Óli Björn Kárason í 2. sætið í prókjöri í SV kjördæmi

Óli BjörnÉg vil hvetja Sjálfstæðisfólk í suðvesturkjördæmi til að taka þátt í prófkjörinu á morgun, laugardaginn 10. september. Fyrir utan formann flokksins, sem vonandi fær góða kosningu í fyrsta sætið, legg ég áherslu á að fólk kjósi Óla Björn Kárason en hann er sem stendur varaþingmaður. Að mínu mati er annað sætið merkt honum.

Hvers vegna Óla Björn?

Jú, af öllum þingmönnum og öðrum forystumönnum Sjálfstæðisflokksins ólöstuðum er enginn sem er iðnari við að kynna sjálfstæðisstefnuna. Hann hefur þekkingu og langa reynslu í stjórnmálum og þar að auki eldmóð og þrótt til að kynna stefnuna og halda forystumönnum flokksins við efnið.

Þetta hefur Óli Björn í langan tíma gert með snjöllum greinum sínum í Morgunblaðinu og jafnvel sauður eins og ég hef hrifist af röksemdafærslu hans og málefnalegri umfjöllun.

Hvernig á góður stjórnmálamaður að vera?

Í mínum huga er það einfalt mál. Hann þarf að hafa skýra stefnu, ekki endilega þá sem hefur meirihluta í skoðanakönnunum, heldur framar öllu skoðun sem hann rökstyður og skýrir og hefur til að bera eldmóð til að hrífa aðra með sér og sannfæra. Góður stjórnmálamaður snýst ekki eftir því sem vindurinn blæs. Stefna Óla Björns Kárasonar er skýr, það sýna ótal greinar um stjórnmál, hugmyndafræði og stefnumörkun í Morgunblaðinu og Þjóðmálum sem hann ritstýrir.

Forgangsröðun 

Þegar núverandi ríkisstjórn var nýlega tekin við skrifaði Óli Björn grein í Morgunblaðið. Mér er hún afar minnisstæð af ýmsum ástæðum. Í henni hvetur hann nýja ráðherra til dáða og bendir á margt sem þarf að taka til skoðunar. Hann sagði meðal annars:

Með þetta í huga eiga forystumenn nýrrar ríkisstjórnar að senda skýr skilaboð um að tími réttrar forgangsröðunar sé genginn í garð:

  • Á meðan það molnar undan heilbrigðiskerfinu og ekki er hægt að tryggja öllum landsmönnum viðunandi þjónustu höfum við ekki efni á því að ráðast í tuga milljarða króna byggingu á nýjum spítala.
  • Á meðan þjóðvegir landsins liggja undir skemmdum er rangt að byggja hús í nafni íslenskra fræða fyrir milljarða.
  • Á sama tíma og ekki er hægt að tryggja öfluga löggæslu um allt land er tómt mál að tala um að verja milljörðum króna í byggingu glæsilegs fangelsis.
  • Á meðan ekki er búið að rétta við hlut aldraðra og öryrkja er rangt að setja hundrað milljónir í að koma upp náttúruminjasýningu.
  • Á sama tíma og ekki er hægt að endurnýja úr sér gengin lækningatæki sjúkrahúsa höfum við ekki efni á að láta milljarða renna í »grænkun fyrirtækja«, »græn innkaup« eða í »grænan fjárfestingarsjóð«.
  • Á meðan Landhelgisgæslan fær ekki nauðsynlegan tækjakost til að sinna öryggishlutverki sínu til hlítar er eitthvað verulega brenglað við að byggja sérstakt menntavísindahús fyrir á annað þúsund milljónir.

Og hvað hefur síðan gerst. Umræðan um heilbrigðiskerfið hefur aldrei verið háværari. Ekki hefur reynst mögulegt að viðhalda þjóðvegum landsins eins og þörf er á. Lögreglan og Landhelgisgæslan er í fjársvelti þrátt fyrir fjölgun landsmanna og gríðarlega fjölgun erlendra ferðamanna. Aldraðir og öryrkjar kvarta hástöfum yfir kjörum sínum meðan embættismenn fá tuga prósenta launahækkun og það aftur í tímann. Kári Stefánsson hefur skrifað áróðursgreinar um úreltan tækjabúnað Landspítalans.

Ég held að Óli Björn hafi hitt naglann á höfuðið og rætt þarna um öll þau mál sem hafa verið í brennidepli samfélagsumræðunnar síðustu misserin, bæði hjá stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar sem og stjórnarandstöðunni.

Óli Björn í 2. sætið

Nú er kominn tími til að Óli Björn Kárason setjist á þing og láti þar til sín taka rétt eins og hann hefur gert í fjölmiðlum. Hér er maður sem er vís til að láta verkin tala. 

Kjósum Óla Björn í annað sætið.

Kjörstaðir

Kjörstaðir verða opnir á morgun frá 9 til 18 og er prófkjörið opið öllum flokksbundnum sjálfstæðismönnum 15 ára og eldri. Þeir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins sem ganga í flokkinn á kjördegi skulu þó hafa náð 18 ára aldri 29. október en þá verða þingkosningar.

Kosið er á þessum stöðum:

  • Garðabær – Félagsheimili Sjálfstæðisfélagsins í Garðabæ, Garðatorgi 7.
  • Hafnarfjörður – Víðistaðaskóli, Hrauntungu 7
  • Kópavogur – Lindaskóli, Núpalind 7
  • Mosfellsbær og Kjósin – Félagsheimili sjálfstæðismanna í Kjarna, Þverholti 2
  • Seltjarnarnes – Félagsheimili sjálfstæðismanna, Austurströnd 3

Bloggfærslur 9. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband