Dauðaleit að manni ofan í svefnpoka ...

Svefnpoki

Í gær var mér starsýnt á fyrirsögn á mbl.is. „Fannst ofan í svefnpoka sínum“ sagði þar blákalt eins og maðurinn hafi ekki fundist fyrr en gerð var dauðaleit í öllum afkimum svefnpokans.

Systir mín sem var kennari hefur þá kenningu að málskilningur og góður orðaforði komi af lestri bóka.

Held að það sé heilmikið til í því vegna þess að málskilningur skiptir þann sem skrifar miklu máli ekki síður en orðaforðinn. Vandinn er hins vegar sá að sá sem byggir á rýrum orðaforða veit af skorti sínum.

Vissulega er stundum bráðskemmtilegt að lesa eftir þann sem ekki hefur skilning á málinu. Þá kemur eitthvað eins og „þruma úr heiðskírum læk“, einhver „skellir skallaaurum“ við einhverju og sumir eru hressir „eins og nýsleginn túnfiskur“ svo eitthvað sé nefnt.

Í fréttinni á mbl.is virðist sem að skilningur blaðamannsins sé sá að fólk sé ofan í svefnpoka og má það til sannsvegar færa. Venjan er þó sú að leggjast til hvílu í svefnpoka eða vera í svefnpoka. Sumir segja að munurinn skipti ekki máli enda hvort tveggja rétt, að eitthvað sé í pokanum og eitthvað sé ofan í pokanum. Á þessu er þó blæbrigðamunur.

Hér er gott ráð fyrir þann sem vill vera blaða- eða fréttamaður. Byrja að lesa bækur við fimm ára aldur og halda því áfram út ævina. Sá sem er orðinn tvítugur eða meira og er ekki enn farinn að stunda bóklestur ætti að leggja eitthvað annað fyrir sig, jafnvel þó hann sé blaðamaður. Lágmarkið eru sjötíu og fimm bækur á ári sem þó er ekki vísindalega sannað.

Þetta á við fjölmarga blaða- og fréttamenn á Ríkisútvarpinu, Stöð2/Bylgjunni, DV, allir á pressan.is og reitingur á fólki á Mogganum, mbl.is, Fréttablaðinu og visir.is.

Sá sem ekki trúir þessari fullyrðingu ætti að venja sig á að lesa pistlana hjá Eiði Guðnasyni. Þar má sjá hvernig málfarinu hjá fjölmiðlastéttinni hnignar. Sorglegast er að útgefendur gera hins vegar ekkert í málinu og fyrir vikið er þeir og blaða- og fréttamenn rasskelltir nokkrum sinnum í viku, ekki þó bókstaflega. Menn eins og Eiður eru hins vegar kallaðir kverúlantar meðal fjölmiðlafólks.

Og þú, helvítið þitt, þú ert ekkert betri sjálfur,“ hrekkur ábyggilega upp úr einhverjum sárum skrifara á ofangreindum miðlum. Má vera. Þessu er þó varla hægt að svara nema á svona:

Hið eina sem er verra en að lesa slæmt mál og lélegar frásagnir í íslenskum fjölmiðlum er að vera staðinn að slíku sjálfur.


Bloggfærslur 9. mars 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband