Er í lagi að aka á mótorhjólum upp á Vífilsfell?

DSC_4418 BNú er eiginlega nóg komið. Ekki það að ég hafi eitthvað á móti mótorhjólamönnum, en þeir eiga að halda sig á vegum eða innan merktra svæða, ekki þar fyrir utan, ekki upp á fjöllum. Jafnvel þó þeir komist þangað. 

Í glampandi sól og blíðu í dag gekk ég á Vífilsfell. Hafði með mér ísexi og brodda enda hart færi, líklega um ein stig frost. Sólin linaði dálítið skarann en í skugga var hann grjótharður erfitt að fóta sig. Ég komst þó upp.

DSC_4423 BJá, fallegur dagur. Hitti tvo göngumenn.

Uppi heyrðist skyndilega mikill hávaði. Fyrir neðan, vestan undir Vífilsfelli, voru tvö mótorhjól á ferð í snjónum. Spóluðu sig upp og niður og þvert á fjallshlíðar. Maður er svosem vanur þessum látum. Hafði orð á þessu við þann sem ég hitti uppi og hann sagði: „Já, en einhvers staðar verða vondir að vera.“DSC_4491 - Version 2

Má vera, en mótorhjólamenn spyrja ekki um leyfi. Þeim dugar ekki Bolaldan, búnir að marka ljóta slóða vestan undir Bláfjöllum, inn í Jósefsdal, um Sauðadalahnúkar og ábyggilega víðar. Þeir verða að fara eitthvað meira en þeim leyfist, helst upp á fjöllin. Svo ganga þeir á lagið.

Þegar ég gekk niður af toppnum og út á móbergshrygginn sá ég mér til mikillar undrunar DSC_4429 - Version 2að tvö mótorhjól voru komin upp á Sléttu, sem svo er kölluð, svæðið norðan við hrygginn.

Hjólamennirnir óku þvers og kruss um Sléttuna og annar þeirra lagði svo í hrygginn og gaf allt í botn. Hann komst um tæplega hálfa leið og þá gróf hann sig niður. Eftir það snér hann við og ók niður á Sléttu. Síðan hurfu þeir félagar hurfu mér sjónum niður gilið norðvestan við Sléttuna.

DSC_4431 BÉg hraðaði för minni niður en var ekki á broddunum. Snjórinn var harður á köflum og annars staðar brotnaði skarinn og ég sökk, stundum upp í kálfa. Þegar ég kom að norðvesturbrún Sléttu var þar meiri snjór en ég hafði séð áður. Mótorhjólamennirnir höfðu komst þarna upp, og niður aftur. Á sumardegi er þarna gil en núna fyllti snjórinn það.

Greinilegt var að ekki var auðvelt að komast þarna upp ef dæma mátti af förunum eftir hjólin. Sums staðar voru þau ansi djúp, næstum því upp í hné. Hjólin höfðu auðveldlega spólað sig niður úr þykkum skaranum sem þarna var víða og komist upp á brún á hraðanum. Greinilega snjallir gæjar þarna á ferð.

DSC_4437 BOfan af Vífilsfelli hafði ég séð bíla við Arnarsetur en fáir leggja leið sína þangað. Þegar ég kom niður ók ég þangað og sá þar tvo sendibíla og nokkur mótorhjól við þá. Í mosanum lágu sjö hetjulegir ungir menn í fullum herklæðum mótorhjólista. Ég kastaði kveðju á það og spurði hvort einhverjir í þeirra hóp hefðu afrekað það að fara fyrstir manna á Vífilsfell. Þeir játuðu því og sögðust hafa ætlað í toppinn. 

Nei, sagði ég. Þið munið aldrei komast á toppinn.

Jú, sagði einhver, ef snjórinn hefði verið harðari.

Nei, endurtók ég. Þið getið aldrei komist á toppinn.

DSC_4494 BÞá kveikti einhver á perunni og spurði hvort toppurinn væri klettar. Ég játti því og þannig skildist mér að þessir drengir hefðu aldrei komið á Vífilsfell.

Ég bað um að fá að taka mynd af hetjunum sem óku upp en fékk neitun. Bað þá um að fá að taka mynd af hjólunum, en aftur var mér neitað. Ég ók þá inn fyrir bílana og snéri við og á leiðinni til baka smellti ég myndum af tveimur hjólum. Ekki gat ég séð að þau væru á númerum. Hins vegar voru þetta tröllaukin tæki, á hrikalegum nöglum sem geta tætt sig niður úr snjó og skara og eflaust líka þannig að stórsjái á móbergi.

Nú kann einhver að spyrja hvort það sé ekki í lagi að frískir og hressir strákar spóli um fjöllin, skemmi ekkert nema róta upp snjónum.

Þessu skal ég svara í stuttu máli. Fyrir það fyrsta er akstur utan vega bannaður. Svo má nefna að þvílík mótorhjól sem þetta eru með risastörum nöglum á dekkjunum geta stórskaðað umhverfið. Að auki eiga mótorhjólamenn ekkert erindi upp á fjöllin. Jafnvel þó snjór sé ekki yfir held ég að mótorhjól eða fjórhjól komist auðveldlega langleiðina upp á Vífilsfell. Ég gæti nefnt nokkra staði en ætla ekki að auðvelda mönnum ferðir á þessum skrímslum.

Svo er það óumdeilanleg staðreynd að sé gefið eftir að þessu leyti bresta fljótlega aðrar varnir. Dæmi um það er Bolaalda sem svokallaðir krossarar fengu leyfi til að nota fyrir íþrótt sína. Það hefur ekki dugað þeim eins og áður sagði. Ég á fjölda mynda af mótorhjólamönnum undir Vífilsfelli, Bláfjöllum, Hengli og Hengladölum. Landskemmdir af mótorhjólum eru greinilegar.

Nú veit ég ekki hvort lög hafa verið brotin með akstri rúmlega hálfa leið upp á Vífilsfell. Skoða það síðar. Það er hins vegar leitt að göngumenn fái ekki að stunda áhugamál sitt, njóta náttúrunnar fyrir reykspúandi og hávaðasömum tækjum. Fyrir mitt leyti leggst ég gegn utanvegaakstri á fjöll. Ég vil frið á fjöllum. Vondir verða bara að vera þar sem þeir eiga heima.


Bloggfærslur 9. apríl 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband