Mjök erum tregt tungu at hræra ...

DSC_0002 111114 Sólarlag, ÁrbakkasteinarMjök erum tregt
tungu at hræra
eða loptvætt
ljóðpundara;
esa nú vænligt
of Viðurs þýfi
né hógdrægt
ór hugar fylgsni.

Svo segir í hinu ódauðlega kvæði Egils Skallagrímssonar sem hann orti sorgum hlaðinn vegna dauða sonar síns. Skáldið segist orða vant, eigi erfitt með að tjá sig og ólíklegt að úr verði kvæði eða að hugsanir hans skýrist.

Agndofa hefur þjóðin fylgst með rannsókn lögreglunnar á hvarfi ungrar stúlku og örvæntingafullri leit björgunarsveita. Fátt annað hefur komist að í heila viku en fréttir af rannsókninni og leitinni. Svona atburður er sem betur fer einsdæmi en eitt skipti er samt einu of mikið. Sorgin er gríðarleg, ekki síst vegna þess að fráfall ungu stúlkunnar virðist ekki hafa verið nein tilviljun heldur skelfilegur glæpur ...

Lífið á að vera gott en þannig er það ekki alltaf. Umferðin tekur sinn toll. Andartaks óaðgæsla ökumanns veldur tjóni, slysum á fólki og oft dauða. Örstutt er síðan ung stúlka lést í bílslysi á Grindarvíkurvegi og heilt bæjarfélag syrgir hana.

Við verðum að taka höndum saman og koma í veg fyrir ótímabæran dauða fólks. Þetta er undarlega að orði komist en byggist á því að fólk þarf fylgist með hverju öðru. Við þurfum að sinn uppeldi barna okkar á þann veg að þau beri ævilangt virðingu fyrir lífi og heilsu annarra. Lífið er síst af öllu eins og frá er sagt í kvikmyndum eða tölvuleikjum; morð, limlestingar og ógnir.

Við þurfum líka að sjá til þess að öryggismálum sé sinnt eins og kostur er. Vegir séu öruggir, greint sé á milli akstursstefna, krossgötur séu hættulausar, brýr ekki einbreiðar og svo framvegis. Framar þarf ökukennsla að verða mun betri. Það er til dæmis hræðilegt að sjá unga ökumenn upptekna við að handleika síma í akstri og gefa um leið engan gaum að umhverfinu.

Dauði Birnu Brjánsdóttur þarf að skipta máli fyrir þjóðina. Við verðum að taka okkur taka og gera ungu fólki lífið bjartara og öruggara.

Ógæfufólkinu sem ber ábyrgð á dauða Birnu verður refsað, þó ekki sem hefnd heldur til að betrumbæta, gera það að nýtum samborgurum.

Um leið verðum við að átta okkur á því að ekkert þjóðerni og enginn kynþáttur ber ábyrgð á gjörðum einstaklings. Hver er sinnar gæfu smiður.  


Enn hefur Píratinn Jón Þór ekki kært ákvörðun Kjararáðs

Ef þessir þrír aðilar bregðast allir þá mun ég kæra ákvörðun Kjararáðs til dómstóla og hef nú þegar fengið til þess lögfræðing.

BessastaðirRúmir þrír mánuðir eru nú síðan Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata hótaði kærum vegna úrskurðar Kjararáðs. Honum fannst hann fá ofskömmtuð laun og skrifaði þann 8. nóvember síðast liðinn grein í Fréttablaðið þar sem hann segir meðal annars þetta hér að ofan.

HérðasdEnn bólar ekkert á kæru Jón Þórs þingmanns. Samt hefur hann verið á hækkuðum launum í tvo mánuði. Má vera að honum veiti ekkert af og hafi því snúist hugur með kæruna eða vonast eftir því að allir séu búnir að gleyma henni.

Verst var þó að grein þingmannsins var ekkert svo ýkja skörp. Hann ætlaði sumsé að kæra nema eftirfarandi gerðist:

  1. Forsetinn setti bráðabirgðalög gegn ákvörðun Kjararáðs (hann heldur að forsetinn geti sett bráðabirgðalög)
  2. Kjararáð hætti við launahækkanirnar (er tæknilega ekki hægt)
  3. Formenn þingflokkanna lofi því að þeir láti Kjararáð draga launahækkanirnar aftur (sem þeir hafa enn ekki haft tíma til)

Ekkert af þessu hefur nú gerst. Forsetinn dúllar sér með börnunum á Bessastöðum, Kjararáð hefur ekki komið saman frá því í haust og formenn flokkanna eru uppteknir við að sinna börnum og ríkisbúi. Og hann Jón Þór gat gert vel við sig í mat og drykk um jólin, þökk sé veglegri launahækkun Kjararáðs.

Nema auðvitað að þingmaðurinn hafi lagt mismuninn til hliðar og geymi til þess tíma að launin verði lækkuð aftur. Þá skilar hann þessum aurum, skilvíslega með vöxtum.

Nei ... auðvitað hefur maðurinn eytt þessum launum. Þannig er mórallinn í alvörunni hjá flestum hrópendunum.

Og svona er nú pólitíkin stundum. Sumir stjórnmálamenn eru fátt annað en froðan, rísa upp í hita leiksins, hóta, skella hurðum, frussa og lemja á potta og pönnur.

Svo batnar þeim, hin vel leikna reiði „hjaðnar“ og vanagangur lífsins nær yfirtökunum. En seðlarnir, maður lifandi, seðlarnir, þvílíkur munur og búdrýgindi voru þessar launahækkanir fyrir ... suma.

Af skepnuskap mínum bendi ég á fyrri skrif mín um manninn sem þóttist ætla að kæra en hefur ekki enn komið sér að verki.


Bloggfærslur 22. janúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband