Samfylkingin eyðileggur lýðræðislegar kosningar

Margrét Tryggvadóttir, fyrrverandi þingmaður Borgarahreyfingarinnar, hlaut kosningu í 3. sæti listans. Hún var hins vegar færð niður þar sem enginn þeirra sem hlutu efstu sætin voru 35 ára eða yngri en Margrét er 44 ára. Vegna kynjasjónarmiða var Margrét færð enn neðar og endaði í 5. sæti listans.

Þetta er í forvitnilegri frétt á visir.is um prófkjör Samfylkingarinnar í suðvesturkjördæmi. Í henni kemur berlega fram að lýðræði er ekki nothæft.

Í lýðræðinu felst aðeins ein regla, að meirihluti atkvæða ræður. Allar breytingar eða undantekningar frá reglunni eru ólýðræðislegar.

Þeir sem hvorki hafa trú á lýðræðinu né kjósendum setja reglur þess efnis að atkvæði ráði ekki niðurstöðunni. Þá er lýðræðið ónýtt.

Hjá Samfylkingunni er reglan sú að konur og karlar verða að vera jafnmargir á lista. Komi í ljós að vilji kjósenda fellur ekki að þessu eru niðurstöðurnar einfaldlega leiðréttar. Lýðræðið er ónýtt.

Ekki nóg með það heldur er önnur regla til sem lýtur að aldri frambjóðenda. Og viti menn ... Í ljós kemur að enginn undir 35 ára er í efstu sætunum. Þá er gripið inn í. Þar með er lýðræðið ónýtt.

Einn ungur frambjóðandi sem ekki hafði haft erindi sem erfiði í prófkjörinu er með handafli færður ofar og honum troðið í eitt af efstu sætunum. Konan sem hafði verið kjörin í það sæti er sett tveimur sætum neðar. Hún er 44 ára, eldgömul, níu árum eldri en sá „ungi“.

Í Sjálfstæðisflokkum gildir einföld regla í prófkjörum. Fjöldi atkvæða ræður röðun á framboðslista. Punktur. 


Sagan af fulla kallinum og borgarstjóranum

Einhvern tímann birtist í fjölmiðli brandari um manninn sem týndi lyklunum sínum á leið heim til sín eftir mikla drykkju:

Lögreglumaður tók eftir manninum í myrkri nætur við Hringbraut þar sem hann skreið eftir gangstéttinni.

„Hvað ertu að gera hér?“ spurði löggan. Maðurinn sagðist vera að leita að húslyklunum sínum.

„Týndirðu þeim hér?“ spurði löggan, einkar fávíslega.

„Nei,“ sagði sá fulli. „Ég týndi þeim niðri í miðbæ en hér er bara miklu betri lýsing.“

Með rökum má fullyrða að best sé að leita að húslyklunum þar sem lýsingin er góð en lakari aðstæður í myrkri. Lesandinn veit hins vegar að þar með er ekki öll sagan sögð.

Ekkert fyndið er við söguna af Degi Eggertssyni, borgarstjóra, og samferðafólki hans sem ætla að heimsækja stórborgir til að kynna sér lestarsamgöngur.

Í stórborgum er ábyggilega margt til lærdóms um lestarferðir og þar er betra að vera heldur en í smábæjum. Hér má vísa til samanburðar í söguna af fulla kallinum.

Kjartan Magnússon er einn af þessum leiðinlegu borgarfulltrúum sem sífellt spillir starfsgleðinni hjá meirihlutanum í borgarstjórn, Samfylkingu, Vinstri grænum, Bjartri framtíð og stjórnmálaflokknum Píratar (vona að ég hafi ekki gleymt neinum) með einhverjum ómerkilegum athugasemdum.

Með rökum má fullyrða að best sé fyrir borgarstjórann að leita upplýsinga um lestarsamgöngur í borgum þar sem íbúar eru margfalt fleiri en í Reykjavík. Lesandinn veit hins vegar að þar með er ekki öll sagan sögð. Fjarri því.


mbl.is Affarasælla að heimsækja sambærilegar borgir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband