Þraut að vera á ómerkilegum bíl í umferðinni

bíllÍ umferðinni ríkir undarleg „stéttaskipting“, ef svo má að orði komast. Staðreyndin er að sumir bílar njóta almennrar viðurkenningar en aðrir þykja ómerkilegri. Þetta segi ég vegna þess að í tvær vikur hef ég ekið á Toyta Yaris, nýlegum og fallegum bíl. Hann er engu að síður álitinn í neðri stéttum umferðarinnar, réttlægri en flestir aðrir og niðurlæging mín sem ökumanns fylgir.

Aki ég á hægri akrein vestur Miklubraut og er með þeim öftustu í bylgju frá síðustu ljósum gerist það ósjaldan að sprækir ökumenn þeysa fram úr mér og troða sér fyrir framan mig til þess eins að beygja til hægri örskömmu síðar.

Það dugir einfaldleg ekki að halda sig fyrir aftan Yarisinn. Enginn, alls enginn ökumaður með snefil af sjálfsvirðingu vill vera fyrir aftan Yaris. Undantekningar eru stelpur, sem mega ekkert vera að því að fylgjast með umferðinni því þær eru að senda sms, og svo kínverskir ökumenn sem eru ekki vissir á því hvort aka eigi á grænu grasi eða svörtu malbiki.

Jafnvel strætó vill ekki vera fyrir aftan Yaris. Ef leigubílstjórar gætu sent dimman reykjarmökk út um púströrið myndi þeir gera það um leið og þeir svína á Yaris. Slík er fyrirlitningin.

Ég tek þessu öllu með jafnaðargeði en læri af og hef stundum lúmskt gaman af. Fyrst fannst mér þetta hrikaleg ókurteisi en núna veit ég að í umferðinni ríkir stéttaskipting. Hún fer eftir stærð bíls.

Hver kannast svo sem ekki við stóra jeppann sem druslast ekki af stað á grænu ljósi því bílstjórinn er að bora í nefið, og hann kemst upp með það, klárar úr báðum nösum áður en þeir sem eru fyrir aftan voga sér að flauta.

Eða flutningabílinn sem silast á vinstri akrein af því að ökumaðurinn er að tala í símann. Líklega eru meiri líkur á því að ná árangri við hryðjuverkamann með sprengjubelti en að fá flutningabílstjóra til að halda sig á hægri akrein.

Já, það er margt mannanna bölið. Ég þarf pottþétt að skipta um bíl á næstunni.


Bloggfærslur 21. janúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband