Látnir gista ekki í þvottahúsum

LátnirStundum er svo afskaplega skemmtilegt að lesa það sem „óvart“ er skrifað í fjölmiðlum.

Eiður Svanberg Guðnason segir í málfarspistlum sínum að oft þegar illa er skrifað þá bendi það til að svokölluð „fréttabörn“ hafi hamrað á lyklaborð. Átt er við að reynslulítið fólk fái eftirlitslaust að vaða um fjölmiðla með þeim afleiðingum að fréttir eru uppfullar af málfarsvillum, stafsetningavillum og hugsanavillum.

Dæmi um hið síðarnefnda er úr tólffréttum Bylgjunnar í dag en þar sagði hljómfögur stúlkurödd þetta: „Úkraína sigraði Eurovision“.

Það væri nú merkileg þversögn ef Eurovision hafi verið þátttakandi í Eurovision. Réttara hefði verið að bæta forsetningunni „í“ inn: „Úkraína sigraði í Eurovision“.

Fjölmiðlun á Íslandi er eins og hún er, svona upp og niður. Einna helst virðist að taka þurfi til hendinni á dv.is, pressan.is og eyjan.is. Þessir miðlar eru allir undir sama eignarhaldinu og fyrir þá sem standa utan við þá virðist sem að ungir og reynslulausir krakkar, „fréttabörn“ séu ráðin þangað á litlum launum til að „búa til“ fréttir, þýða eitthvað úr erlendum miðlum og valsa síðan um eins og andinn blæs þeim í brjóst.

Á vefritinu pressan.is má daglega sjá tilvitnanir í aðra fjölmiðla. Dálítið skrýtið fyrirbrigði að fjölmiðill skuli gera slíkt frekar en að búa til sínar eigin fréttir. 

„Látnir gista í þvottahúsum“, segir í þessari tilvitnun eins og sést á meðfylgjandi mynd. Þar sem undirritaður hefur afar fátæklegar upplýsingar um lífið eftir dauðann notfærði hann sér þennan link og hrökk þar inn á mbl.is. Þar er hins vegar ekkert um látna heldur er fréttin um slæman aðbúnað útlendra verkamanna í ferðaþjónustu og sumir þeirra þurfa að sæta því að hvílast í þvottahúsinu sem þeir vinna í.

Svona gerast nú málin þegar fréttabörnin fá að leika lausum hala. Svo aumt er það í þessu tilfelli að þau geta ekki einu sinni haft rétt eftir öðrum fjölmiðli. Þannig verður ein fjöður stundum að mörgum hænum.

Látnir tínaAðrir fjölmiðlar eru stundum ekkert skárri. Fyrir um átta árum stóð þetta í fyrirsögn á mbl.is:„Látnir tína upp plastpoka“

Í Viðskiptablaðinu stóð skýrum stöfum í fyrra: „Látnir vinna á gólfinu“.

Af þessu má draga þá ályktun að lesendur eru tíðum látnir fara fýluferð.

 


Bloggfærslur 15. maí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband