiðafjörð að Brjánslæk, þaðan um Barðaströndina, yfir í Patreksfjörð og þá til Rauðasands. Til baka er einstaklega gaman að aka alla firðina austur sýsluna.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kvitta undir þetta. Rauðisandur er er stórkostlegur staður, eiginlega allt annar heimur. Minnir á stilltu sumarkvöldi á leiktjöld í Sinbað sæfara-mynd í Cinemascope og litum.

Risinn hefði a.m.k. alveg geta verið þarna. Eða drekinn.

Grefill (IP-tala skráð) 17.7.2010 kl. 00:53

2 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Tek undir þetta þó eigi hafi ég farið niður á Rauðasand í afar mörg ár, síðast er ég fór þarna um kom ég akandi frá Ísafirði yfir í Vatnsfjörð, dvaldi þar í bústað í viku og fór þaðan í ferðir, skoðaði feðraslóðir, afi minn fæddist að Hvallátrum, við fórum í Látravík, Breiðuvík og að sjálfsögðu Patró og Tálkna.
Í Látravík voru enn tóttir eftir bæinn sem langafi minn og langamma bjuggu í, indæla fólk sem átti sumarhús þar rétt hjá passaði vel upp á staðinn, en síðar gerðist langafi hreppsstjóri Rauðasandshrepps með aðsetur í Breiðuvík.

Jæja ekki ætlaði ég nú að fara út í ættfræði hér, en þetta svæði landsins er hlýlegt, stórbrotið og afar fallegt, bara rétt eins og landið okkar er.

Góð samlíking hjá Þér Grefill.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 17.7.2010 kl. 06:58

3 identicon

Já, þessi neðsti kjálki Vestfjarðanna er náttúruperla eftir náttúruperlu. Eina slæma er vegurinn út á í Breiðuvik og Látrabjarg. Hann var a.m.k. hreinasta hörmung þegar ég koma þarna síðast. Skyldi vera búið að laga hann?

Grefill (IP-tala skráð) 17.7.2010 kl. 07:49

4 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Held ekki Grefill, en ef ekki þá er hann hörmung, reyndar eins og víðar á landinu þar sem vegagerð hefur verið sett í lægsta gír. Þó mikið sé nú breytt til batnaðar á vesturlandi niðra þá eru ekki mörg ár síðan maður ók vegleysur og í fjöruborði á leið til Ísafjarðar og hefur þú ekið Melrakkasléttuna, bara fjaran og eða yfir Öxarfjarðarheiði, en nú er að koma nýr vegur yfir sléttuna yfir í Þystilfjörð með tengivegum niður á Raufarhöfn og Kópasker.Svona mætti lengi telja

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 17.7.2010 kl. 08:30

5 Smámynd: Ragnar Gunnlaugsson

Systir mín bjó á Rauðasandi í um 50 ár. Heimsótti hana þar tvisvar í fyrra skiptið rigndi allan tíman sem ég stoppaði þá þótti mér ekki mikið tilkoma um fegurð hans,en í seinna skiptið var sól um alla jörð og þá sá ég fegurð hans.

Ragnar Gunnlaugsson, 17.7.2010 kl. 22:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband