Sjálfstæðisflokkurinn studdi Þorgerði í erfiðleikum hennar

Fari Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrum varaformaður Sjálfstæðisflokksins, í framboð fyrir annan stjórnmálaflokk, eru skrýtin tíðindi, raunar eru það fréttir að hún skuli vera að hugleiða þetta. 

Á alvarlegustu erfiðleikatímum í pólitísku og persónulegu lífi Þorgerðar stóðu Sjálfstæðismenn þétt að baki hennar. Létu yfir sig ganga þaulskipulagðan áróður andstæðinga flokksins um fjármál hennar og eiginmannsins. Formaður Sjálfstæðisflokksins varði hana og það gerðum við óbreyttir sjálfstæðismenn. Hún naut viðtæks stuðnings innan flokksins en sagði af sér varaformennsku vegna þess að hún vildi ekki að flokkurinn yrði fyrir skaða vegna hennar. Það var talið merki um göfuglyndi hennar og trygglyndi.

Þorgerður Katrín er ESB sinni. Meirihluti Sjálfstæðisflokksins er á móti aðild að ESB og það hefur reynst vera rétt mat miðað við stöðu mála í Evrópu undanfarin misseri, allir sjá það. Enginn íslenskur stjórnmálaflokkur leggur lengur áherslu á aðild að Evrópusambandinu.

Hvað getur valdið því að Þorgerður Katrín sé að íhuga framboð fyrir annan stjórnmálaflokk? Er það af metnaði eða „telur hún að hennar tími sé kominn ...“? Eða hvað er það við Sjálfstæðisflokkinn sem veldur því að hún tvístígur? Ekki getur það verið ESB málið, það er löngu dautt.

Í pistlum á þessum vettvangi hef ég iðulega gagnrýnt skort á stefnufestu stjórnmálamanna, flatneskju í stjórnmálum, skort á eldmóði og framsýni. Þess í stað er engu líkar en að stjórnmálamenn noti skoðanakannanir til stefnumótunar. Stjórnmálamenn leita dauðaleit að baráttumálum í stað þess að taka þátt í stjórnmálum vegna staðfastra og eindregna skoðana.

Flatneskjan fer vaxandi í öllum stjórnmálaflokkum. Hégómleikinn virðist vera alls ráðandi, vinsældir eru málið, allir eiga að vera eins. Æ færri fara í stjórnmál vegna stefnu sinnar. Aðferðin felst í því að stofna fyrst flokk og síðan finna sér skoðun til að hanga á, eitt málefni kann að duga.

Ég trúi því ekki að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir yfirgefi þann flokk sem hún á svo margt gott að gjalda. Engar málefnalegar forsendur eru fyrir því. Flokkurinn hefur alltaf sýnt henni tryggð og hún á móti. Hún hefur aldrei nokkru sinni gagnrýnt stefnu flokksins síðan hún sagði af sér varaformennsku. 


mbl.is Leiðir Þorgerður Katrín lista Viðreisnar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband